JólaboðiðJólaboðið er virkilega athyglisvert og skemmtilegt verk sem þau Gísli Örn Garðarsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir hafa kokkað upp úr tveim erlendum verkum, öðru dönsku en hinu bandarísku, og frumsýndu í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi við hlátrasköll. Gísli Örn leikstýrir og leikgleðin er sprúðlandi frá upphafi til enda. Dramatúrg er Melkorka Tekla.

Leikritið gerist á jólunum – og ekki bara einum jólum heldur óteljandi jólum í sömu fjölskyldunni í upp undir hundrað ár! Fjölskyldan er upphaflega frá Akureyri en er á leið til Reykjavíkur þegar sagan hefst. Óskar kaupmaður (Guðjón Davíð Karlsson) hefur hafið útgerð syðra, byggt sér hús og sest að í höfuðstaðnum með konu sinni Jóhönnu (Ólafía Hrönn Jónsdóttir). Á fyrstu jólunum þar fá þau soninn Davíð (Gunnar S. Jóhannesson) í heimsókn ásamt kærustunni Sigrúnu (Ragnheiður K. Steindórsdóttir) og Óskar telur Davíð á að flytja suður og taka við útgerðinni. Ungu hjónin setjast að hjá þeim eldri í húsinu og brátt fæðist dóttirin Margrét (Nína Dögg Filippusdóttir). Önnur dóttir fæðist, Guðmundína (Ebba Katrín Finnsdóttir) og drengur sem ekki lifir. Dæturnar vaxa úr grasi; Margrét hrífst af bandarískum hermanni (Baldur Trausti Hreinsson) og verður fyrir harkalegu aðkasti frá systurinni sem fyrir sitt leyti giftist Ragnari (Þröstur Leó Gunnarsson), vestfirskum manni með miklar hugmyndir. Þau eignast börnin Jóhönnu yngri (Ólafía Hrönn), Óskar yngra (Baldur Trausti) og Bríeti (Ragnheiður). Jóhanna yngri verður ólétt eftir hippann og róttæklinginn Bárð (Guðjón Davíð) og eignast Jón Ægi (Gunnar S.) sem í fyllingu tímans kynnist Maríu (Ebba Katrín) sem flytur með sér villinginn Alexander (Þröstur Leó) inn í gamla fjölskylduhúsið. Þá erum við komin inn í blæðandi samtímann með allri sinni óreiðu og ADHD.

Smám saman deyja hinir eldri auðvitað. Það var ákaflega fallega leyst í sýningunni.

Gegnum tíðina verðum við vör við hæðir og lægðir í fjármálum fjölskyldu, þjóðar og veraldar, það verður þróun í borðsiðum og tískubreytingar í jólamat og við sjáum gamla jólasiði trosna á jöðrunum. Fatatískan breytist eins og Helga I. Stefánsdóttir sýnir vel. Óskar kaupmaður og Jóhanna eru glæsileg í upphafi, hann í elegant frakka, hún á peysufötum. Alls konar barnafatatíska fær að njóta sín og kvenfatatíska í heila öld. Textinn var oft drepfyndinn en líka markviss þannig að hann kallaði fram alls konar jóla-upplifanir, nostraði við nostalgíuna í manni um leið og hann gerði góðlátlegt grín að henni. Svona verk er auðvitað nauðsynlegt að semja og spinna á staðnum þó að hugmyndin sé fengin annars staðar að.

Margrét verður smám saman eins konar aðalpersóna verksins og Nína Dögg naut þess vel að fá að leika hana frá fæðingu og fram á gamals aldur. Hún var hrikalega skemmtilegt slefandi smábarn, sannfærandi afbrýðisöm eldri systir, heillandi ástfangin ung stúlka, sterk sem kommúnisti og kvenréttindakona og hlý og athugul gömul kona sem skilur þá sem enginn annar í fjölskyldunni skilur.

Öll hin leika tvö hlutverk og var ekki lítið grín að sjá þau yngjast upp á þeim stundum bara örfáu sekúndum sem það tók þau að skipta um föt. Mesti munurinn var á persónum Ólafíu Hrannar, ég ætla ekkert að reyna að lýsa honum. Persónur Góa voru líka gerólíkar, Bárður jafn ófyrirsjáanlegur og Óskar eldri var formfastur. Og Ragnheiður var beinlínis óþekkjanleg bæði í fasi, tali og útliti þegar hún yngdist upp! Aðrir héldu í einkenni sín þótt þau yrðu ýktari; Robert hinn bandaríski og djassleikarinn Óskar yngri voru svipaðar týpur, sömuleiðis Guðmundína og María. Davíð og Jón Ægir og Ragnar og Alexander.

Börkur Jónsson gerir einfalda og snjalla leikmynd; eini gallinn fannst mér að hún er ekkert jólaleg. Hér gefst vissulega stórbrotið tækifæri til að sýna þróun i jólaskreytingum! Lýsingin hans Halldórs Arnar Óskarssonar lék skemmtilegt smáhlutverk á einum stað en var hefðbundin að öðru leyti. Salka Sól Eyfeld samdi fallegt titillag og stjórnar tónlistinni með Tómasi Jónssyni en hljóðhönnun annaðist Kristján Sigmundur Einarsson.

Sýningum á Jólaboðinu lýkur á þrettándanum þannig að þið skuluð ekki draga lengi að útvega ykkur miða. Ég man ekki hvort ég las það eða heyrði í útvarpi að hugmyndin væri jafnvel að setja verkið upp árlega á aðventunni. Það væri hreint ekki svo galið!

 

Silja Aðalsteinsdóttir