Bárðar saga Snæfellsáss er safn ævintýralegra sagna af mönnum, tröllum og vættum. Við margar sagnanna kemur frændalið norska hálfrisans Bárðar Dumbssonar sem seinna fékk auknefnið Snæfellsás, en einkum hann sjálfur, Helga dóttir hans og Gestur sonur hans. Úr þessum sagnafans hefur Kári Viðarsson unnið einleikinn Hetju sem hann hefur sýnt á nokkrum stöðum og nú í Tjarnarbíó, bæði á ensku og íslensku. Leikstjóri hans og meðhöfundur er Víkingur Kristjánsson. Friðþjófur Þorsteinsson hannaði lýsingu.

HetjaKári býður áhorfendum ekki upp á notalega sögustund með leiknum samtölum inn á milli frásagna heldur stekkur hann hvíldarlaust milli nokkurra af þeim aragrúa persóna sem sagan segir frá og lætur þær leika atriðin fyrir okkur. Einkennismerki persóna eru einföld, oftast hárkolla eða höfuðbúnaður sem fljótlegt er að skella upp og rífa af, og jafnan fylgir breytt rödd. Urðu margar þessar skyndimyndir furðulega glöggar og skemmtilegar þótt hraðinn væri stundum of mikill til að þær skiluðu sér almennilega. Kári gerir sjálfan sig líka að persónu í leiknum og freistar þess að láta samband sitt við föður sinn endurspegla samband Bárðar og Gests en ekki fannst mér það gera sig nógu vel. Alls konar anakrónismar í texta og leikbúnaði voru fremur kunnuglegir og textinn raunar allur bagalega flatur. Nú er sagan á köflum afar skemmtileg en það er einkum í lýsingum á fólki og umhverfi og slíkt efni nýtist ekki í þeirri leikaðferð sem Kári notar. Lítið er um beina ræðu í sögunni svo að Kári og Víkingur hafa þurft að skrifa samtöl og þau eru satt að segja tíðindalítil.

Það sem snertir mann einkum í sögu Bárðar og Kári gerir sér mat úr er atvikið þegar bróðursynir Bárðar flæma Helgu Bárðardóttur út á ísjaka sem rekur með stúlkuna alla leið til Grænlands. Helga lifir ferðalagið af og fær vist hjá Eiríki rauða en saknar heimalandsins og fólks síns mjög. Bárður verður fyrir sitt leyti svo harmþrunginn við hvarf Helgu og vísan dauða, að hann hélt, að hann drepur bróðursyni sína báða og hverfur síðan burtu. Þá var því trúað að hann hefði flutt í jökulinn en hann heldur áfram að skjóta upp kollinum hér og hvar, bæði í sögu og leiksýningu, og skipta sér af mönnum og málefnum.

Sagan er talsvert kynósa og það einkenni nýtist Kára ágætlega. Einkum verður honum efni úr áhuga kvenna á körlum en því fylgir stundum fyndið áhugaleysi karla á konum. Til dæmis hrekkur Leifur Eiríksson undan ásókn Helgu á Grænlandi og Gestur Bárðarson virðist ekki hafa nokkurn áhuga á kvenfólki. Hins vegar tekur Miðfjarðar-Skeggi fús við Helgu og heldur hana sem frillu, bæði á Grænlandi og heima á Íslandi. Þessa lætur Bárður ekki óhefnt því hann sest að hjá Skeggja undir dulnefni og barnar fimmtán vetra dóttur hans. Það er einmitt Gestur sem þá verður til.

Kári er geysilega fimur leikari og flottur strákur eins og hann sýnir vel í Hetju. Það er líka virðingarvert að láta þessa gömlu sögu lifna á sviði, hún hefur fram að þessu ekki notið mikillar virðingar en er auðvitað prýðileg skemmtisaga, ekki síst fyrir unglinga, þegar búið er að fækka í hinum endalausu nafnarunum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir