Einn þeirra fjölmörgu listamanna sem nú leggja leið sína til okkar ískalda og ónotalega lands til að taka þátt í Fringe-listahátíð í Reykjavík er Elsa Couvreur frá Woman’s Move í Sviss. Hún sýndi í dag fyrri sýningu sína af einleiknum The Sensemaker í Mengi við Óðinsgötu, sú seinni verður á föstudaginn kl. 17 á sama stað.

„Sensemaker“ … kannski er átt við þann sem reynir að fá vit út úr vitleysunni. Alltént rímar sú þýðing vel við innihald einleiksins sem fjallar um samskipti ungrar konu við vélmenni í síma eða öðru fjarskiptatæki. Smám saman kemur í ljós að hún er að sækja um starf, sennilega við leiklist eða einhvers konar sviðslistir, og lengi framan af má hún bíða eftir að komast að – „allir þjónustufulltrúar okkar eru uppteknir eins og er, vinsamlegast bíðið“, eins og vélmennið endurtekur með reglulegu millibili.

Meðan hún bíður er leikin músak-útgáfa af Óðnum til gleðinnar. Þar er verulega illa farið með gott tónverk! En í djúpum leiða sínum fer stúlkan að bregðast við hinni vélrænu tónlist og leika á hana – með texta (af bandi) og skemmtilegum vélrænum eða hálf-vélrænum handahreyfingum í takti við textann. Lengi dansar hún þannig með efri hluta líkamans en neðri hlutinn, í sínu þrönga pilsi og hælaháu skóm, er kyrr eins og myndastytta. Það var bæði flott og fyndið.

Gamanið varð smám saman æði grátt eftir að stúlkan náði loks sambandi við vélmennið og fór að hlýða boðum þess, stuttum og (yfirleitt) skýrum framan af en flóknari þegar á leið. Hápunktur leiksins var þegar vélmennið fór með svo löng fyrirmæli að áhorfendur voru löngu búnir að missa þráðinn en stúlkan hafði lagt allt á minnið og fór eftir skipununum í einu og öllu þótt býsna galnar væru. Þá er vélmennið orðið nokkuð glatt með viðfangið en enn þarf hún að sanna hversu hlýðin hún er: hún fær skipun um að hátta sig. Úr öllu.

Þetta er, þrátt fyrir skopið, sterkt og óþægilegt verk sem talar beint inn í „me-too“ bylgjuna og minnir á andstyggilegu sögurnar sem stúlkur í sviðslistum (og æðimörgum öðrum atvinnugreinum) hafa sagt á undanförnum árum. Það gerir The Sensemaker ennþá ónotalegri að viðmælandi stúlkunnar skuli vera vél. Við getum bara ímyndað okkur hverjir eru á bak við hana. Eða hvað er á seyði ef enginn er á bak við hana.

Elsa Couvreur er afskaplega falleg stúlka sem skapaði sannfærandi persónu með svipbrigðum sínum og látæði. Hún er góður dansari og látbragðsleikari og ég er ekkert hissa á öllum þeim aragrúa verðlauna sem einleikurinn hennar hefur hlotið víða um heim. Það eru ekki mörg sæti í Mengi og betra að kaupa miða strax á seinni sýninguna.

Silja Aðalsteinsdóttir