KaritasEkki get ég neitað því að ég kveið ofurlítið fyrir að sjá á sviði leikgerðina af Karítas, tveggja binda skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur. Verkið er mikil epík, það segir svo langa sögu, teygir sig yfir heila öld, fer svo víða og segir frá svo mörgum persónum að það virtist óðs manns æði að gera því skil á einu kvöldi. Það var strax léttir að komast að því að leikgerð Ólafs Egils Egilssonar og Símonar Birgissonar lætur fyrra bindið duga. Enda er það heillegt verk sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Hörpu Arnardóttur, verk sem segir samfellda sögu með skýrum þræði (að minnsta kosti fyrir þá sem þekkja bókina) þótt það leiki sér að tímanum til að ná sterkari listrænum áhrifum.

Í ramma leiksýningarinnar er listakonan Karítas (Brynhildur Guðjónsdóttir) búsett hjá frænku sinni Auði (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) í Öræfunum ásamt Jóni syni sínum (Arnmundur Ernst Backman). Smám saman komumst við að því að þangað hefur hún flúið frá kotbýli á Austfjörðum þar sem hún bjó með manni sínum Sigmari (Björn Hlynur Haraldsson). Hann er sjómaður, harðákveðinn í að verða ríkur og það útheimti langar fjarvistir í öðrum landsfjórðungum. Á meðan var konan hans ein heima, og hámarki nær einsemd hennar, kvöl og örvænting þegar hún fæðir tvíbura fyrir tímann og systir hennar Bjarghildur (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) kemur og heimtar stúlkuna af henni vegna gamals loforðs og fer með hana burt.

Nú hefur einsemd á kotbæjum verið hlutskipti margra íslenskra kvenna í aldanna rás en það gerir aðstæður Karitasar óbærilegar að hún er hámenntuð listakona, útskrifuð úr Listaakademíunni í Kaupmannahöfn, og þráir með öllum frumum í sínum kroppi að stunda list sína, teikna og mála í stað þess að hirða um börn og bú. Það er þessi margslungna blanda einsemdar, ófullnægðrar sköpunarþrár og barnsmissis sem gengur svo nærri Karitas að hún missir stjórn á geðsmunum sínum.

Inni í rammanum er rakin saga Karitasar frá því að hún fluttist ung með móður sinni (Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir) og fjórum systkinum frá Ísafirði til Akureyrar. Á Akureyri kynnist hún Eugeniu (Elva Ósk Ólafsdóttir), auðugri konu sem hrífst af myndlistarhæfileikum hennar og styrkir hana til náms í Kaupmannahöfn. Nýkomin þaðan fer hún á síld á Siglufirði þar sem hún kynnist Sigmari og hlýtur kunnugleg örlög: fellur marflöt fyrir fallegum manni og verður ólétt við fyrstu snertingu. Ástin og listin togast á um hana og ekki skortir löngun Sigmars til að leyfa henni að njóta hvors tveggja, hann skapar henni bara ekki aðstæður til þess. Skilningur í orði en ekki í verki, það er sígild saga.

Þetta var langt mál um sögu sem flestir þekkja og ég biðst afsökunar á því. Það er bara svo freistandi að rifja hana upp. Leiksýningin býr til einstaklega fallega og áhrifamikla myndasýningu úr sögunni. Svið Finns Arnars Arnarsonar er stórkostleg bygging á hringsviðinu, há og mikil en þó fíngerð og ekki yfirþyrmandi (nema þegar hún á að vera það). Þetta er skip á leiðinni kringum landið til Akureyrar, þetta er hús Eugeniu, síldarverksmiðja og verbúð þrungin erótískum skuggamyndum þegar ástríðurnar taka völdin eftir dansleik, þetta eru yfirþyrmandi fjöll fyrir austan og loks hnjúkurinn hæsti sem Karitas þarf að klífa til að hreinsa sál sína. Því „í hverri sálu er fjall og það fjall þarf að klífa,“ eins og Auður segir. Með sviðsmyndinni leika ljósin hans Ólafs Ágústs Stefánssonar og sýna okkur bæði það sem er og ekki er við fínlegt undirspil Matta Kallio. Hann á hljóðmyndina með Kristni Gauta Einarssyni. Þórunn Elísabet Sveinsdóttir klæðir leikarana í búninga sem ýmist eru tímabundnir eða tímalausir, smekklegir og fallegir.

Brynhildur Guðjónsdóttir er sem sköpuð í hlutverk Karitasar og leggur sál og líkama í leikinn. Það er enginn vandi að trúa því að þessi Karitas sé heltekin af listinni og lífinu. Björn Hlynur stóð alveg undir öllum þeim fallegu orðum sem sögð eru um glæsileik Sigmars og ástin og ástríðan var heit í samspili þeirra beggja. Auðvelt var að skynja hvers vegna listakonan Karitas tapar aftur og aftur fyrir ástkonunni Karitas. Leikhópurinn var að sjálfsögðu prýðilegur en sérstaklega langar mig að nefna Vigdísi Hrefnu sem var óhugnanlega sterk og grimm í hlutverki Bjarghildar barnsræningja og bölvalds, hún fær margar minnisstæðar setningar sem láta mann helst langa til að berja hana duglega. Líka Ragnheiði Steinsdórsdóttur í litlu hlutverki tengdamóður Bjarghildar í Skagafirði og Stefán Hall Stefánsson sem bjó til dásamlega gráthlægilegan og hálf-brjóstumkennanlegan mann úr Skarphéðni, vonbiðli Karitasar í Öræfunum. Ýmsar myndir úr sýningunni munu lifa áfram í huganum, til dæmis þegar teikning Karitasar af móður sinni í baði – sú sem kemur henni inn í akademíuna í Kaupmannahöfn – er leikin fyrir okkur á sviðinu.

Þetta er mikil kvennasýning, kannski óþarflega mikil þegar sviðið fyllist af dularfullum kvenverum með næsta óljós hlutverk. En ég veit að íslenskar konur munu ekki láta sig vanta í Þjóðleikhúsinu á næstu vikum og mánuðum.

Silja Aðalsteinsdóttir