KvennafræðarinnÞað eru orðin rúm þrjátíu ár síðan ég sat í góðum hópi kvenna og þýddi og staðfærði danska fræðiritið Kvinde kend din krop. Hugsa sér að svona langur tími skuli vera liðinn! Danir hafa verið duglegri en við að halda þessari frábæru bók við; þar er hún uppfærð reglulega en hér hefur hún ekki komið út aftur og er löngu uppurin. En nú minnir Þjóðleikhúsið á þetta verk með leiksýningunni Kvennafræðaranum eftir Kamillu Wargo Brekling sem var frumsýnt í Kassanum í gærkvöldi í ágætri þýðingu Málfríðar Garðarsdóttur.

Leikritið virkar á mann eins og ofurlítið ruglingslegur efnisútdráttyur bókarinnar því þar er tæpt á geysilega mörgu en ekki farið vandlega í neitt atriði, og röðin á atriðunum var heldur ekki alltaf bein. Enda hefði sýningin þá kannski orðið líkari sýnikennslu en leiksýningu. Það er mikið lagt upp úr því að verkið sé létt og skemmtilegt og leikararnir tveir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Jóhann G. Jóhannsson, létu ekki sitt eftir liggja í því efni. Maríanna lék „konuna“ í mörgum aðstæðum, og Jóhann lék bæði konur og þá karla sem birtast í verkinu, til dæmis sem læknar og elskhugar.  Vel mætti hugsa sér þetta sem ærslasýningu – til dæmis gæti Jóhann gert mun meira grín úr kvenhlutverkum sínum en hann gerir enda þykir fátt fyndnaria í leikhúsi en karlar sem leika konur. En leikstjórn Charlotte Bøving er æsingalaus og tiltölulega lágstemmd sem sjálfsagt er betra þegar á heildina er litið.

En það er svolítið vandséð hver markhópur þessa verks er. Það kafar ekki ofan í viðfangsefnið – kvenlíkamann, starfsemi hans og örlög – þannig að það segi reyndum manneskjum eitthvað nýtt. Til dæmis var að mínu mati skautað alltof hratt yfir lýtalækningar og viðbrögð við ofbeldi. Og það er bara stöku sinnum verulega fræðandi fyrir þá sem lítið vita. Þó fannst mér atriðið þar sem Jóhann „leikur“ æxlunarfæri kvenna ansi upplýsandi og sniðugt. Líklega er þetta verk einna helst fyrir unglinga eða ungt fólk sem veit sínu viti og getur skemmt sér innilega yfir því sem það kannast við í texta og látbragði og látið það líka opna skilning á ýmsu sem það hefur ekki hugsað út í.

Sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur var mikil og myndræn, byggð upp af hvítum boltum sem gátu minnt á egg, og búningarnir hentugir. Öll umgjörð í hljóði (Kristinn Gauti Einarsson) og lýsingu (Ólafur Ágúst Stefánsson) var hófstillt og mjög viðeigandi.

Silja Aðalsteinsdóttir