Hof, nýja menningarhúsið á Akureyri, er fallega staðsett, skemmtilega hugsað og hannað og þangað er gott að koma. Og fyrsta frumsýning Leikfélags Akureyrar í húsinu, á Rocky Horror Show, tæplega fertugum söngleik eftir Richard O’Brien í fyrrakvöld, tókst svo vel að ég gæti best trúað að blessun væri yfir húsinu.

Vissulega eru gallar á húsakynnunum. Anddyrið fyrir framan aðalsalinn, Hamraborgina, er óttalega litlaust og lítið hugsað; það er löng leið til baka á klósettin í hlénu og þar var klassísk biðröð langt út á gang fyrir framan kvennaklósettið. Arkitektar læra þetta aldrei. Nú getur auðvitað verið að það séu fleiri salerni og nær Hamraborginni en sé svo var ekki vísað á þau.

Hamraborgarsalurinn er hefðbundinn stór leikhússalur eða bíósalur með stóru sviði og öllum græjum – sem sannarlega þurfti að nota í sýningunni á Rocky Horror. Verkið gerist að mestu leyti í ævintýrakastala þar sem allt getur gerst og ekkert er ómögulegt og ég gat ekki betur séð en vel tækist að sýna það.

Rocky HorrorRocky Horror Show er fantasía vel upp alinna borgaralegra ungmenna um annað líf og meira spennandi með vímuefnum og rokk og róli – en bara tímabundið. Á eftir tekur hvunndagurinn við aftur með skyldum sínum og leiðindum. Holdgervingur hins lífsins er Frank N Furter, tvíkynhneigður klæðskiptingur frá plánetunni Transilvaníu, skemmtilega sköpuð persóna. Ég var svo heppin að sjá verkið þegar það var sýnt fyrst hér á landi í Iðnó í uppsetningu Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir tveimur áratugum eða svo. Þar var í aðalhlutverki Páll Óskar Hjálmtýsson, ungur og ferskur og fagur og kynþokkafullur og átti ekki í nokkrum vandræðum með að fleka bæði konur og karla. Heimurinn sem Janet og Brad villtust inn í þar var fremur ögrandi og fjörugur en siðspilltur og hættulegur, og maður gat ímyndað sér að hann hefði á komandi áratugum verið þægilega kitlandi minning um öðruvísi líf í huga þeirra. Með Magnús Jónsson í hlutverki Franks N Furter er annar blær á verkinu. Hann er eldri, virkar útlifaðri og heimur hans dekadensinn uppmálaður. Um leið er hans Frank írónískari, meðvitaðri um þann myrka blekkingarleik sem hann leikur gagnvart ungu óreyndu manneskjunum. Ég hafði meira gaman af gömlu sýningunni en sú nýja sýndi mér betur hvers vegna þetta verk er sígilt.

Rocky Horror er hylling listgreinanna, einkum bókmenntaverka á borð við Frankenstein Mary Wollstonecraft, Dracula Brams Stoker og Grimmsævintýri eins og Hans og Grétu og Rauðhettu, en þar eru líka ótal vísanir í bíómyndir; mátti þar til dæmis bæði minnast Doktors Strangelove og The Seven Year Itch. Litríkt svið og búninga sköpuðu Pétur Gautur Svavarsson og Rannveig Eva Karlsdóttir og þar skorti ekki fjölbreytnina. Til dæmis gafst ég upp á að telja hvað Magnús skipti oft um föt og hárkollur en flottastur var hann bersköllóttur á brókinni. Hann er ekkert nema vöðvar, skinn og bein og svo langur að á tíu tommu hælunum varð hann á að giska tveir og hálfur metri – og hver sentimetri siðspilltur!

Í kringum Frank raðar sér óþjóðalýður, hver persóna skrautlegri en sú næsta. Fremst í flokki er Kolumbia sem Andrea Gylfadóttir leikur og syngur af list og ástríðu. Það er hún sem heilsar okkur í byrjun leiks og kveður okkur með kossi í lokin, þau atriði voru bæði óvænt og skemmtilega útfærð. Glæsimennið Eyþór Ingi Gunnlaugsson myndbreytist í ógeðið Riff Raff og Bryndís Ásmundsdóttir er Magenta, bæði hafa fallega rödd og njóta sín í gervunum þótt ekki séu þau falleg. Eddie leikur Matthías Matthíasson og var flottur, bæði lífs og liðinn. Sköpunarverk Franks, Rocky litla, leikur Hjalti Rúnar Jónsson og skemmti sér sömuleiðis prýðilega.

Sakleysingjana Brad og Janet leika Atli Þór Albertsson og Jana María Guðmundsdóttir. Þau syngja bæði vel og mynda ágæta andstæðu við kastalabúa. Sögumaðurinn sem hélt þessu öllu saman var Guðmundur Ólafsson þegar hann leiddi okkur um skúmaskot kastalans og minnti einna helst á Sherlock Holmes. Hann syngur líka vel eins og kunnugt er og stundum var mikill léttir að fá að hlusta á hann tala og syngja þegar maður hafði lengi ekki heyrt orðaskil í söngtextum. Ekki veit ég hvort það fremur hljómsveitinni að kenna eða því að leikararnir tóku ekki nógu vel utan um orðin, en það gera bæði Guðmundur og Andrea. Mættu þau hin læra af þeim. Það var til dæmis ótrúlega skrítið að hlusta á hópinn syngja línu í viðlagi á að giska þrjúhundruð sinnum og heyra aldrei orðaskil!

Dansar Steinunnar Ketilsdóttur hefðu vel mátt vera svolítið frumlegri og óvæntari. Þýðinguna gerði Veturliði Guðnason og hún er orðin skemmtilega forn á köflum. Tónlistarstjóri var Andrea Gylfadóttir og leikstjóri Jón Gunnar Þórðarson og mega þau vel una við sitt verk.

Silja Aðalsteinsdóttir