Það fer margt um huga fullorðinnar manneskju undir sýningu Tíu fingra á Lífinu sem var frumsýnd í dag í Tjarnarbíó undir stjórn Charlottu Bøving. Sköpunarsaga biblíunnar er nærri og þróunarkenning Darwins sækir svolítið á mann þegar dýrategundirnar sækja fram hver af annarri en mest hreiðraði þó um sig í huga mínum gamla snilldarþýðingin hans Magnúsar Ásgeirssonar á Síðasta blóminu eftir James Thurber.

Lífið

Eins og í Síðasta blóminu eru hér í sögumiðju einn piltur (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og ein telpa (Sólveig Guðmundsdóttir) og saman fara þau í gegnum ævintýri lífsins, góð og slæm. Þau byrja á að uppgötva ljós og skugga („verði ljós!“), svo uppgötva þau moldina og hve margt og mikið má skapa úr henni. Þau nota einföldustu aðferðir til að búa til fjölbreyttar dýrategundir, þarna komu hoppandi froskar og skrækjandi apar, sprangandi hani og skríðandi slanga, jafnvel krókódíll – eða var það dreki? – börnunum í salnum til stórkostlegrar skemmtunar. Svo fóru pilturinn og telpan að leika sér að moldinni og í moldinni; aldrei hef ég séð tær leika eins vel og í dag og aldrei hefur jafnmiklu af drullu verið ausið yfir leikara á sviði að mér áhorfandi. En eins og nærri má geta endist friðurinn ekki lengi – frekar en í Síðasta blóminu. Eignagleðin og græðgin gera vart við sig, þótt þetta sé „bara“ mold, og liggur við að allt endi með ósköpum: „Lægra en dýr með loðinn bjór / lagðist mannkind smá og stór.“ Það verður þó ekki. Má þó nærri geta að Sveinn og Sólveig hafa verið fegin að komast í almennilega sturtu eftir leikinn.

Höfundar verksins eru leikarar, leikstjóri og Helga Arnalds sem einnig hannar myndræna hlið verksins sem er einföld og afar markviss. Lýsingin skiptir miklu máli í skuggaleiknum og frumlegum speglunum, hana hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson og Magga Stína býr til yndislega tónlist við verkið. Þetta er sýning sem jafnvel lítil börn munu hafa gaman af og allir sem hafa gaman af að drullumalla, hversu gamlir sem þeir eru.

Silja Aðalsteinsdóttir