Eftirvæntingin var nánast áþreifanleg í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi fyrir frumsýningu á þriðja hluta Mayenburgþríleiksins, Ekki málið. Um fátt hefur verið rætt meira í leikhúslífi okkar undanfarna mánuði en Ellen B og Ex, ég hef jafnvel fengið fyrirspurnir erlendis frá um það hvorn af fyrri hlutunum ég ráðleggi gestum fremur að sjá ef þeir hafi ekki tækifæri til að sjá nema annan. Og hvernig yrði lokaleikurinn, sá sem höfundurinn, Marius von Mayenburg, stýrir sjálfur?

Í fyrri hlutunum báðum voru þrjár persónur: par á heimili sínu og utanaðkomandi gestur sem kemur róti á heimilislífið – raskar jafnvæginu. Í Ekki málið eru persónur bara tvær en önnur er að koma heim úr ferðalagi og það þarf að gefa skýrslu um það sem gerst hefur meðan hún var í burtu, bæði heima og heiman. Erik (Björn Thors) og Simone (Ilmur Kristjánsdóttir) eru nútímaleg hjón sem bæði vinna utan heimilis og skipta með sér verkum heima fyrir, eru bæði jafnvíg sem uppalendur tveggja barna sem komin eru nokkuð á legg og hirða jafnt um heimilið – nema þegar annað þeirra fer að heiman í vinnuferðir. Þetta eru ekki byltingarkenndar aðstæður í okkar augum hér á landi en í sínu samfélagi líta þau á sig sem brautryðjendur í nútímalegu sambúðarformi.

Þegar leikritið hefst er Simone einmitt að koma heim úr vinnuferð með Manuel yfirmanni sínum. Hún er verkfræðingur og teymið vinnur við að endurbæta hluta í kappakstursbílum. Það er spenna í Simone, hún hefur komið með gjöf handa Erik og verður pirruð þegar hann vill ekki opna gjöfina strax. Erik er sjálfur á síðasta snúning eftir erfiða viku en hann er ritstjóri á forlagi og þýðandi. Annirnar við krakkana valda því að hann er orðinn á eftir með þýðingu og hann er hræddur um að yfirmaðurinn (og eigandi forlagsins) sé óánægður með hann. Spennan milli þess sagða og ósagða veldur deilu milli þeirra hjóna, þau togast á, kýta, rífast um vinnuna, hversdagslífið, skyldurnar, ábyrgðina og framtíðina og það verður æsilega spennandi, launfyndið rifrildi sem þau glansa stórkostlega í, Björn og Ilmur. Þvílíkir snillingar!

Fram að þessu er verkið klassískt hversdagsraunsæi – en svo er öllu snúið á haus. Sími Eriks hringir og Simone fer út og þegar hún kemur inn aftur er verkfræðingurinn Erik kominn heim úr sinni vinnuferð með yfirmanninum Manuelu og hann er með gjöf handa eiginkonunni, ritstjóranum og þýðandanum Simone … Og samtalið byrjar upp á nýtt, með tilbrigðum.

Mayenburg leikur sér að formi frekar en efni í Ekki málið. Fjórum sinnum skipta hjónin um hlutverk í sýningunni (og það er alltaf símhringing sem skilur að) og við fáum að sjá hvernig þau bregðast ólíkt við sömu upplýsingum. Eru þau í alvöru samfélagslegir frumkvöðlar eða föst í gömlu fari? Stjórna þau lífinu eða láta þau lífið stjórna sér?

Björn og Ilmur gefa Erik og Simone að sumu leyti staðlaðan svip karls og konu í vestrænu nútímasamfélagi en þau verða líka persónur með sinn eigin svip og eiginleika í meðförum leikaranna og þetta gefur leiknum einstaklega skemmtilegt og forvitnilegt yfirbragð. Eins og með fyrri hluta þríleiksins verður áhorfandinn stöðugt að vinna úr því sem hann sér og heyrir, reikna út, taka ákvarðanir, skipta um skoðun, reyna að komast að ákveðinni niðurstöðu – sem verður svo bylt í næsta vetfangi. Þetta er kannski bara verk um hjón að rífast en guð minn góður hvað það er vel skrifað! Og frábærlega vel þýtt af Bjarna Jónssyni.

Eins og áður nýtir Mayenburg sér leikmynd Ninu Wetzel sem einnig sér um búninga og ljósahönnun er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar og Ýmis Ólafssonar. Lúmsk og stundum létt truflandi tónlistin er eftir David Riano Molina en Aron Þór Arnarsson sá um hljóðhönnun. Texti dægurlags og aðgerðir leikaranna í lokin voru í nokkru misræmi og ollu rýni andvöku þannig að enn er verið að melta verkið. Það er eins og það á að vera!

Silja Aðalsteinsdóttir