FíasólFíasól er flutt í Kúlu Þjóðleikhússins og þangað geta krakkar heimsótt hana. Hún er nefnilega að ná sér eftir flensuna og getur ekki komið út að leika. En við megum vel koma inn til hennar og sjá hana leika sér í hosiló við Ingólf Gauk og Pippu systur. Ég býst við að einhverjum ungum leikhúsgesti hafi brugðið við að heyra mömmu Fíasólar lýsa því yfir í anddyrinu fyrir leiksýninguna að Fíasól gæti ekki leikið í dag en orðið  þeim mun fegnari þegar Fíasól kom sjálf á vettvang og bauð okkur inn til sín. Þetta er vel heppnuð leið til að láta gestum líða vel og finnast þeir vera með í leiknum.

Því miður er svoddan drasl í hosiló að þar er lítið hægt að athafna sig. Þess vegna verður Fíasól mjög spennt þegar hún heyrir á uppáhaldsútvarpsrásinni sinni að maður geti fengið Sigmund netþjón í heimsókn með því að svara einfaldri spurningu. Spurningin er svo auðveld að allir geta svarað henni, en í þetta sinn er Fíasól heppin: Nafnið hennar er dregið úr hattinum og við fáum að sjá Sigmund netþjón í axjón í hosiló. Á örskömmum tíma verður herbergið hennar Fíusólar skínandi fallegt – en eins og nærri má geta endist tiltektin ekki lengi.

Efnið í þessu fyrsta leikverki um geysivinsæla söguhetju Kristínar Helgu Gunnarsdóttur virkar fremur rýrt. En á móti kemur að tiltekt í hosilóm landsins er auðvitað daglegt umræðuefni á flestum heimilum og ungir frumsýningargestir voru greinilega spenntir fyrir því í gær. Allavega sátu þeir stilltir og hljóðir allan tímann. Það munaði líka verulega um Sigmund netþjón, “Simma sjæn”, sem var eitt af þrem hlutverkum Maríu Pálsdóttur í sýningunni. Í texta hans naut náttúrlegur húmor höfundarins sín best og hann var satt að segja drepfyndinn í fjörlegri túlkun Maríu. Hún var líka ágæt Pippa systir og mjög lasin mamma.

Sindri Birgisson lék Ingólf Gauk. Hann syngur ágætlega og er sætur strákur en ekki lagði hann mikið annað til persónunnar. Sjálf er Fíasól leikin af Láru Sveinsdóttur sem er nett og liðug og smellpassar í hlutverkið. Fíasól hennar er dálítill montrass, klók og út undir sig. Hún mætti vel verða hlýlegri og einlægari en það kemur með æfingunni, spái ég.

Sviðið er alveg dásamlegt hjá Halldóri Baldurssyni og Högna Sigurþórssyni auk búninga Leilu Arge, litadýrðin endalaus í öllu draslinu. Söngtextar Kristínar Helgu eru smellnir og tónlist Ingós í Veðurguðunum er skemmtileg og prýðilega flutt af leikurunum. Utan um allt saman heldur Vigdís Jakobsdóttir leikstjóri og hefur fengið góðan liðstyrk Ragnheiðar Steindórsdóttur, Baldurs Trausta Hreinssonar og jafnvel höfundarins sjálfs, Kristínar Helgu, í raddir í síma og útvarpi. Ef að líkum lætur verður þessi sýning langlíf í Kúlunni og mikið má vera ef Simmi sjæn verður ekki persóna sem vitnað verður til á heimilum í framtíðinni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir