Um helgina sá ég tvær leiksýningar sem áttu það sameiginlegt að vera leiknar í yfirgefnu iðnaðarhúsnæði sem listin hefur nú lagt undir sig. Í niðurlögðu frystihúsi á Stokkseyri, Hólmaröst, sýndi stór hópur nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurlands Alla leið heim, litríka og stórskemmtilega útfærslu á þeirri frægu bíómynd O Brother, Where Art Thou? (sem fyrir sitt leyti er lauslega byggð á Ódysseifskviðu Hómers), og í gamalli plastverksmiðju á Seltjarnarnesi, sem nú gengur undir nafninu Norðurpóllinn, sýndi Stúdentaleikhúsið áhrifamikið leikverk Dennis Kelly, DNA. Svona geta hinar skapandi atvinnugreinar hlaupið undir bagga þegar aðrar bregðast. Þetta eru eins ólík verk og hugsast getur en báðar sýningarnar vel unnar og af miklum metnaði.

Alla leið heimUlysses Everett McGill (Jónas Ellertsson) þolir ekki vistina í fangelsi og þráir að komast heim til sinnar Penelópu eða Penny (Guðrún Margrét Valsteinsdóttir) en hann á erfitt um vik því hann er hlekkjaður við þá Delmar (Vala Hauksdóttir) og Pete (Snorri Hjörvar Jóhannsson). Til að fá þá til að flýja með sér lýgur hann að þeim að hann eigi falinn fjársjóð heima í héraði og þeir fallast á að fara með honum. Ferðin heim verður ekki síður ævintýraleg og háskaleg en hjá Ódysseifi forðum; meðal annars verða á vegi þeirra svikull eineygður biblíusali, lyginn bóndadurgur, blindur spámaður, þrjár kynþokkafullar syngjandi sírenur, duglegur bankaræningi og heill herskari af Ku klux klönurum sem ætla að fara að hengja svertingja. Inn á milli atriða með þeim félögum fáum við að vita hvað gengur á hjá Penny. Hún er trúlofuð Vernon (Kári Úlfsson) sem er áróðursmeistari Homers Stokes (Ármann Ingunnarson), vinar litla mannsins (Marta Kristjánsdóttir) og aðalkeppinautar fylkisstjórans Pappys O’Daniel (Gunnlaugur Bjarnason) í komandi kosningum.

Eiginlega alveg óvart lenda strokufangarnir þrír í liði O’Daniels en þá eru þeir orðnir heimsfrægir í öllu fylkinu fyrir gamalt lag, Alla leið heim, sem þeir sungu inn á plötu í bríaríi. Eins og sá blindi spáði var fjársjóðurinn annar en sá sem þeir leituðu að. Allan tímann er löggan auðvitað á eftir þeim og hurðin skellur æðioft nærri hælum þeirra.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvernig öll þessi ósköp komist fyrir á einu sviði í einu leikriti þá er hugmyndaflug lausnarorðið. Sviðið er raunar geysistórt miðrými og leiksvið í rúmgóðum samkomusal, og veitir ekki af, en hugkvæmni leikstjórans Árna Kristjánssonar á sér heldur ekki mikil takmörk. Sýningin var hröð, atriðaskipti örugg og stundum var atriði varla byrjað þegar það var búið og maður varð að grípa andann á lofti til að hlæja áður en næsta atriði var komið á fullan skrið. Ég er þá til dæmis að hugsa um beljuna (Sara Sif Kristinsdóttir) sem var skotin!

Sérstaka athygli vekur tónlistin í sýningunni sem Helgi Rafn Ingvarsson stýrir. Það sem vantaði upp á í framsögn bættu ungmennin upp í söng. Auk titillagsins verður söngur sírenanna, Írenu Víglundsdóttur, Kristrúnar Steingrímsdóttur og Þórdísar Imsland, sérstaklega minnisstæður. Það hefði verið auðvelt að láta þær leiða sig hvert sem vera skyldi.
Leikgerðina upp úr bíómyndinni vann leikstjórinn með Snorra bróður sínum en það var leikráð FSU sem fékk hugmyndina. Hún hefði nú getað dregið kjarkinn úr minni körlum en þeim Árna, Snorra og Helga Rafni en árangurinn er svo góður að mikið má vera ef leikgerðin verður ekki notuð víðar á næstu árum.

Súdentaleikhúsið fer aðra og mun venjubundnari leið að þessu sinni. Það réð leikstjórann Söru Martí Guðmundsdóttur og hún valdi eitt af verkum Dennys Kelly til að þýða (sjálf, ágætlega) og setja upp. Þetta er þriðja leikverkið sem sett er upp hér á landi eftir Kelly á rúmu ári og jafnandskoti gott og hin tvö.

DNAUppsetningin er eins einföld og hún var flókin í Alla leið heim. Á stólaröð innst á sviðinu sitja tíu ungmenni. Ýmist eru þau lýst upp tvö og tvö þegar þau ræða saman eða þau flytja stólana framar á sviðið í stærri senum. Á vegginn bak við þau er varpað myndum úr heldur nöturlegu umhverfi (Ragnheiður Maísól Sturludóttir sá um leikmynd). Við fáum tilfinningu fyrir hverfi í útjaðri stórborgar; utan við það er ótótlegur skógur þar sem krakkarnir koma saman. En þegar verkið hefst á samtali Magga og Jóhönnu (Ólafur Ásgeirsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir) hefur hrikalegur atburður gerst. Þau voru „bara” að stríða Adam (Hlöðver Eggertsson) en gengu skrefi of langt og nú er Adam dauður. Það vita Finnur (Kjartan Darri Kristjánsson) og Lóa (Dominique Gyða Sigrúnardóttir) ekki og þegar þau hitta gengið er þeim sagt frá því sem gerðist – og okkur um leið.

Það gerir sögumönnum erfiðara fyrir að fyrirliðinn Nonni (Guðmundur Felixson) bannar þeim að nota orðið „dauður” – og um hríð verður aðalspurningin sú hvort hægt sé að banna orð. Nonni gerir þeim fullljóst að það geta valdsmenn ef þeim sýnist. Guðmundur var óhugnanlega sannfærandi í hlutverkinu og ekki voru þau síður sannfærandi „undirmenn” hans, Danni (Alexander Briem) og Ólöf (Kristín Rós Birgisdóttir). Fremst meðal jafningja voru þó þau Kjartan Darri og Dominique Gyða, hann sem hinn þögli, síétandi snilldarheili og hún stúlkan sem talar í endalausri síbylju, spyr og svarar sér sjálf, talar fyrir þau bæði, nema þá sjaldan hann tekur til máls. En þá skiptir líka sköpum hvað hann segir.

Dennis Kelly er upptekinn af lygum, blekkingavefnum sem við spinnum þegar við þurfum að koma okkur út úr vandræðum. En öfugt við köngulærnar getur farið svo að við festumst í eigin vef og það gerist í DNA. Leikritið er afar vel skrifað og nær langt út fyrir sig aftur í tímann og inn í framtíð krakkanna sem við kynnumst. Fyrirfram hefði ég efast um að það væri á færi annarra en leikþjálfaðs fólks að leika það en nú á ég erfitt með að ímynda mér að það verði betur leikið en hjá Stúdentaleikhúsinu og má Sara Martí vera virkilega stolt af verki sínu. Stór kostur er auðvitað líka hvað þau eru ung – og óþekkt. Það leyfir manni að ímynda sér þessa stuttu stund að þessir viðburðir hafi komið fyrir þau í alvörunni. Óskandi er að sem allra flestir skólanemendur sjái þetta verk og fái tækifæri til að ræða það saman. Það gæti verið á við ótal fyrirlestra um afleiðingar eineltis og gengjamyndunar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir