Bergrún Íris Sævarsdóttir: Lang-elstur í bekknum

Bókabeitan, 2017

Lang-elstur í leynifélaginu

Bókabeitan, 2018

Lang-elstur að eilífu

Bókabeitan, 2019

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020

 

Langelstur í bekknum

Langelstur í bekknum eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Bergrún Íris Sævarsdóttir hefur á undanförnum árum skrifað og myndlýst fjöldann allan af barna- og ungmennabókum, þar með talið námsbækur, og hlotið verðskuldaða viðurkenningu fyrir. Meðal bóka hennar er „lang-elstur“-bókaflokkurinn um Eyju og Rögnvald: Lang-elstur í bekknum (2017), Lang-elstur í leynifélaginu (2018) og Lang-elstur að eilífu (2019). Sú síðastnefnda hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2019.

Bókaflokkur Bergrúnar Írisar hefur þá einföldu en ef til vill nokkuð töfraraunsæislegu forsendu að nemendur þurfi að læra að lesa til að fá að útskrifast úr fyrsta bekk – með þeim afleiðingum að einn nemandi, Rögnvaldur, hefur setið níutíu vetur í fyrsta bekk því honum tekst aldrei að læra stafina hvað þá meir (sem hlýtur að vera áfellisdómur yfir hinum fjölmörgu umsjónarkennurum sem hann hefur haft gegnum áratugina). Öllum virðist þykja það hið eðlilegasta mál að rúmlega hálftíræður maður sitji á skólabekk með sex ára börnum, nema aðalpersónunni Eyju sem finnst það í meira lagi dularfullt og tekur að sér með sínu lagi að kenna Rögnvaldi stafrófið og að stauta sig fram úr einföldum orðum. Í staðinn fyrir hverja tvo stafi sem hún kennir Rögnvaldi þarf hún á móti að kynnast einu bekkjarsystkini, nokkuð sem vekur með henni kvíða. Þannig hjálpast þau að við að sigrast á vandamálum sem þeim virðast stór en eru í raun ósköp yfirstíganleg og úr þessum skringilegu kringumstæðum öllum verður falleg vinátta. Í lok fyrstu bókarinnar er Rögnvaldur orðinn læs og Eyja búin að kynnast öllum krökkunum í bekknum.

Hinn níutíu og sex ára gamli Rögnvaldur og hin sex ára Eyja eru í flestu eins og jafningjar, fyrir utan að sá fyrrnefndi er eðlilega lúinn eftir aldri og þarf töluvert að sofa, og að sumu leyti er hann íhaldssamur  og á til að vera úrillur. Hversdagsævintýri þeirra vinanna halda áfram í næstu bók þegar Rögnvaldur er loksins útskrifaður úr fyrsta bekk og sumarið blasir við. Þau Eyja, ásamt Magna og Ólafíu, stofna leynifélag á lóð öldrunarheimilisins Ellivalla þangað sem Rögnvaldur hefur neyðst til að flytja, því sjötug systurdóttir hans sem hingað til hefur séð um hann fann sér mótorhjólatöffara fyrir kærasta og vill flytja inn með honum. Sagan kemur þannig reglulega á óvart með fyndnum en á sinn hátt afar skiljanlegum vendingum; ástin kemur í hvaða líki sem henni sýnist og Rögnvaldur er því fluttur á elliheimili þrátt fyrir að eiga að byrja í öðrum bekk um haustið. Krakkarnir (Rögnvaldur meðtalinn) ná samt að bralla heilmikið í leynifélaginu yfir sumarið, kljást við forstöðukonu Ellivalla sem kannski er vont vélmenni, og Rögnvaldur finnur kærustu í gömlu skvísunni Bellu blettatígur. Þá kemur í ljós að Rögnvaldur hefur aldrei lært á klukku og því heldur einkakennsla Eyju áfram um sumarið.

Þriðja bókin fjallar eins og hinar tvær um óhjákvæmilegar breytingar og nauðsyn þess að laga sig að þeim, en að þessu sinni eru breytingarnar öllu stærri í sniðum. Í fyrsta lagi fær Eyja að vita að hún muni verða stóra systir, nokkuð sem hún kvíðir fyrir af því þá verði hún kannski sett út á guð og gaddinn til að rýma til fyrir litla bróðurnum. Í öðru lagi verður hún vör við að Rögnvaldur er slappari en oft áður og mætir illa í skólann, og eins og titill bókarinnar gefur til kynna er ástæðan sú að Rögnvaldur á ekki langt eftir – skrauthvörf, raunar, sem Eyju gremjast mikið. Hún vill að fullorðna fólkið læri að segja hlutina beint út fremur en að fara svona í kringum þá.

 

„Sko …“ segir hún og sýgur upp í nefið. „Hvað þýðir það þegar Rögnvaldur segir að nú líði að endalokum og ég þurfi að eignast nýjan besta vin?“

Eyja finnur hvernig pabbi andar frá sér áður en hann svarar.

„Sagði hann það, karlanginn? Jæja. Ætli hann finni ekki á sér að nú styttist í annan endann hjá honum.“

„Viltu hætta að tala svona fullorðinslega,“ segir Eyja sem skilur ekkert. „Annan endann á hverju?“

Eyja er orðin reið. Hún þolir ekki hvernig fullorðið fólk talar í kringum hlutina. Hún vill að pabbi tali hreint út og noti réttu orðin í stað þess að hálfsegja allt í von um að henni líði ekki illa. Það er eins og pabbi viti ekki að Eyju líður einmitt verr þegar hún skilur ekki hvað gengur á. (31-2)

 

Eyja vill gera sem best úr þessu svo þau búa sér til lista yfir helstu atriði sem Rögnvaldur á enn eftir að prófa áður en hann deyr, svokallaðan lokalista. Á honum er sitthvað sem ekki er heiglum hent, hvað þá 97 ára gömlum manni, eins og hopp á trampólíni, fallhlífarstökk, ferð í vatnsrennibraut, að læra að keyra og fá sér húðflúr, en einnig hversdagslegri fyrirbæri eins og bíóferð og krossgátulausn. Saman reyna þau að ná þessum markmiðum á meðan Eyja óttast hvort tveggja í senn: hvað muni gerast þegar þau klára listann, mun Rögnvaldur þá deyja? Eða hitt sem er verra: hvað ef þau ná ekki að klára öll atriðin á listanum?

Langelstur í leynifélaginu

Langelstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Sem fyrr segir takast bækurnar gagngert á við óttann við breytingar, nokkuð sem háir mörgum á einhverjum tímapunkti í lífinu og oft getur reynst erfitt að skýra fyrir börnum. Fyrsta bókin hverfist þannig um félagskvíða Eyju sem vill helst bara njóta verndar mömmu og pabba í upphafi bókar, en með hjálp Rögnvaldar og því að bregða sér í líki Ofur-Eyju með ímyndaða rauða skikkju tekst henni betur að glíma við vanda sinn. Önnur bókin fjallar mun fremur um tregðu Rögnvaldar gagnvart þeirri breytingu að eiga að flytja úr húsinu sem hann hefur búið í alla ævi og inn á öldrunarheimili, en hvernig jafnvel sú stóra breyting er ekki svo skelfileg þegar á hólminn er komið og hversu miklu máli traust og félagsskapur skiptir okkar nánustu við slíkar breytingar, og ekki síst að öllu megi aðlagast með réttu hugarfari. Þriðja bókin fjallar loks um þá ábyrgð sem felst í að eignast systkini samtímis því að hún tekst á við erfiðustu staðreynd mannlegrar tilveru: að öll deyjum við að lokum og að það fylgir því að vaxa úr grasi að sjá á eftir mörgu því fólki sem okkur þykir vænst um. Eyja og Rögnvaldur virðast vera óaðskiljanlegir vinir en skilnaðarstundin vofir samt yfir þeim, nokkuð sem lesendur hafa ef til vill þegar gert sér í hugarlund við lestur fyrstu bókar. Rögnvaldur er saddur lífdaga og vill hughreysta Eyju sem á margt eftir ólært, þar með talið að sleppa takinu þegar stundin er runnin upp. Í lokin kennir Rögnvaldur Eyju ekki síður mikilvæga hluti en hún honum og kannski eru endalokin ekki svo slæm eftir allt saman því minningin lifir.

Bækur Bergrúnar Írisar um Eyju og Rögnvald eru fjarskalega vel skrifaðar, fallegar og hjartnæmar. Yfir söguheimi þeirra býr visst sakleysi um leið og þær hika ekki við að vaða í erfið málefni eins og kvíða, ótta, dauðann sjálfan, og hlutdeild allra þessara fyrirbæra í æskuárunum. Myndirnar sem prýða allflestar síður eru sömuleiðis skemmtilegar og hlýlegar og fullar af þessum ævintýrabjarma sem gjarnan lýsir upp hugarflug barna. Fyrir utan ærsl á skólalóðinni og háleynilegar aðgerðir leynifélagsins koma fyrir zombíköngulær, risaeðlufræði, stórt teiknibóluplan til að skera úr um vélmennsku forstöðukonu Ellivalla, sleðaferð á forngrip og svo mætti lengi telja. Húmorinn brýst í gegnum myndirnar, til að mynda í Lang-elstur í bekknum þar sem snagar nemendanna eru sýndir, en för í veggnum afhjúpa hve oft hefur þurft að færa snaga Rögnvaldar upp eftir veggnum eftir því sem hann hefur elst og vaxið og haldið áfram að falla á lestrarprófinu í fyrsta bekk. Myndin af Eyju og Rögnvaldi í sundi, sá síðarnefndi með svo marga kúta utan um sig að hann líkist Michelin-manninum, bræðir hjartað.

Sömuleiðis er margt í bókunum sem í senn dýpkar sögurnar og fræðir lesendur óbeint. Rögnvaldur er jú að nálgast hundrað árin svo hann talar vitaskuld allt öðruvísi en Eyja og jafnaldrar hennar, svo Eyja neyðist til að halda úti sinni eigin orðabók sem hún glósar í svo hún geti lært að eiga í samskiptum við öldunginn. Rögnvaldur þusar til dæmis mikið um veðrið og þar lærir Eyja orð eins og „úrhelli“, „útsynningur“ og „stinningskaldi“. Í Lang-elstur að eilífu kemur í ljós að Rögnvaldur á frænku í sveitinni, hana Einarínu. Einarína klæðir sig auðvitað nákvæmlega eins og Rögnvaldur, í brúnar buxur og grænt prjónavesti, og kippir þannig í kynið. Jafnframt er það sett alveg athugasemdalaust fram í bókinni að hún á þeldökka kærustu sem heitir Sally og talar bjagaða íslensku, og skilaboðin til lesenda því alveg skýr: ekki aðeins er fólk alls konar heldur eru sambönd fólks alls konar og að í eðlilegum heimi hugsi enginn neitt sérstaklega út í það. Á okkar viðsjárverðu tímum þegar andúð á hinseginfólki, innflytjendum og öðrum en skjannahvítum fer vaxandi í Evrópu eru þetta tímabær skilaboð til okkar yngstu lesenda. Hið sama gildir um það hvernig aðrar persónur eru settar fram í bókunum, að hver og ein þeirra er metin á eigin verðleikum og sérviska hvers og eins er metin þeim til hróss fremur en lasts.

Ég held að óhætt sé að segja að bækur Bergrúnar Írisar um Eyju og Rögnvald séu sérstaklega vel til þess fallnar að örva ímyndunarafl ungra lesenda jafnframt því að þær veita tækifæri til að ræða söguþráðinn fram og aftur, bæði það skemmtilega og óvænta sem og hinar dramatískari hliðar hans. Væri sex ára barnið á heimili mínu ekki orðið fimmtán ára myndi ég gjarnan vilja lesa bækurnar með henni, en síðasta bókin er raunar sérstök áskorun fyrir hrifnæma foreldra ekki síður en fyrir hina yngri lesendur, svo vel fangar hún angurværð hinnar hinstu kveðju. Ég get ekki neitað því að ég brynnti músum. Um leið munu lesendur sakna þess að fá ekki fleiri bækur um Eyju og Rögnvald, en ef til vill eru þær einmitt eins margar og best gat þjónað sögunni.

Langelstur að eilífu

Langelstur að eilífu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Ef ég ætti að nefna fyrir mitt leyti eitthvað sem stendur upp úr þá er það frásagnarmáti bókanna. Í sögumannsröddinni liggur nefnilega heilmikil hluttekning með öllum persónum og einkum og sér í lagi Eyju og vinum hennar og þeirra barnslegu duttlungum og hugsunum sem eru aldrei talaðar niður eða látið í skína að séu nokkuð óþroskaðar. Börn sögunnar eru tekin alvarlega og höfundur sýnir ætluðum lesendahópi sínum þannig ótakmarkaða virðingu. Um leið er margt látið liggja milli hluta, það er ekki allt útskýrt þótt það hefði vel verið hægt, og það finnst mér sömuleiðis kostur.

Í sem fæstum orðum sagt eru þetta bækur sem ég mæli með fyrir alla hugsanlega lesendur, yngri sem eldri. Kjörið er að lesa þær með börnum í fyrstu bekkjum grunnskóla en annars er textinn stór og orðfærið þannig að flestir þriðjubekkingar ættu að geta stautað sig fram úr þeim sjálfir. Þetta eru góðar bækur, fagurlega myndlýstar og skrifaðar af mikilli virðingu fyrir börnum. Ég bið ekki um meira.

Arngrímur Vídalín