Fjaðrafok

Írsk-íslensk samvinna ber fagran ávöxt í Fjaðrafoki, leiksýningu fyrir yngstu áhorfendurna eftir Chantal McCormick og Tinnu Grétarsdóttur sem frumsýnd var í Tjarnarbíó um helgina á vegum Bíbí & blaka og írska sirkusflokksins Fidget Feet. Ég var svo heppin að fá að sjá hana með tveim leikskólabekkjum tveggja til þriggja ára barna núna á mánudagsmorgni og hafði ekki síður gaman af að fylgjast með öðrum áhorfendum en því sem gerðist á sviðinu – enda var það allt í einni mynd því börnin sátu hringinn í kringum sviðið.

Niður úr loftinu hangir fiðraður stálhringur og í honum hanga tveir stórir bláir pokar. Alfiðraður náungi (Jym Daly) gengur um gólf með litla kúlu eða bjöllu sem hann slær í með hvellu hljóði. En þegar hann nemur staðar hjá topptjaldi innst á sviðinu og fer að leika á flautu fer líka eitthvað að gerast í bláu pokunum í loftinu. Fótur stingst út, handleggur, tveir fætur, höfuð, annað höfuð, höfuðin koma auga hvort á annað og hrökkva aftur inn í pokann sinn. En þeim vex kjarkur og smám saman skríða ungarnir alveg úr egginu og fara að iða og aka sér í hreiðrinu. Svo láta þeir sig síga niður á gólf og sprella þar lengi milli þess sem þeir sveifla sér í bláum klæðisrenningum sem hanga niður úr hringnum. Enn eru þeir ófleygir með vængina kreppta að líkamanum en lokastig þroskans er þegar þeim tekst að breiða út vængina (eða baða út handleggjunum) og þá taka þeir flugið …

Ungana túlka sirkuslistamennirnir Aisling Ní Cheallaigh og Katla Þórarinsdóttir og þær voru hreint ótrúlega fimar og sterkar, engin takmörk virtust vera fyrir því hvað þær gátu undið upp á líkama sinn. Mér fannst eiginlega leiðinlegt að þær skyldu ekki vera með raunverulega vængi, þær hefðu notið þess, þó að þær flygju fallega á bláa klæðinu. Búningar Gemmu Morris og Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur voru afar þénugir, litríkir og fallegir en líka þannig að þeir heftu aldrei loftfimleika flytjendanna. Tónlist Sólrúnar Sumarliðadóttur og Jyms Daly var fjörug og taktviss; hún var eina hljóðið sem heyrðist því eðlilega er sýningin orðlaus.

Það var einstaklega gaman að fylgjast með börnunum njóta þessarar sýningar og aðdáunarvert hvað þau sátu stillt og prúð og fylgdust með af mikilli athygli. Auðvitað fóru ein þrjú að gráta í upphafi sýningar af hræðslu við þetta undarlega fólk og þurfti að hugga þau utan sviðs en allur meginhópurinn sýndi merkilegan leikhúsþroska. Ekki dró úr gleði barnanna þegar sýningunni lauk á því að þau voru leidd inn á sviðið og leyft að snerta og prófa. Flokkurinn er á förum til Írlands með sýninguna en vonandi snýr hún aftur í Tjarnarbíó fljótlega.

Silja Aðalsteinsdóttir