„Þú gætir kallað umsögnina þína Veislu undir grjótvegg,“ sagði fylgdarmaður minn þegar við vorum sest inn í Litla sal Borgarleikhússins í gærkvöldi og virtum fyrir okkur glæsilega sviðsmynd Barkar Jónssonar, háa, grófa og margbrotna Drápuhlíðargrjótvegginn sem húsbóndinn á heimilinu, Ingi (Sigurður Þór Óskarsson), skreytir með rauðum ljósaklösum meðan gestir á Lúnu eftir Tyrfing Tyrfingsson tínast í salinn. Rauðu ljósin verða eins og virkar gossprungur á gráum veggnum og allt sviðið minnir á þá skelfilegu hluti sem hafa verið að gerast í okkar nærumhverfi undanfarna daga og vikur.

Meðan Ingi hengir upp Davíðsstjörnuna kemur sambýliskonan fram í alrýmið, Lúna (Ásthildur Úa Sigurðardóttir), ekki beinlínis klædd fyrir tilefnið: aðfangadagskvöld á ríkmannlegu heimili þeirra tveggja. Enda ætlar hún ekki að vera þar og borða hangikjöt og Ora-baunir með kærastanum – hún er á förum. Þessu sambandi sem nú hefur varað í rúm tólf ár er lokið. Hún er stygg og kjaftfor, ekki ánægð með stöðu mála þó að hún hafi sjálf tekið ákvörðunina, hann víkur sér undan ásökunum, veit upp á sig einhverja skömm.

Þegar Lúna fer inn til sín að pakka birtist óvæntur og óvelkominn gestur, gamall kunningi Inga sem reynist vera sjálfur Heiðar snyrtir (Hilmir Snær Guðnason), ógæfumaður sem einu sinni var heimsfrægur á Íslandi og víðar sem fulltrúi fegurðar og þokka. Hann er í djúpum fjárhagslegum og tilfinningalegum skít sem hann hefur veika von um að Ingi bjargi honum úr. Ingi leggur fyrir hann verkefni í staðinn: að hann fái Lúnu til að vera um kyrrt á heimilinu, alla vega í kvöld. Átökin víkka út og teygja sig aftur í tímann, móðir Inga (Sigrún Edda Björnsdóttir), ein af fegurðardrottningum Heiðars, lítur snöggvast inn; átökin breiða sig líka út í salinn þar sem reynast vera gamlir vinir Heiðars sem hann þarf að heilsa upp á. Allt er lagt upp í mikið fjör og umræðan snýst meðal annars um fegurð og list í fortíð og samtíma og hvort list þurfi að vera fögur. Það eru djúpar pælingar. En undir kraumar harmurinn; harmur Inga og Lúnu og harmsaga Heiðars sem engan enda tekur.

Textinn er afar vel skrifaður, þéttur, afhjúpandi, fyndinn og beittur. Sérstaklega eru ræður Heiðars morðfyndnar en Lúna getur verið býsna orðheppin og skörp líka. Við kynnumst fólkinu á sviðinu betur og betur með hverri setningu og maður má hafa sig allan við að missa ekki af, svo þétt er skothríðin á köflum. Sýningin er löng, tveir og hálfur klukkutími án hlés, það er töluvert. En snjallt samt að rjúfa ekki heildina.

Stefán Jónsson leikstjóri hefur valið vel í hlutverkin. Ingi Sigurðar Þórs er hlédrægur en fastur fyrir, veit hvað hann vill og gerir sitt til að ná því en veit hvenær hann hefur tapað og tekur því. Ástríður Úa tjáir djúpa reiði og sárindi Lúnu af illa innibyrgðum krafti og samspil þeirra Hilmis í samtölum um fegurð, ljótleika og grimmd munu lifa lengi í minninu. Hilmir Snær gefur sig allan í sína klofnu persónu og það er sko ekki lítið – enda hlýtur Heiðar snyrtir að vera óskahlutverk, erfitt, margslungið, flókið en líka gjöfult. Sigrún Edda var gersamlega óþekkjanleg í hlutverki móður Inga og bar gervi Elínar S. Gísladóttur leikgervahönnuðar með stæl!

Helga I. Stefánsdóttir hannaði ekki einungis búninga á persónurnar, hún fyllir líka koffortið hans Heiðars af alls konar góssi sem gaman er að fylgjast með þegar það birtist. Gunnar Hildimar Halldórsson hannar lýsingu sem er flókin vegna þess hvernig verkið stekkur út undan sér en þar skorti ekkert á listræna nákvæmni.  Ísidór Jökull Bjarnason sér um tónlist og hljóðmynd sem var samsett úr dægurlögum og jólalögum af ýmsu tagi til að skapa ólíka stemningu.

Stefán Jónsson hefur kannski þurft að hugsa sig um aukalega sem leikstjóri vegna þess hvernig Tyrfingur kýs að brjóta fjórða vegginn í verkinu. En hann velur aðferð sem gefst einkar vel – að minnsta kosti fyrir minn smekk – hann lætur eins og það sé heimsins eðlilegasti hlutur að persónurnar séu ýmist innan fjögurra veggja eða ekki. Mér fannst það svínvirka, og verkið og sýningin verða hrein listræn nautn. Lifi fegurðin í öllum sínum myndum.

Silja Aðalsteinsdóttir