Það er þannig með farsa – eins og Nei, ráðherra sem LR frumsýndi í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins – að það má eiginlega ekkert segja um ganginn í þeim. Allt sem gerist verður að koma áhorfendum á óvart, annars gæti hláturinn látið á sér standa. Þetta gerir heldur ekkert til því það sem gerist i försum batnar ekkert þó að maður beiti djúpsálarfræðinni eða bókmenntafræðilegum aðferðum á það. Farsar felast í því að tala hratt, fara á örskotshraða inn og út úr herbergjum og þó umfram allt að ljúga svo hratt að loginn standi bæði fram og aftur úr manni. Það vantaði ekki upp á neitt af þessu í gærkvöldi.

Nei RáðherraÞó er óhætt að lýsa upphafsaðstæðum. Örvar Gauti, ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og ungur maður á hraðri uppleið (Guðjón Davíð Karlsson), á að vera á kvöldfundi á Alþingi þar sem yfir standa mikilvægar umræður en kýs þess í stað að dvelja á herbergi sínu á Hótel Borg ásamt Gógó (Lára Jóhanna Jónsdóttir), einkaritara Sigmundar Davíðs, formanns Framsóknarflokksins. Eiginkona Örvars Gauta, Rannveig (Unnur Ösp Stefánsdóttir), er heima fyrir austan – eða Örvar veit ekki betur. Einhvern tíma kvölds ætlar Örvar Gauti að skreppa yfir götuna og segja sitt í umræðunum, svona til að gera skyldu sína við formann sinn og forsætisráðherra. Allt hefði þetta úthugsaða skipulag heppnast fullkomlega ef skötuhjúin hefðu ekki fundið dauðan mann í hótelglugganum (Þröstur Leó Gunnarsson), hálfan inni og hálfan úti. Þau grípa til þess ráðs í örvæntingu að kalla á aðstoðarmann Örvars, Guðfinn Maack (Hilmar Guðjónsson), sem ekki hefur beinlínis ráð undir rifi hverju en það hefur húsbóndi hans, Guðfinnur þarf bara að hlýða. Brautin verður þó sannarlega hvorki bein né greið, og á leiðinni til lausnar verða ótalmargar uppákomur sem skemmtu leikhúsgestum alveg undir drep. Þar bættust í hópinn starfsmenn hótelsins (Bergur Þór Ingólfsson, Sigurður Sigurjónsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir) og fylgihnettir Gógóar og Guðfinns (Rúnar Freyr Gíslason og Elma Lísa Gunnarsdóttir). Einn „leikari“ er hér enn ónefndur og verður að vera það – þið vitið hvern ég meina þegar þið eruð búin að sjá sýninguna – en ég fullyrði að hann er ekki sístur!

Farsinn Nei, ráðherra er sagður eftir Ray Cooney en þýðandi hans, Gísli Rúnar Jónsson, á svo mikið í textanum að þegar bestu brandararnir eru rifjaðir upp þá reynast þeir allir byggjast á séríslenskum fyrirbærum, þekktum Íslendingum eða nöfnum persóna í leiknum. Það er til dæmis ekki lítið grín sem reynist vera hægt að vinna úr eftirnafni Guðfinns. Þó að Ray eigi fléttuna sem allt spinnst auðvitað af er ekki hægt annað en að þakka Gísla Rúnari fyrir skemmtunina.

Ekki hefði Gísli Rúnar þó haft erindi sem erfiði ef leikararnir gætu ekki farið nógu andskoti hratt með textann hans og gert sér á annan viðeigandi hátt sem mest úr honum. Þar mátti varla finna misfellu enda vanur maður í brúnni þar sem er leikhússtjórinn sjálfur, Magnús Geir Þórðarson. Fremstur meðal jafningja er Guðjón Davíð sem enn á ný sýnir hvað hann er óhemjugóður gamanleikari og svo lipur í hreyfingum að stappar nærri hinu yfirnáttúrulega. Samt hló ég næstum því ennþá meira að líkinu. Ég hélt á einu ákveðnu andartaki að Þröstur Leó myndi drepa mig úr hlátri. Rúnar Freyr sýndi á sér alveg nýja hlið og reynist vera þessi fíni skaphundur og ofbeldismaður og nýliðarnir Lára Jóhanna og þó sérstaklega Hilmar, sem mikið reyndi á, voru eins og fiskar í vatni innan um þrautþjálfaða félaga sína. Það verður enginn svikinn af þessu stykki sem á annað borð kann að slaka á og hlæja. Ég spái því gangi til 2020!

 

Silja Aðalsteinsdóttir