Club Romantica - Friðgeir Einarsson

Friðgeir Einarsson rithöfundur og leikari lagði upp í merkilega leit síðastliðið haust til að fá svar við spurningum sem brunnu á honum. Hann fann furðumörg svör miðað við vanda verkefnisins og segir okkur þau í sýningunni Club Romantica sem var frumsýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þó er það svo að áhorfandinn situr uppi með ýmsar spurningar þegar sýningu lýkur.

Friðgeir hefur sýnt það í verkum sínum, bókum og leikritum, að hann hefur mikinn og einlægan áhuga á fólki. Ekki frægu fólki og afreksmönnum heldur venjulegu fólki, jafnvel ósýnilega fólkinu, og hann er glettilega vel læs á eiginleika þess, hugsanir, langanir og líðan. Eflaust hefur það verið þessi áhugi sem rak hann til að kaupa þrjú myndaalbúm á flóamarkaði í Brussel á Valentínusardaginn árið 2008 þegar hann var þar einn á ferð: Honum fannst svo ómögulegt að þessi myndaalbúm, svo vandlega fyllt af alúð og natni, væru þarna í reiðileysi. Á næstu tíu árum lærði hann albúmin utanað, hverja mynd, hverja aðgerð sem þær sýndu, hvert svipbrigði á andlitum fólksins á myndunum. Þó var þetta fullkomlega ókunnugt fólk og þar að auki útlent. Öll albúmin höfðu greinilega verið í eigu sömu konunnar, sem Friðgeir kallar Eloise. Hún var ung árið 1976 og hafði þá farið til Mallorca ásamt annarri stúlku, dvalið á gististaðnum Club Romantica og skemmt sér svona líka vel. Tveim árum seinna hafði hún farið aftur en nú með karli, konu og stúlkubarni. Í þriðja albúminu voru svo brúðkaupsmyndir frá árinu 1985.

Af hverju hafði konan fargað þessum albúmum? Var það slys? Smám saman sótti sú spurning svo hart að Friðgeiri að hann varð að reyna að fá svar og helst skila albúmunum til síns rétta eiganda. Hann leggur af stað út í heiminn, eins og riddari í leit að hinu helga grali, með örfáar vísbendingar fyrir sér. Og við komumst að því í sýningunni að með nútímatækni er hægt að finna manneskju í heiminum þótt maður viti ekki einu sinni hvað hún heitir.

Þeir Friðgeir og aðstoðarmaður hans, Snorri Helgason tónlistarmaður, eru tveir einir á sviðinu sem Brynja Björnsdóttir á heiðurinn af og minnir annars vegar á sólarlönd, hins vegar á þann tækniheim sem gerði leitina mögulega. Sjálfir eru þeir klæddir litríkum „hawaíflíkum“, Friðgeir í rauðu, Snorri í grænu. Friðgeir segir frá á tilgerðarlausan og einlægan hátt sem grípur áheyrandann föstum tökum þótt efnið sé manni fullkomlega óviðkomandi; Snorri leikur á móti honum þegar þörf krefur og skreytir með elegant hljóðfæraleik. Sýningin fær meira að segja sitt eigið lag um hvítar sandstrendur Mallorca, hugljúft og fallegt. Mál sitt litar Friðgeir með brotum úr upptökum á samtölum sem hann á við alls konar fólk á Mallorca og í Belgíu. Svo fáum við að sjá ljósmyndirnar gömlu í yfirstærð á bakveggnum – og þar sjáum við, svo furðulegt sem það kann að hljóma – hvers vegna þessi albúm létu nýja eigandann ekki í friði.

Það er leikhópurinn Abendshow sem stendur að sýningunni og leikstjóri er Pétur Ármannsson. Saman hafa aðstandendur búið til afar aðlaðandi sýningu sem var tekið með kostum og kynjum í gær. Svo héldum við út í hryssinginn og gátum ekki hætt að hugsa um stúlkuna á myndunum. Það fæst nefnilega ekki fullnægjandi svar við upphaflegu spurningunni: Hvers vegna voru albúmin hennar á þessum flóamarkaði? Það fáum við líklega aldrei að vita. Eða hvað?

Silja Aðalsteinsdóttir