Stúlkan sem stöðvaði heiminnÞað er ansi stór hugmynd að taka inn, ekki síst fyrir krakka, að Litla svið Borgarleikhússins með öllu sem í því er og okkur áhorfendum líka sé í rauninni inni í höfði ellefu ára stúlku, en með þá hugmynd leikur hópurinn 10 fingur sér í verkinu Stúlkan sem stöðvaði heiminn. Verkið er samið af hópnum og var frumsýnt á laugardaginn undir stjórn Helgu Arnalds.

Á beru sviðinu með plasttjöldum í kring starfa þrír heilastarfsmenn (Benedikt Karl Gröndal, Kjartan Darri Kristjánsson, Sólveig Guðmundsdóttir), önnum kafnir við að vinna úr tilfinningum stúlkunnar, áhyggjum hennar, kvíða og spennu, bæði vakandi og sofandi. Tilfinningabenduna (sem tekur á sig áþreifanlega mynd) flokka þeir fyrst og greina með látbragðsleik; þá leikur einn það sem hann finnur fyrir við að handfjatla stykkið en hinir giska á hvaða tilfinningu hann er að túlka. Þarna fengu leikararnir að sprella ofurlítið og tókst vel upp, einkum var gelgjan greinileg!

Tilfinningarnar eru svo settar í sérstaka kvörn til úrvinnslu og tætlunum troðið í poka. Þetta er skemmtilega gert og tilfinningapokarnir nýtast óvænt aftur þegar við skreppum í heiminn fyrir utan höfuð stúlkunnar þar sem þeir verða ónotalegir skólafélagar. Þá fáum við að hitta stúlkuna sjálfa (Sólveig) og fylgjast með því þegar hún þrefar við mömmu sína og pabba (Benedikt Karl, Kjartan Darri) sem finnst hún láta illa að stjórn, enda ekkert smábarn lengur. Fjölskyldan er að flytja og stúlkan er að byrja í nýjum skóla en foreldrarnir átta sig engan veginn á því hvað þessi umskipti þýða fyrir hana.

Foreldrarnir hafa engan smekk fyrir listaverkinu, heiminum sem stúlkan hefur búið sér til úr alls konar drasli og dóti og er hinn besti heimur allra heima, henni er gert að farga honum og það veldur eðlilega sárindum. Þeir trúa því ekki heldur að stúlkan geti gert kraftaverk og viðurkenna ekki kraftaverkin þó að þau gerist! Dæmigert fullorðið fólk. Ekki fyrr en hún stöðvar heiminn, þá verða þau að trúa.

Leikhópnum liggur dálítið mikið á hjarta í þessari sýningu, meira en kemst vel til skila á fimmtíu mínútum. En búningar, sviðsútfærsla og öll myndræn vinna var afskaplega falleg hjá Evu Signýju Berger og Helgu Arnalds; til dæmis voru gleðidroparnir augnayndi þegar þeir komu heiminum í gang að nýju í lokin. En mér fannst ekki verða nógu mikið úr hinum besta heimi allra heima sem stúlkan hafði búið til, hann hvarf eiginlega í stóru myndina. Tónlistin og hljóðmyndin voru í hæfum höndum Valgeirs Sigurðssonar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir