Andri Snær Magnason hefur sama hátt á með nýja bók sína, Um tímann og vatnið, og Draumalandið fyrir rúmum áratug, að kynna efni hennar á samkomu í aðalsal Borgarleikhússins. Hér er samt mun meiri sýning á ferðinni, enda frumkvæðið hjá Borgarleikhúsinu og kvöldið partur af sýningaröð þeirra, „Kvöldstund með listamanni“.

Um tímann og vatniðÞað er erfitt að hugsa sér hvaða öðrum rithöfundi myndi takast að fylla þann sal hvað eftir annað með því einu að tala um nýja bók – sem þar að auki er komin út og hægt að kaupa eða fá lánaða á bókasafni – en þetta gerir Andri Snær. Og uppskar í gær standandi lófatak í fleytifullum sal eftir nærri hálfs annars klukkutíma innblásinn fyrirlestur. Með honum á sviðinu er Högni Egilsson sem skapar erindi Andra hljóðumgerð við hæfi, einkum með fiðluleik en líka grípur hann í píanóið. Í lokin birtist svo barnakór út úr myrkri baksviðsins, eins og fulltrúar þeirrar framtíðar sem nú er ógnað. Þetta var ótrúlega áhrifamikið.

Verkefni Andra Snæs í bók og fyrirlestri er svo hrikalega stórt að orðin eiga erfitt með að ná utan um það; eina leiðin til að fjalla um það er að ræða ekki um það, eins og hann segir. Það er framtíð jarðarinnar sem um ræðir en besta leiðin til að tala um hana er að líta til fortíðar, og Andri fer alla leið aftur í norræna goðafræði til að skoða myndina af heiminum. Þátturinn um kúna Auðhumlu, sem Andri rökstyður á sannfærandi hátt að sé myndhverfing fyrir jökul, er svo snjall að maður grípur andann á lofti! Úr jöklum Himalayafjalla renna fjórar stórár, eins og úr spenum Auðhumlu, það hafa þær gert frá upphafi vega en núna er mikil hætta á að þær taki hastarlegum breytingum með bráðnun jöklanna, vaxi fyrst hættulega en þorni svo smám saman upp. Hvað verður þá um þann milljarð manna sem reiðir sig á lífsvatnið úr þeim? Í árdaga voru sögur notaðar til að skýra fyrir mönnum sköpun heimsins og eðli hans, eins þarf sögur til að skýra þróunina og spá því hvað gerist í framtíðinni. Við eigum erfitt með að skilja háfleyg vísindi en við skiljum öll sögur, líka þær vísindalegu.

Andri fer líka aftur í nálægari fortíð og eru frásagnir hans af öfum sínum og ömmum alveg heillandi, fyndnar og vekjandi í einstakri blöndu. Og þáttur Dalai Lama fannst mér koma jafnvel betur út á fyrirlestrinum en í bókinni – það munaði um að fá að sjá hann á lifandi mynd tala og hlæja, svona sannheilagan mann.

Andri Snær byrjaði kvöldið á dálítilli upprifjun á ferli sínum. Gaman var að heyra hvernig hugmyndin að Sögunni af bláa hnettinum varð til og hvernig efnið í Draumalandið hlóðst smám saman upp þangað til ekki varð við neitt ráðið. Í huga okkar í salnum spruttu þá fram endurminningarnar um áhrif þeirrar bókar, á einstaklinga og samfélag, og ég segi fyrir mig að sá kafli kvöldsins snerti mig dýpst. Landið okkar fagra og einstaka er, þrátt fyrir allt, nær í hjarta og huga en sjálf Jörðin – þó að ég viti vel að farist hún ferst það líka.

Jarðarbúar hendast áfram að brúninni á ógnarhraða en það ER hægt að sporna við fæti. Við þurfum „bara“ að standa saman og leggja öll okkar af mörkum. Við þurfum að endurskipuleggja allt lífsmunstur okkar – en verður það ekki bara skemmtilegt verkefni? Það hljómaði þannig í meðförum Andra Snæs. Hafi hann heila þökk fyrir vakninguna.

 

Silja Aðalsteindóttir