HafiðÞjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson undir stjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Skemmtilega og þénuga leikmynd gerir Finnur Arnar Arnarson en búningana hannar Þórunn María Jónsdóttir. Það er gamall kunningi, þetta verk, minnisstætt frá fyrstu uppfærslunni í Þjóðleikhúsinu 1992 og ekki síður úr kvikmynd Baltasars Kormáks eftir því frá 2002.
Þórður útgerðarmaður (Þröstur Leó Gunnarsson) hefur tekið stóra ákvörðun og kallar börn sín heim á fund til að kynna þeim hana. Í þorpinu býr sonurinn Haraldur (Baldur Trausti Hreinsson) svo að hann á ekki langt að fara. Honum fylgir kona hans, verslunareigandinn Áslaug (Birgitta Birgisdóttir). Haraldur hefur rekið fyrirtækið síðan faðir hans dró sig í hlé vegna veikinda. Aðrir fundarmenn tínast að: Frá Þýskalandi kemur Ágúst (Oddur Júlíusson). Hann á að vera að nema fiskifræði þar ytra en hefur meiri áhuga á tónlist. Að sunnan kemur kvikmyndagerðarmaðurinn Ragnheiður (Sólveig Arnarsdóttir) ásamt manni sínum Guðmundi (Snorri Engilbertsson). Fyrir á glæsilegu heimili Þórðar eru móðir hans Kata (Guðrún S. Gísladóttir), seinni eiginkonan Kristín (Elva Ósk Ólafsdóttir) og dóttir hennar María (Snæfríður Ingvarsdóttir). Þegar allt þetta svipmikla fólk hefur safnast á einn stað geta átökin hafist.

Við fáum líka veður af ungum sjómanni, Bergi (Baltasar Breki Samper) sem Þórður er mjög upptekinn af. (Þess má geta innan sviga að þetta hlutverk lék leikstjóri þessarar sýningar eftirminnilega í frumuppfærslunni.) Það verður fljótlega ljóst að í Bergi sér gamli maðurinn sjálfan sig ungan: allslausan en metnaðarfullan og fantaduglegan mann, býsna ólíkan liðleskjunum (að hans mati) sem hann eignaðist með fyrri konu sinni heitinni.

Hafið er grimmt verk. Allar persónurnar en þó einkum Þórður og börn hans hafa meitluð háðsyrði tiltæk við öll tækifæri og af orðaforða ömmunnar að dæma hafa þau numið þessa orðsins list frá unga aldri. Við áttum okkur líka smám saman á því að börn Þórðar hafa horft upp á það í æsku að faðir þeirra hélt framhjá móður þeirra með móðursysturinni Kristínu – meðan móðirin lá banaleguna – og okkur grunar fljótlega að Þórður eigi Maríu þótt ekki sé hún kennd honum opinberlega. Það gerir líkamlegt samband Maríu og Ágústs að vandamáli. Ekki verðum við vör við mikla ást milli foreldra og barna í verkinu og heldur ekki milli hjóna. Þetta fólk er allt illa laskað af lífinu í þorpinu og því verður erfitt að syrgja það að þorpið skuli vera dauðadæmt í leikslok.

Heimili Þórðar og Kristínar snýst á hringsviðinu og býður bæði upp á innisenur og útisenur um leið og það lokar engum rýmum þannig að við erum alls staðar með. Það er vel hugsað. Yfir sviðinu hanga stórir flekar sem myndböndum Inga Bekk er varpað á; þar sjáum við hafið í sínum breytilegu myndum. Á efsta palli trónir flygill sem Þórður er að leika á þegar tjaldið lyftist. Hann leikur Draumalandið hans Sigfúsar Einarssonar og það má heita táknrænt fyrir það sem framundan er að hann gefst upp við verkið áður en lagið er búið. Síðan staulast hann frá flyglinum niður á næsta pall þar sem hjólastóllinn bíður hans. Það er erfitt að athafna sig á hjólastól í þessum húsakynnum enda var heimilisfaðirinn ekki fatlaður þegar hann byggði sér hús. Þröstur Leó var ekki verulega sáttur í hlutverki Þórðar á frumsýningunni og virtist ekki ná almennilegu sambandi við meðleikendur sína. Kannski er hann hreinlega of ungur í hlutverkið. Kannski verða fyrirrennarar hans honum erfiðar fyrirmyndir, einkum Gunnar Eyjólfsson sem mér fannst Þröstur stundum minna svolítið óþægilega á.

Aðrar persónur stigu fram af meira öryggi. Senuþjófurinn var Kata gamla í sænginni sinni, það var engin leið að horfa á aðra þegar Guðrún Snæfríður var á sviðinu og sínar eitruðu setningar sagði hún af innlifaðri nautn. Baldur Trausti var sannfærandi sem litlausa dusilmennið Haraldur sem sér enga lausn aðra en að selja fiskveiðikvótann úr byggðarlaginu. Birgitta Birgisdóttir hefur gert léttúðugar dekurrófur að sínu sérsviði. Snorri Engilbertsson gerði sér góðan mat úr heldur illa gefnum eiginmanni Ragnheiðar og Elva Ósk var þrautpínd í vanþakklátu hlutverki seinni konunnar og stjúpu orðhvötu barnanna. Barn hennar sjálfrar, María, er líklega eina hamingjusama manneskjan í leikritinu, þó að ást hennar sé hafnað, og Snæfríður var eins og fallegt fiðrildi í rauða pilsinu sínu. Baltasar Breki var ferskur og hlýr andblær þá sjaldan að hann kom á sviðið. Forvitnilegust voru systkinin Ágúst og Ragnheiður og senan milli þeirra rétt fyrir hlé var áhrifamesta atriði sýningarinnar; hún gaf furðu mikið upp um líf þessara barna fyrr á tíð í þorpinu án þess að segja margt og vakti óvænta samúð með þeim.

Ég sé á umfjöllun um frumuppfærsluna að Ólafur Haukur hefur fækkað börnum Þórðar um heil tvö! Það er bæði missir og til bóta því leikritið þurfti að styttast. En efni verksins, staða íslenska sjávarþorpsins á öld kvótans, er ennþá brýnt.

Silja Aðalsteinsdóttir