Þær eru níu, hver annarri glæsilegri, jafnvel í barnalegum innigöllum leynir sér ekki hvað þær eru flottar. Svo syngja þær og leika, sviðsvanar og öruggar, á Litla sviði Borgarleikhússins: RVKDTR – Reykjavíkurdætur. Þær eru allar höfundar verksins en ein þeirra tekur ábyrgð á útkomunni, Kolfinna Nikulásdóttir leikstjóri, sem líka er ein í hópnum á sviðinu.

RVKDTRÉg vildi óska þess að ég skildi betur textana sem þær rappa af svo miklum krafti en eyrun mín eru orðin of gömul fyrir hraðann og ef ég næ ekki fljótlega í skottið á efni textans þá rennur allt saman í bendu. Ég hefði notið sýningarinnar mun betur ef ég hefði getað lesið þessa texta eins og í leikskránni með Mamma mia en hér var engin leikskrá. Annað sem varð mér erfitt voru strob-ljósin hennar Juliette Louste, heldur langir kaflar, þótti mér.

Sem betur fer voru leikatriðin aðgengileg, vel heppnuð og hæfilega lýst, beitt og einlæg í sterkri blöndu. Svið Jóhönnu Rakelar (sem er ein hinna níu) er eins og leikmynd í sjónvarpsstúdíói og inn á milli annarra atriða sest Steiney Skúladóttir í hægindastólinn til hægri og kallar til sín gest í sjónvarpssal sem hún síðan ræðir við líkt og skemmst er að minnast úr Vikunni með Gísla Marteini. Allt er það þekkt fólk úr menningarlífinu sem birtist í hæfilega skopgerðum búningi.

Fyrstur í sófann var Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) – mér fannst hann lifandi kominn með sinn ástríðufulla talanda, ákveðnu skoðanir og átakalausu hreykni. Eftir afhjúpandi samtal um listir og kyn færði Þorleifur Örn sig út í horn á sófanum og Steiney kallaði næsta gest inn, Unnstein Manuel (Steinunn Jónsdóttir). Við hann var rætt um tónlist, nánar tiltekið íslensku rappsenuna. Það má ekki ljóstra of miklu upp um þær samræður en þær voru hræðilega fyndnar. Undir þeim fóru aðrir miklir menningarkarlar að sletta sér fram í, Helgi Seljan, Egill Helgason og ýmsir fleiri. Aðferð Reykjavíkurdætra til að sýna þessa einstaklinga á skyndimynd var einföld en algerlega stöngin inn. Ég reyndi að hlæja inn í mig til að missa ekki af texta en það voru fáir aðrir svo tillitssamir! Þriðji gesturinn var svo sjálfur leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, Kristín Eysteinsdóttir (Kolfinna Nikulásdóttir) og jafnvel henni tókst Steineyju að koma fyrir í afleitri stöðu.

Nú hefði mátt ímynda sér að Reykjavíkurdætur notuðu tækifærið þegar þær höfðu afhjúpað kvenfyrirlitningu á bestu bæjum og færu að upphefja sjálfar sig og kyn sitt – en, nei. Hver af annarri játaði sitt innra óöryggi með dæmum sem sum voru nístandi sár. Og maður spyr: Ísland jafnrar stöðu kynjanna og jafnrar virðingar, hvenær kemur þú?

-Silja Aðalsteinsdóttir