Fanný og AlexanderLeikverkið Fanný og Alexander eftir sænska kvikmyndaskáldið Ingmar Bergman var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í gær undir stjórn Stefáns Baldurssonar sem einnig vann leikgerðina. Fantagóð þýðingin reyndist vera gerð af Þórarni Eldjárn og töfrafullt sviðið gerði Vytautas Narbutas. Þá voru búningarnir ekki síðri, heiðurinn af þeim á Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir. Þetta er sannkölluð skrautsýning en afar smekkleg og stílhrein.

Sagan hefst á aðfangadagskvöld árið 1927 í íbúð ættmóður Ekdahlfjölskyldunnar, leikkonunnar Helenu Ekdahl (Kristbjörg Kjeld). Öll stórfjölskyldan er þar saman komin til að snæða saman og dansa kringum jólatréð, þrír synir Helenu ásamt eiginkonum sínum: Gústaf og Alma (Jóhann Sigurðarson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir), Óskar og Emelía (Þröstur Leó Gunnarsson og Halldóra Geirharðsdóttir) og Karl og Lydía (Theodór Júlíusson og Charlotte Bøving). Þar eru líka barnabörn Helenu, Petra Gústafsdóttir (Kristjana Ósk Kristjánsdóttir) og Alexander og Fanný (Hilmar Guðjónsson og Katrín Ynja Hrafnkelsdóttir/Ísabella Rós Þorsteinsdóttir), börn Óskars og Emelíu auk fjölda hjúa og leikara úr leikhúsi fjölskyldunnar.

Meðan allir eru að borða laumast Alexander í stóran pakka undir jólatrénu. Í honum reynist vera efni í lítið brúðuleikhús sem Alexander fer undir eins að skoða og setja saman, fullur áhuga, enda er pabbi hans leikhússtjóri og bæði mamma hans og amma eru leikkonur. Hann prófar baksviðin og stillir litlu brúðunum upp – og alveg eins gera þeir Stefán Baldursson og Vytautas Narbutas meðan sýningunni vindur fram. Við fylgjumst með því hvernig baksviðinu er lyft hægt í hæðir og nýtt sígur virðulega niður þegar horfið er á önnur svið leiksins, úr borgaralegu glæsiheimili Helenu í drungalegt hús Edvards Vergérus biskups (Rúnar Freyr Gíslason) sem Emelía giftist að Óskari látnum, í undurfagran sumarbústað Ekdahlanna og ævintýraveröld gyðingakaupmannsins Ísaks Jakobi (Gunnar Eyjólfsson), elskhuga Helenu. Þannig erum við minnt á það enn og aftur að við erum að horfa á leiksýningu og oftast er Alexander einhvers staðar nærri, jafnvel á hinum leynilegustu fundum, þannig að líklega er verið að segja okkur að allt sé þetta úrvinnsla hans úr raunveruleikanum. Enda finnst mér boðskapur verksins vera að ímyndunaraflið sé æðst allra hluta, það lyfti hamingjunni í guðlegar hæðir og einungis það geti bjargað okkur þegar aðstæður okkar verði óbærilegar.

Emelía heillast af biskupnum af því að hann er alger andstæða Ekdahlanna, þeir eru léttlyndir og lausgirtir nautnamenn og -konur, hann er strangur og siðprúður. Hún ímyndar sér að hann sé einmitt það sem börnin hennar þurfa með eftir frjálslyndið heima hjá ömmu. En hún kemst fljótlega að raun um að siðprýðin er í raun grimmd sem verður ofbeldisfull af minnsta tilefni. Einkum er honum í mun að brjóta á bak aftur sjálfsöryggi Emelíu og hugmyndaflug Alexanders sem er sannarlegt eitur í biskupsins beinum. Hversu oft þarf að berja barn og loka það inni í kjöllurum og á háalofti áður en það gefst upp og verður „þægt“?

Sýningin rennur vel þó að atriðin séu mörg. Til dæmis leið jólanóttin listilega með því að láta þjónustufólkið syngja og sprella með Jóhanni G. Jóhannssyni tónlistarstjóra á píanóinu milli þess sem við litum inn til annarra persóna – til Fannýar og Alexanders þegar pabbi þeirra segir þeim sögu og býður þeim góða nótt, til Karls sem ýmist eys skömmum og óþverra yfir Lydíu konu sína eða grætur af iðrun, og til Maju litlu barnfóstru (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem fær sjálfan veitingahúseigandann Gústaf Ekdahl upp í rúm til sín – rúm sem rúmar engan veginn mann sem er hundrað kíló plús.

Hér er líka meistaralega leikið. Sérstök nautn var að horfa á Kristbjörgu Kjeld skína í hlutverki Helenu, ég tala nú ekki um samleik þeirra Gunnars Eyjólfssonar sem snerti djúpan streng í brjóstum áhorfenda. Halldóra Geirharðsdóttir var glæsileg Emelía og samleikur þeirra Rúnars Freys var afar góður. Atriðið í „táradalnum“ var svo magnað að ég fæ gæsahúð núna þegar ég rifja það upp. Theodór og Charlotte voru nöturlega góð í sínum hlutverkum og Jóhann og Jóhanna Vigdís bjuggu til flotta glansmynd af frjálslyndum broddborgurum. Jóhann naut sín svo alveg sérstaklega í deilunum við biskupinn og maður fann að þá langaði áhorfendur mest til að fjölmenna upp á svið og faðma hann! Hilmar var fínn Alexander og stelpurnar skínandi góðar. Einkum var Kristjana Ósk sannfærandi þegar hún reiðist föður sínum fyrir kvennafarið og reynir að hunsa hann. Kristín Þóra var bæði aumkunarverð og yndisleg Maja og svo allt önnur í hlutverki Ísmaels, hins háskalega systursonar Ísaks Jakobi.

Aðrir leikendur tóku líka stakkaskiptum milli heimila. Til dæmis var Katla Margrét Þorgeirsdóttir sæt og kekk ráðskona hjá Helenu Ekdahl en harkan og nískan holdgerð í hlutverki Henríettu systur biskupsins. Elma Lísa Gunnarsdóttir var gullfalleg ljóshærð leikkona í jólaveislu Ekdahlanna en ljót og leið sögusmetta í húsi biskupsins.
Það er auðvitað spurning hvað er unnið með því að setja á svið verk sem er frægt um víða veröld sem óhemjugóð kvikmynd og sjónvarpsþáttaröð eftir mesta meistara Norðurlanda á þeim vettvangi. Hitt er annað mál að þetta er afar vel skrifað verk sem á erindi til fólks og hér hefur tekist firnavel til. Sýningin er full af lífi, fjöri og fegurð svo að fólk á öllum aldri getur notið og geymt í hjarta sínu um ókomna tíð.

Silja Aðalsteinsdóttir