Vestrið einaÉg man ekki hvort ég las það eða heyrði einhvern segja að í nýju sýningunni í Borgarleikhúsinu á írska leikritinu Vestrinu eina sæjum við hvað væri hægt að sökkva djúpt, og við gætum ekki kvartað fyrr en við værum farin að pissa í fötu og hætt að borða mat. Víst er að Martin McDonagh hlífir ekki þjóð sinni í verkum sínum, það höfum við fengið að sjá í íslenskum leikhúsum á undanförnum árum. Kannski endar það með því að við sjáum okkur sjálf í þeim sem í skuggsjá.

Fyrst fengum við að sjá Fegurðardrottninguna frá Línakri í sama leikhúsi, ógleymanlega sýningu um grimmd mæðgna. Síðan höfum við fengið að sjá Halta Billa og Koddamanninn í Þjóðleikhúsinu og Svartan kött hjá Leikfélagi Akureyrar. Öll eiga þau grimmdina sameiginlega, en hvergi vinnur Martin McDonagh betur úr efnivið sínum en í Vestrinu eina (The Lonesome West).

Nafnið Vestrið eina vísar til vesturstrandar Írlands þar sem byggð er fámenn og dreifð, og ef marka má verk þessa leikskálds eru íbúarnir fátækir, fáfróðir og án drauma um fagurt mannlíf. Í þetta sinn fer hann með okkur inn í híbýli tveggja bræðra, Colemans (Þröstur Leó Gunnarsson) og Valene (Björn Thors). Ilmur Stefánsdóttir hefur ákveðið að þeir væru kartöflubændur því kartöflur hylja talsverðan hluta gólfrýmisins í þessum ömurlegu húsakynnum. Allt er þar skakkt og skælt og skítugt – og á þó eftir að versna til muna undir leiknum! Þegar við hittum bræðurna fyrst eru þeir að koma af jarðarför föður síns sem hafði farist af voðaskoti Colemans, eldri bróðurins. Presturinn kemur í heimsókn (Bergur Þór Ingólfsson) og vill sýna bræðrunum samúð en fær heldur kaldar kveðjur; þeir bræður virðast ekki sjá mikið eftir pabba gamla. Betur er tekið á móti Girleen (Kristín Þóra Haraldsdóttir), enda færir hún þeim brennsann sem þeir lifa á ásamt snakki.

Ekki er nóg með að bræðurnir séu höstugir við gesti, þeir eru ekki beinlínis elskulegir hvor við annan, og smám saman afhjúpar Martin McDonagh illsku þeirra hvors í annars garð, og hún verður þegar fram í sækir alveg takmarkalaus. Hinn langi langi lokaþáttur þar sem við förum lengra aftur og lengra inn í sálarlíf og fjölbreytta verknaði bræðranna er einhver óhugnanlegasti texti sem ég hef hlustað á í leikhúsi. Þeir hafa vissulega ekki auðugan orðaforða, og sjaldan hefur verið bölvað eins voðalega í Borgarleikhúsinu, en það er samt afrek að koma þessum texta á áheyrilega íslensku, en það tekst þýðandanum, Ingunni Ásdísardóttur, mætavel (hennar er ekki getið í prentaðri leikskrá, en úr því verður bætt).

Eitt orð er aldrei sagt í þessu verki sem maður hefði þó eindregið átt von á í löngum samtölum bræðra og það er orðið „mamma“. Er Martin McDonagh að sýna okkur afleiðingu þess fyrir drengi að búa – kannski alla ævina – móðurlausir með stygglyndum, jafnvel ofbeldisfullum föður? Altént sækir þetta ónefnda orð á mann eftir sýninguna.

Jón Páll Eyjólfsson stýrir fjórmenningunum sem eiga Nýja sviðið á þessari sýningu, og þeir bera leikni hans fagurt vitni. Bergur Þór var aumkunarverður Faðir Welsh sem skammast sín fyrir ódugnað sinn í starfi og drykkjuskap en fórnar sér að lokum fyrir þessi óverðugu sóknarbörn sín. Langt eintal hans var verulega sterkt og flott. Sömuleiðis var Kristín Þóra sannfærandi í sínu litla hlutverki. Það skar mann í hjartað að heyra Girleen lýsa löngunum sínum í lífinu, svo fátæklegum en þó svo óraunsæjum.

Í bræðrunum fá tveir hörkuleikarar verkefni við hæfi og vinna snilldarlega úr því, hvor á sinn hátt. Þröstur Leó bjó til Coleman sem er kærulaus á yfirborðinu og kvikindislega fyndinn en með afar stuttan kveikiþráð. Hann er löngu hættur að láta sig langa til nokkurs nema fá sinn skammt af brennsa og ekki verra ef snakk er í boði með. Þó fer svo að hann missir stjórn á sér þegar hann kemst að því hvers vegna draumar hans fóru í vaskinn. Valene Björns Thors er yngri og á ennþá í sér fáeina drauma um betra líf – þó sannarlega nái þeir ekki langt, kannski vegna þess að hann er ekkert sérstaklega vel gefinn. Björn skapar afar sannfærandi og margslungna persónu úr þessum einfalda manni og það var verulega erfitt að hafa af honum augun þegar hann var á sviðinu, og það þó að samspil þeirra tveggja væri óaðfinnanlegt. Allir leikararnir fjórir vinna vel, en Björn vinnur glæsilegan leiksigur. Það er óskandi að leikhúsgestir þyrpist á Nýja sviðið næstu vikur.

Silja Aðalsteinsdóttir