Ég sá tvær býsna ólíkar sýningar í gær. Önnur var Eldfærin uppi á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu, hin frumsýning leikhópsins Ég og vinir mínir á fjöllistaverkinu Verði þér að góðu í Kassa Þjóðleikhússins. Sú fyrri er eins konar sögustund, þar sem tveir meistarar gamanleiksins láta eitt frægasta ævintýri H.C. Andersens lifna á sviðinu. Sú seinni er ýkt, teygð og toguð mynd af því hvernig félagsveran manneskja hagar sér. Ólíkar sýningar, já, en eiga það þó sameiginlegt að leggja áherslu á húmor enda báðar dillandi skemmtilegar.

Gói & Eldfærin

Það má ímynda sér að þau börn geri sér ekki allt að góðu sem kynnast leikhúsi fyrst gegnum galdur þeirra Guðjóns Davíðs Karlssonar, Góa, og Þrastar Leós Gunnarssonar. Í þessari fyrstu sýningu af boðaðri sýningaröð hefur Gói lagað ævintýrið um eldfærin að leiksviði og tveim leikurum. Sjálfur er hann sögumaður og leikur dátann en Þröstur Leó gerir allt hitt: stjórnar leikhljóðum og leikur nornina, prinsessuna, hermenn, betlara og veisluglaða borgara. Það er bara kóngurinn sem verður vandamál og Gói fær sérstakt leyfi til að bregða sér í hlutverk hans í samtali kóngs og dóttur hans um næturævintýri hennar. Allir búningar Rannveigar Evu Karlsdóttur eru til taks á sviðinu og þeir félagar skipta um föt fyrir framan áhorfendur. Leikmyndin var líka eftir Rannveigu Evu, ævintýralega litrík og auðug og afskaplega þénug. Svo syngur Gói nokkur lög en ekki er tiltekið hvor á hvað, lög og texta, hann eða Vignir Snær Vigfússon en þeir eru báðir skrifaðir fyrir tónlistinni.

Gói og Þröstur Leó leika í algerri nálægð við áhorfendur sína. Á seinni sýningunni í gær var stútfullt hús og börnin færðu sig sífellt lengra inn á leiksvæðið. Þó var ekki laust við að sum yrðu smeyk, enda var nornin með hrikalega langt og bogið nef, hundarnir með voðalega stór augu og ekkert grín þegar átti að hengja veslings dátann fyrir að ræna prinsessunni nótt eftir nótt. Minn fylgdarsveinn, þriggja ára, sat þó gersamlega bergnuminn allan tímann og sleppti ekki augum af dásemdunum á sviðinu.

Ég og vinir mínir taka allt annan pól í hæðina með sviðsmynd ef miðað er við fyrri sýningu þeirra, hina rómuðu Húmanimal. Þar var litadýrðin brjálæðisleg, nú er sviðið klínískt hvítt með hvítu langborði og hvítum og ljósbláum stólum. Mínímalískt og smart. Á móti koma litsterkir búningar, einkum kvennanna, afar skemmtilegir. Raunar voru tveir þeirra, kjólar Dóru Jóhannsdóttur og Sögu Sigurðardóttur, eins og sjálfstæðir leikmunir, svo lifandi þátt áttu þeir í hreyfimunstri sýningarinnar. Svið og búningar eru verk Rósu Hrundar Kristjánsdóttur og hópsins. Stóran þátt í áhrifunum á líka tónlistin sem er í höndum Gísla Galdurs Þorgeirssonar. Hann er beinn þátttakandi í sýningunni allan tímann og á ekki lítinn þátt í töfrum hennar.

Verði þér að góðu Verði þér að góðu er sett saman úr nokkrum sjálfstæðum smámyndum eða sketsum sem sumir eru leiknir á venjulegan hátt (ef hægt er að nota svo hversdagslegt orð um þessa listamenn) en aðrir eru óræðari, tjáðir með látbragði og hreyfingum. Við erum til dæmis í matarboði með hjónum (Dóra og Sveinn Ólafur Gunnarsson) sem fara hægt og hægt að togast á, kýta og loks rífast af fullum krafti. Sú sena var óhugnanlega raunsæisleg þó ýkt væri. Í öðru boði heyrum við samræður tveggja gesta (Álfrún Örnólfsdóttir og Friðgeir Einarsson) sem eiga óhemju erfitt með að koma orðum að því sem eh þau hérna ætla hérna eh hérna að segja. Æðislegasta senan var þegar einn kvengestur (Margrét Bjarnadóttir) bendir karlmönnunum (Sveinn Ólafur og Friðgeir) á að öll þeirra hegðun sé tillærð. Þeir geri ekkert frumlegt heldur séu þeir alltaf að herma eftir atferli sem þeir hafa séð. Þeir reyna að afsanna þetta með æ trylltari hegðun sem stúlkan tekur fullan þátt í. Lokapunkturinn var svo áramótapartíið sem kemst á það stig þegar allir fara að segja sorglega sögu sem þeir hafa sjálfir upplifað eða orðið vitni að. En einum gestinum (Friðgeir) dettur ekkert í hug til að segja frá og það stefnir í algert antíklímax. Því reddar annar gestur (Saga) þegar hún man eftir sögu sem hann hefur sagt henni og lætur hann nú segja. Smám saman missir vinkonan sig í stjórnseminni uns maður veit ekki hvort maður kann við að halda áfram að hlæja eða ætti kannski heldur að fara að skæla.

Þau eru rosalega flink, Ég og vinir mínir, einkum eru stelpurnar makalaust skemmtilegar á sviði. Þær Saga og Margrét eru auðvitað dansarar og þær verða talsverðir senuþjófar í sýningunni, það er bara svo gaman að horfa á þær. En öll eiga þau „sínar senur” sem þau njóta sín í. Friðrik Friðriksson er öfundsverður af að fá að stýra þessum lífmikla hópi enda tekst honum prýðilega upp. Sýningin var helst til of stutt, frumsýningin náði ekki fullum klukkutíma og mann langaði í meira, að öðru leyti var hún alveg prýðilega heppnuð.

 

Silja Aðalsteinsdóttir