Heimildaleiksýningin Fúsi: aldur og fyrri störf eftir Agnar Jón Egilsson og viðfangsefnið, Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, var frumsýnd á vegum Monochrome og L.R. í litla sal Borgarleikhússins 17. nóvember en ég sá hana ekki fyrr en í gærkvöldi. Þetta er sérstæð sýning og um margt merkileg, og þó að hún sé helst til teygð á köflum er hún bæði fróðleg og fyndin.

Sigfús og Agnar Jón eru náfrændur og vinir frá öndverðu en ekki liggur í augum uppi hvernig þeim datt í hug að búa til leiksýningu um ævi Fúsa og það með honum sjálfum sem þátttakanda, manni sem á stundum erfitt með að gera sig skiljanlegan. Framan af er það líka ráðgáta, það er ekki fyrr en líður á sýninguna að dramatíkin í lífi hans kemur í ljós.

Fúsi

Fúsi er fatlaður frá fæðingu en ekki kemur fram (svo að ég næmi) hvernig á því stendur. Hann á bæði bágt með hreyfingar og tal. En hann hefur greinilega mikla þörf til tjáningar, það má m.a. sjá á því að hann hefur tekið þátt í starfi leikhópsins Perlunnar í fjörutíu ár. Eflaust hefur það ýtt undir Agnar Jón leikstjóra að hafa Fúsa sjálfan á sviðinu og láta sýninguna snúast beinlínis í kringum hann hvað Fúsi er ófeiminn og öruggur með sig. En hann er samt ófyrirsjáanlegur og hleypur úr einu í annað þannig að Agnar þarf að hafa hemil á uppátækjum hans og frásagnargleði. Það gerir hann afar nett og fallega; hann  vill ekki láta bera á sjálfum sér heldur leyfir Fúsa  að njóta athyglinnar en hefur sig þó í frammi þegar nauðsyn krefur. Þetta samspil veldur því að sjálfsagt verða engar tvær sýningar eins, þetta er lifandi leikhús.

Sér til halds og trausts hafa þeir félagar þrjá hjálparkokka, Egil Andrason sem syngur og leikur á hljómborð og leikkonurnar og stuðboltana Halldóru Geirharðsdóttur og Völu Kristínu Eiríksdóttur sem leika atriði úr lífi Fúsa fyrir leikhúsgesti. Það gera þær af mikilli ánægju – raunar stundum svo hamslausri innlifunarfíkn að Fúsi fær ástæðu til að leikstýra þeim! Það þykir honum ekki leiðinlegt. Þær voru annars svo eðlilegar og tilgerðarlausar að þegar ég rifja upp núna hver lék hvað þá man ég ekki hvort Fúsi lék sjálfur í sumum atriðunum eða önnur hvor þeirra.

Saga Fúsa er ekki rakin frá ári til árs heldur fáum við framan af að sjá glampa úr fortíð og nútíð. Við kynnumst konunum sem hafa verið stólparnir í lífi hans, ömmu Laufey, Sigríði Eyþórsdóttur stofnanda Perlunnar (Siggu), Sísí mömmu, eiginkonu föður hans, og sambýliskonunni Evu. Við fáum að heyra um uppáhalds bíómyndirnar, uppáhaldslögin, við upplifum heilan „dag í lífi Fúsa“ í sambúðinni með Evu, svo dæmi séu nefnd. En eftir hlé fer sýningin að þéttast um ákveðinn kjarna. Þá fylgjumst við með því þegar mamma hans skilur hann eftir á Sólheimum í Grímsnesi níu ára gamlan en fer sjálf – ekki bara til Reykjavíkur aftur heldur alla leið til Bandaríkjanna þar sem hún sest að. Tekur hann svo frá Sólheimum í reiðikasti nokkrum árum síðar en hefur hann samt ekki hjá sér heldur þvælist hann milli heimila og sambýla uns hann eignast loksins sitt eigið heimili. Fúsi er ákaflega tilfinninganæmur og viðkvæmur og sárindi hans yfir framkomu nánasta skylduliðs rista djúpt. Hann huggar sig við hlýju vandalausra – en hún kemur ekki í staðinn fyrir ástina og umhyggjuna sem hann þráir.

Umbúnaður um sýninguna er látlaus og smekklegur. Leikmynd og búninga sér Svanhvít Thea Árnadóttir um en Gunnar Hildimar Halldórsson hannaði lýsinguna. Þetta er ákaflega vel gerð sýning og markviss og eftir viðtökum í gærkvöldi er ég viss um að hún ratar til sinna – og vonandi miklu fleiri.

 

Silja Aðalsteinsdóttir