EitthvadRotidNemendur í Söngskóla Sigurðar Demetz frumsýndu í gær í Gaflaraleikhúsinu söngleikinn Something Rotten eftir sögu Johns O’Farrell og Kareys Kirkpatrick en tónlist og söngtextar eru eftir bræðurna Karey og Wayne Kirkpatrick. Þetta er svo til glænýr söngleikur, frumsýndur á Broadway vorið 2015 og sló í gegn þó að ekkert lag úr honum hafi orðið almenningseign. Sagan er óttalegt bull en textinn er geysilega fyndinn og sem betur fer ná þýðendurnir, Þór Breiðfjörð og Orri Huginn Ágústsson leikstjóri, húmornum býsna vel. Höfundar mjög fjölbreyttra og líflegra dansa eru Auður Bergdís og Rebecca Hidalgo, Sara Líf hannar búninga sem minna hæfilega mikið á 16. öldina, en tónlistarstjóri er Ingvar Alfreðsson.

Sagan er látin gerast í London árið 1595 þar sem leikhús eru feikivinsæl meðal almúgans. Vinsælastur allra leikskálda er Vilhjálmur Shakespeare (Máni Emeric Primel Steindórsson) og bræðurnir frá Botni, Nikulás (Ísak Leó Kristjánsson) og Níels (Aron Daði Ichihashi Jónsson) öfunda hann mjög enda gengur ekkert hjá þeim. Villi var áður leikari í flokki bræðranna, ekki einu sinni sérstaklega góður leikari, en er nú stjarna stjörnum fegri á leiklistarhimni stórborgarinnar. Í vanda sínum leitar Nikulás til sjáandans Nostradamusar, litla frænda þess alkunna (Hrefna Hlynsdóttir) sem segir honum að framtíðin sé í söngleikjum – sýningum þar sem allur texti sé meira og minna sunginn. Nikulás á bágt með að trúa því en ákveður að láta á það reyna. Þegar fjárfestirinn (Íris Árnadóttir) hafnar fyrsta söguefninu, Svarta dauða, lætur Nikulás sjáandann gá hvað Villi Shakespeare er með á prjónunum. Það sér sjáandinn en misles Hamlet og fullyrðir að nýja verkið sé um ommelettu! Úr þessu verður hinn lystugasti og listugasti grautur sem nemendur Söngskólans skiluðu með ótvíræðum elegans.

Inn í leikhúsmálin blandast heimilisvandi Nikulásar, sem stelur af mjólkurpeningunum til að borga sjáandanum, eiginkonunni Bíbí (Snjólaug Vera Jóhannsdóttir) til nokkurrar gremju; einnig ástamál Níelsar og samtímapólitík í Englandi því að Níels verður heiftarlega skotinn í Portiu (Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir), dóttur Bróður Jeremíasar (Matthildur Steinbergsdóttir) sem vill loka öllum leikhúsum strax! Það er líka pólitískt mál að Shylock (Natalía Erla Arnórsdóttir) skuli ekki mega fjárfesta opinberlega í sýningu bræðranna af því að hann er gyðingur.

Kannski virðist þetta flókin saga en ungmennin héldu svo vel á spöðunum í gærkvöldi að aldrei var vafi á því hvar við vorum stödd og um hvað væri að ræða. Og þau sungu, léku og dönsuðu af slíkum krafti, kunnáttu og fjöri að áheyrendur ærðust af hrifningu hvað eftir annað. Aðalleikararnir stóðu sig með miklum sóma: Ísak gerði Nikulás frá Botni að lifandi marghliða persónu, Aron Daði bjó til einkar trúverðugt viðkvæmt ljóðskáld úr Níelsi bróður hans og Portia Sigríðar Óskar hæfði honum vel. Snjólaug heillaði mig með sinni fallegu, dálítið sérstæðu rödd auk þess sem persóna hennar kom með femínískan kraft inn í söguna, og Natalía Erla náði fínu sambandi bæði við sinn erfiða karakter og salinn. Máni var töff Shakespeare og Natalía Sif Stefánsdóttir var hrífandi farandsöngvari. Stjarnan var þó án efa Hrefna sem lék Nostradamus yngri af sönnum þrótti og innilegri kæti. Hún fékk líka fyndnasta textann – það var orgað af hlátri þegar hún blandaði saman efni og persónum í hinum ýmsu leikritum Shakespeares. Það skemmti fólki líka ákaflega þegar brot heyrðust úr ýmsum vinsælustu söngleikjum undanfarinna áratuga í tónlistinni!

Er þetta ekki verkefni fyrir atvinnuleikhúsin? spurði fólk eftir sýninguna í gærkvöldi og það má vel taka undir það.  Ef þau hafa áhuga þá liggur alla vega fyrir fín þýðing á verkinu.

 

Silja Aðalsteinsdóttir

PS Gunnar Freyr tók myndirnar með greininni.