Huldar Breiðfjörð virðist hafa sett sér það verkefni að kafa í sálarlíf íslenskra karla og athuga hvað hann kemur upp með. Nýséð (tvisvar í mínu tilviki) er kvikmyndin París norðursins þar sem fjórir karlmenn eru undir misnákvæmri smásjá (og einn karlmaður in spe á hliðarlínunni) og í gær sáum við Gauka á Nýja sviði Borgarleikhússins þar sem Huldar gegnumlýsir tvo karla á ólíkum aldri. Leikstjórinn er enginn annar en Jón Páll Eyjólfsson, einn hinna krumpuðu í bíómyndinni.

Gaukar

Gunnlaugur (Jóhann Sigurðarson) býr fyrir vestan (á Flateyri?) en hefur mælt sér mót við Tómas (Hilmar Guðjónsson), ungan mann úr Reykjavík, honum alls ókunnan, á hóteli í Borgarnesi eða nágrenni vegna þess að hann er með fugl sem hann vill koma fyrir á góðum stað. Gunnlaugur hefur þegar hitt hina mennina sem svöruðu auglýsingunni, honum leist ekki á þá en Tómas virðist ætla að duga. Fuglinn heitir Pálfríður, firna fallegur páfagaukur (leikinn af Juri) sem er með þeim félögum á sviðinu allan tímann og átti góða (og býsna óvænta) spretti í leik.

Þessar aðstæður eru auðvitað dálítið fáránlegar svona fyrirfram en verða sennilegri þegar við kynnumst persónunum. Fuglinn hefur verið Gunnlaugi meira virði sem félagsskapur en maður á kannski von á og nú þegar hann hyggst umbylta lífi sínu er skiljanlegt að hann vilji vita af honum í góðum höndum.

Gunnlaugur og Tómas eiga býsna margt sameiginlegt, einkum það að eiga erfitt með að svara kröfum kvennanna sem þeir hafa verið í slagtogi með. Eiginkona Gunnlaugs fór að heiman til að finna sjálfa sig eftir tæplega þrjátíu ára hjónaband og þrjú börn og vill nú ekkert af honum vita. Sambýliskona Tómasar þráði umfram allt að „hafa gaman“ en smám saman fór svo að Tómas gat engan veginn áttað sig á hvað það þýddi.

Þessar upplýsingar fáum við með hægðinni í samtali félaganna og auk þeirra margar sögur úr daglega lífinu og fréttum, túlkaðar, litaðar og leiknar af sögumönnum. Textinn er þéttur og þrunginn merkingu, lúmskt fyndinn þó að efnið sé hjartaskerandi og einkennilega spennandi þótt þarna sé leikið með margar kunnuglegar klisjur.

Auðvitað skiptir leikur öllu máli í svona verki og þeir Jóhann og Hilmar kunna list samleiksins vel. Þeir fengu fína æfingu í samhæfingu í Rauðu eftir John Logan í Borgarleikhúsinu í hittifyrra og virkilega smekklegt af leikhússtjóra að leyfa þeim að láta reyna á samvinnuna aftur. Hilmar dregur upp skýra mynd af Tómasi, góðum dreng en dálítið ráðvilltum, en gefur líka í skyn að ekki fáum við að vita allt um manninn á einu kvöldi. Í honum búi meira en við fáum að sjá enda hefur hann framtíðina fyrir sér. Jóhann er gegnheill í hlutverki Gunnlaugs; við þekkjum þennan mann inn úr, með öllum kostum hans og göllum. Jóhann nýtur þess í hlutverkinu hvað hann getur óendanlega mikið sem leikari og það er nautn að horfa á hann túlka þennan mann. Sjá til dæmis svipbrigðin þegar hann rifjar upp samskipti þeirra hjóna á sælustu stundum þeirra og svo síðasta símtalið …

Herbergið þar sem félagarnir hittast er stærra en maður á að venjast á hótelum en svið er nú einu sinni allt á breiddina svo ekki er gott við að gera. Brynja Björnsdóttir leikmyndahönnuður, ljósameistarinn Þórður Orri Pétursson og Roland Hamilton, sem bjó til myndband af gróðri (mosa?) í snjó sem varpað er á sviðið, sköpuðu saman sterkt andrúmsloft einmanaleika, framandleika og kulda. Afar mínímalísk tónlist Úlfs Eldjárn studdi við þær kenndir. Risastórir skuggar persónanna á auðum bakvegg sviðsins lögðu smekklega áherslu á vanmátt þeirra að glíma við örlög sín. Fantagóð sýning.

Silja Aðalsteinsdóttir