Gunnar Smári Jóhannesson frumsýndi í gærkvöldi einleik sinn Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó undir stjórn Tómasar Helga Baldurssonar. Stílhreint leiksviðið sem nýtti rýmið á óvenjulegan hátt hannaði Auður Katrín Víðisdóttir en Íris Rós Ragnhildar sá um tónheiminn sem var óáreitinn. Lýsingin var viðamikil og flókin, breyttist eftir því hvar persónan var stödd í frásögnum sínum og hugarheimi og vakti athygli á breytilegu skaplyndi hans. Smekklega gert af Jóhanni Friðriki Ágústssyni.

Unnar (Gunnar Smári) er uppnæmur ungur maður, ýmist reiður, pirraður eða dapur þar sem hann kúrir í íbúð sinni, innilokaður, og nennir ekki, vill ekki fara út eða hitta fólk, hvernig sem gengið er á eftir honum. (Vill helst renna saman við veggfóðrið eins og á meðfylgjandi mynd.) Nú hótar Dísa systir hans að koma í heimsókn með nýja kærastann og Unnar fer strax að ímynda sér hvernig sá náungi muni bregðast við því sem hann sér í nýuppgerðu íbúðinni – og það eru ekki falleg eða kurteisleg viðbrögð! Unnar býst raunar alltaf við hinu versta enda hefur það versta komið fyrir hann. Ungur að árum missti hann fyrst föður sinn og svo móður sína skömmu seinna og amman sem tók hann þá að sér og gekk honum svo elskulega í móður stað hlaut að deyja líka. Við munum öll deyja, sagði Bubbi, og það hefur sannast óþarflega skýrt og ótímabært í lífi Unnars.

Þetta hljómar ákaflega dapurlega en það var mikið hlegið á sýningunni í gær. Gunnar Smári er afskaplega skemmtilegur leikari og sjarmerandi á sviði, og jafnvel æ sjúklegri félagsfælnin varð fyndin í meðförum hans – um leið og maður gat vel grátið með honum yfir einmanaleika barns sem hefur misst svo mikið. Hann brá sér léttilega í hlutverk annarra persóna þegar hann sagði sögur af samskiptum sínum við þær, einkum urðu móðir hans og amma ljóslifandi, og hann átti nýja rödd upp í hverja persónu, meira að segja silfurskottuna sem lifir af eiturhernað hans í íbúðinni. Myndirnar sem textinn dregur upp af viðbrögðum umhverfisins við ótímabærum dauðsföllum er umhugsunarverð – það deyja allir en ísskápurinn fyllist af mat!

Unnar er hress framan af, leikur ýmist viðburði úr lífi sínu eða ímynduð atvik úr samtímanum af miklum krafti, en það dregur smám saman af honum og við finnum að honum er að verða lífið býsna óbærilegt. Þessi þróun var afar vel unnin af þeim Gunnari Smára og Tómasi Helga leikstjóra hans.

Ég minnist Gunnars Smára úr sýningum Þjóðleikhússins á Ástu og Kardimommubænum – og jafnvel ennþá fyrr úr ungmennasýningunni frábæru Heili, hjarta, typpi í Hafnarfirði áður en hann fór í nám, og ég hvet leikhúsfólk til að skoða úrvinnslu hans úr sorginni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir