Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz sýnir nú á Nýja sviði Borgarleikhússins söngleikinn Oklahoma eftir þá Richard Rogers (tónlist) og Oscar Hammerstein II (leikgerð og söngtextar). Handritið er byggt á leiktexta Óskars Ingimarssonar og söngtextum Egils Bjarnasonar en lagað að núgildandi enskri útgáfu. Að þýðingu við aðlögun komu Kolbrún Halldórsdóttir og Þór Breiðfjörð, í samráði við Orra Hugin Ágústsson leikstjóra. Tónlistarstjóri er Ingvar Alfreðsson, höfundur bráðskemmtilegra dansa og heillandi hópatriða er Viktoría Sigurðardóttir en Orri Huginn stýrir heildinni styrkri hendi; hann er kominn með mikla og verðmæta reynslu í að skapa glæsilegar söngleikjasýningar með nemendum og það er lofsvert af Borgarleikhúsinu að opna dyr sínar fyrir þeim.

Söngleikurinn Oklahoma var frumsýndur á Broadway í New York 1943 og hefur sjálfsagt verið á fjölunum einhvers staðar í heiminum æ síðan.  Tónlistin er áheyrileg og söngvæn, „allir“ kunna upphafslínurnar úr „Ó, þessi indæli morgunn“ á frummálinu og mörg önnur lög eru allra eign. Verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu 1972 við miklar vinsældir og hefur síðan ratað á svið hér heima í framhaldsskólum og víðar. Söngleikurinn er byggður á leikriti frá 1931, Green grow the Lilacs eftir Lynn Rigg, og fjallar í grunninn um stéttbundna togstreitu milli bænda og kúreka um aldamótin 1900 en ástirnar eru löngu orðnar aðalatriðið.

Bóndadóttirin Laurey (Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir) á tvo biðla og veit lengi vel ekki hvorn þeirra hún á að velja eða hvort hún á að hinkra eftir fleiri biðlum. Annar er kúrekinn Curly (Andri Fannar Sóleyjarson Sveinbjörnsson), léttur á bárunni, fyndinn og söngvinn, hinn er vinnumaðurinn á bænum, Jud Fry (Baldur Björnsson), þungur í skapi og dulur. Ella frænka (Natalía Erla Arnórsdóttir) er ekki í vafa um að hún eigi að taka Curly og gera hann að góðum bónda en einhvern veginn fara Laurey og Curly alltaf að þrátta þegar þau hittast. Svo fer að Laurey tekur boði Juds á dansleikinn af tómri þrjósku, þorir ekki að treysta grínaranum Curly en er í rauninni hálfsmeyk við Jud. Curly verður sár og gramur þegar hann fréttir þetta og heimsækir Jud og ögrar honum – það var eitt allra skemmtilegasta atriðið í sýningunni.

Meðan á þessu gengur fylgjumst við líka með fjölskrúðugum ástamálum vinkonu Laurey, Ado Anní (Matthildur Steinbergsdóttir) sem veit ekki hvort hún á að leyfa farandsalanum Ali Hakim (Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson) að draga sig á tálar eða bíða prúð eftir Will Parker (Sigurður Þorkell Vignir Ómarsson) sem hún elskar líka, alla vega þegar hún man eftir því. Ado Anní er gott dæmi um bestu vinkonu aðal sem fær mun skemmtilegra og bitastæðara hlutverk en kvenhetjan og Matthildur nýtti sér það verulega vel. Á dansleiknum kemur til átaka milli kúreka og bænda en úr þeim leysist og líka ástamálunum. Satt að segja þótti mér lokalausnin ansi hastarleg, svona miðað við almennar hugmyndir um réttarfar, en þetta er söngleikur…

Sviðsetningin er einföld og vel nýtt, öll rými eru tilbúin á sviðinu og lítið þarf að gera til að færa sig stað úr stað í framvindu verksins. Búningar voru nútímaleg útfærsla á fatnaði frá fyrstu áratugum síðustu aldar og fóru vel á leikurunum. Öll voru þau eins og heima hjá sér á sviðinu, dönsuðu og sungu af smitandi lífsfjöri. Söngurinn skiptir auðvitað höfuðmáli og hann var kennurum skólans til sóma. Mest mæddi á Andra Fannari í hlutverki Curly, hann syngur bæði upphafs- og lokalagið og stórskemmtileg lög inn á milli, t.d. langa sönginn um glæsikerruna sem hann hefur leigt til að flytja Laurey á dansleikinn. Andri Fannar er skínandi góður söngvari og gerði lífsglaða, kærulausa kúrekann með heita hjartað afskaplega aðlaðandi persónu. Tinna Margrét mætti honum algerlega á jafnréttisgrundvelli í hlutverki Laurey og samsöngur þeirra var mjög sjarmerandi. Baldur var svo andstæðan, innhverfur og ómannblendinn, hættuleg týpa og sýndi það ágætlega í söng og leik. Natalía Erla var sannkölluð „Soffía frænka“ í hlutverki Ellu, maður samþykkti á punktinum að hún réði öllu. Kómísku hlutverkin voru líka afar vel skipuð, Sigurður Þorkell, Matthildur og Benjamín Ragnar nutu þess að grínast og skemmta áhorfendum, og sérstaklega gaman var að heyra Sigurð syngja um undur Kansasborgar.  Marga fleiri mætti nefna því eins og jafnan er með skólasýningar var enginn hörgull á leikurum, það var helst að strákana vantaði því mörg karlhlutverkin voru skipuð konum. Til dæmis var Carnes dómari ágætlega sunginn og leikinn af Sóleyju Arngrímsdóttur.

Mér finnst það lofa góðu að fá að sjá skólasýningu í almennilegum sal með upphækkuðum áhorfendapöllum og ég vona að Oklahoma njóti langra lífdaga á Nýja sviði.

 

Silja Aðalsteinsdóttir