Hannes og SmáriÞað var sérstæð blanda af rokktónleika- og árshátíðarstemningu á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi þegar Hannes og Smári héldu þar tónleika og sögðu sögu sína fyrir fullu húsi af æstum aðdáendum. Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir leika þessa heiðursmenn, þær spila líka á hljóðfæri og syngja. Auk þess sömdu þær verkið með leikstjóra sínum, Jóni Páli Eyjólfssyni leikhússtjóra á Akureyri, en sýningin er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar.

Í rauninni er vel skiljanlegt að þær stöllur skuli hafa þróað þessa karaktera því það hlýtur að vera einstaklega gaman fyrir hæfileikasprengjur eins og þær að bregða sér í karlmannslíki og búa til persónur sem eru (ímyndar maður sér) eins ólíkar þeim sjálfum og verða má. Þá á ég ekki bara við skeggið – en því má skjóta hér inn að leikgervin þeirra sem Ásdís Bjarnþórsdóttir ber ábyrgð á eru alveg fáránlega góð – ég er líka að hugsa um grófan talsmátann og stórkarlalegt fas þeirra í sýningunni.

Hannes Ólafíu Hrannar er foringinn í dúettinum. Hann er alinn upp á miklu óregluheimili og leitaði ungur skjóls á regluheimili Smára Halldóru þar sem alltaf var matur á matmálstímum og allir voru góðir við hann. Þrátt fyrir einlægt þakklæti smýgur ormur öfundarinnar samt inn í frásagnir hans af því heimili enda er Hannes hreint ekki allur þar sem hann er séður. Túlkun Ólafíu Hrannar á persónu sinni er djúp og innileg um leið og hún er þrungin kaldhæðni, það er virkilega sjón að sjá.

Smári Halldóru er minni máttar á öllum sviðum öðrum en tónlistinni, hrekklaus og auðsærður. Hann er óttalegur klaufabárður í máli svo minnti ýmist á Bibbu á Brávallagötunni eða Vigdísi Hauksdóttur og vakti skellihlátur í salnum. Hann er líka bagalega einfaldur saman borinn við lúmska tvöfeldni eða þrefeldni Hannesar eins og best kemur í ljós í skiptum þeirra félaga við Sirrý, stúlkuna fögru sem þeir elska báðir og er leikin af Elmu Stefaníu Ágústsdóttur.

Hannes spilar á gítar í hljómsveitinni en Smári á bassa og saxófón og báðir syngja. Hannes er nýbúinn að reka trommuleikarann en þeir eru svo heppnir að hafa fengið nýjan í staðinn á síðustu stundu. Sá heitir Eyjólfur Flóki og Hannesi finnst hann alltof ungur og ólmast yfir því framan af. Eyjólfur er leikinn af Kolbeini Orfeusi Eiríkssyni sem er bara 12 ára gamall og kom sá og sigraði bæði Hannes og áhorfendur áður en lauk. Hann reyndist ekki aðeins frábær trommuleikari heldur líka skemmtilega tjáningarríkur í næstum þögulu hlutverki. Hlutverk Elmu Stefaníu var ekki stórt (hefði vel mátt vera stærra og gefa henni meiri tækifæri) en vel unnið eins og allt sem hún gerir.

Leikmynd Brynju Björnsdóttur tekur mið af hljómsveitarpalli en myndband Jóns Páls leikstjóra bætir í það lífi og lit. Brynja sér líka um búningana sem eru afar viðeigandi, einkum er búningur Halldóru öfundsverður. Tónlistin er eftir Hannes og Smára og bera bæði tónar og textar skýr einkenni þeirra félaga. Þetta er hressandi skemmtun.

Silja Aðalsteinsdóttir