Heili hjarta typpiGaflaraleikhúsið í Hafnarfirði er að gera skemmtilega tilraun með sérstakri Ungmennadeild við húsið. Hygg ég að einhverju hafi ráðið um þá ákvörðun hvað Unglingurinn þeirra Arnórs Björnssonar og Óla Gunnars Gunnarssonar gekk vel í fyrra. Höfundarnir voru þá 14 og 15 ára. Í fyrstu sýningu hinnar nýju deildar, Heili, hjarta, typpi, eru það litlu eldri ungmenni sem semja og leika undir stjórn sama leikstjóra, Bjarkar Jakobsdóttur, sem einnig nú á einn strákinn sjálf. Þetta er fallegt og fjölskylduvænt.

Heili, hjarta, typpi er ekki leikrit með upphafi, miðju og endi. Þó er þetta eiginlega rangt því vissulega er upphaf, meira að segja oft, líka endir, og það fleiri en einn. Kannski er það bara miðjan sem vantar og þó er líka hægt að fullyrða að þær séu margar því inni í verkinu eru margar sketsur úr hversdagslífi og ímynduðu lífi ungra manna. Fyrst og fremst skapa höfundar og leikarar þrjár kunnuglegar týpur á sviðinu, unglingsdrengi sem við þekkjum öll en gætu líka sem best rúmast í einum og sama drengnum. Þeir ætla sér að búa til leikrit til að sýna okkur. Því miður reynast þeir ekki vera byrjaðir á að semja handrit en því skemmtilegra er fyrir okkur að fylgjast með því verða til á sviðinu.

Auðunn Lúthersson er heilinn úr titlinum, sá sem tekur stjórnina þegar allt er að fara í vitleysu, sá sem reynir að skoða hlutina af skynsemi, yfirvegaður, hugsandi, ábyrgur. Maður veit að það verður eitthvað mikið úr svona flottum dreng. Kannski forsætisráðherra? (Ekki þó eins og við höfum núna.) Ásgrímur Gunnarsson er hjartað. Honum finnst að leikrit eigi að fjalla um tilfinningar og er tilbúinn að deila með áhorfendum sínum helstu ástum og þó einkum ástarsorgum. Ásgrímur er svo mjúkur maður að áhorfandinn verður allur meyr innvortis. En tilfinningakjaftæði höfðar ekki til typpisins í hópnumsem Gunnar Smári Jóhannesson túlkar af miklum krafti og kynþokka. Hann nennir engum leiðinlegum forleikjum heldur vill hann komast strax í djúpan sleik og bomm bomm bomm. Það yrði sennilega ekki langt leikrit en gæti orðið alllöng blá kvikmynd. Gunnar Smári fær líka það hlutverk að vera eineltarinn. Þegar þeir félagar búa til dæmigerðan sjónvarps-spurningaþátt inni í leikritinu nýtur hann þess að gera upp á milli þátttakenda, upphefja heilann en þjarma að hjartanu af miskunnarleysi, niðurlægja það og auðmýkja. Ekki laust við að maður þekkti fyrirbærið.

Það var afar skemmtilegt að horfa á og fylgjast með þessari persónusköpun. Auðunn, Ásgrímur og Gunnar Smári voru eins og heima hjá sér á sviðinu, ótrúlega eðlilegir, afslappaðir, fimir og flottir. Stundum töluðu þeir of hratt til að skildist en það er vitanlega partur af eðlileikanum. Fyrir kom að unglingarnir sem yfirfylltu salinn hlógu að tilsvörum sem ég hafði ekki náð og þá varð ég öfundsjúk en það gerðist ekki of oft.

Ánægjulegt var að sjá salinn í Hafnarfjarðarleikhúsinu þéttsetinn af unglingum. Það er ekkert smáræðis leikhúsuppeldi sem þarna fer fram. Raunar voru áhorfendur flestir stúlkur sem minnir mig á að ég bað um stelpurnar næst þegar ég skrifaði um Unglinginn fyrir ári. Ekki varð Gaflaraleikhúsið við þeirri bón beinlínis en nú ERU stelpurnar komnar af stað og næsta sýning Ungmennadeildarinnar verður á þeirra vegum seinna í vetur. Mikið hlakka ég til. En þangað til ættu allir unglingar að aldri og í anda að drífa sig á Heila, hjarta, typpi.

Silja Aðalsteinsdóttir