Bláskjár var ein af mínum uppáhaldsbókum í bernsku og ekki síst þess vegna var tilhlökkunarefni að sjá samnefnt leikrit Tyrfings Tyrfingssonar sem frumsýnt var á vegum Óskabarna ógæfunnar á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Mér er líka í fersku minni morðfyndinn einþáttungur Tyrfings á sama sviði í fyrra, „Skúrinn á sléttunni“. Tyrfingur hefur greinilega mikinn áhuga á undirmálsfólki og sýnir því hæfilega vorkunnsemi um leið og hann gegnumlýsir það af gamansömu miskunnarleysi. Í þetta sinn leikstýrir Vignir Rafn Valþórsson verki hans og þar er Tyrfingur – sem endanær – ansi heppinn. Sviðsmynd og búninga sá Brynja Björnsdóttir um.

BláskjárÞýska ævintýrasagan Bláskjár segir frá ljóshærðum og bláeygum greifasyni sem flökkumenn ræna og hafa geymt í dimmum helli svo lengi að hann er búinn að gleyma bæði uppruna sínum og sólinni sjálfri. Eini vinur hans í hellinum er stúlkan Ella (í íslensku þýðingunni) sem hyskinu hefur ekki enn tekist að drepa úr alla meðlíðan. Yfir glæpaflokknum ríkir voðamennið Eiríkur svarti. Eftir mikil ævintýri höggva ræningjarnir aftur í sama knérunn og ræna yngri bróður Bláskjás, Valter; það kann ekki góðri lukku að stýra og í framhaldinu komast þeir bræður báðir aftur til síns heima.

Í leikriti Tyrfings hittum við fyrir systkinin Ellu (Arndís Hrönn Egilsdóttir) og Valter (Hjörtur Jóhann Jónsson) sem hafa verið lokuð niðri í kjallara í húsi föður síns í sjö ár og ekki séð sólina allan þann tíma þótt þau eigi sér drauma um annað og öðruvísi líf og segi hvort öðru sögur af þeim. Uppi á efri hæðum hússins búa faðir þeirra sem er valdamikill stjórnmálamaður og yngsta barnið, eftirlætissonurinn Eiríkur (Arnmundur Ernst B. Björnsson). Þegar leikritið hefst er faðirinn dauður og þennan dag á að jarða hann. Af því tilefni lætur Eiríkur svo lítið að stíga niður í undirheima til að fá systkini sín með sér í jarðarförina. Hann er fullur af fyrirlitningu föðurins á þessum aumingjum í fjölskyldunni þegar hann kemur niður en þá er hann kominn á þeirra yfirráðasvæði og áður en varir er hann flæktur í háskalegt net þeirra sem þau hnýta með flóknum leikjum og kunnáttusamlega notaðri músík. Högni Egilsson sá um tónlistina sem má nánast segja að hafi verið sjálfstæð persóna í leikritinu og ekki sú einfaldasta.

Bláskjár er skemmtilega skrifað verk og þó að innilokað fólk í kjallara sé ekki beinlínis frumlegasta efni í skáldverk á okkar tímum verður það nógu margrætt í meðförum Tyrfings til að sneiða hjá því að verða endurtekið efni. Leikararnir gerðu allir sitt til að skila þessari margræðni en mest mæddi á Hirti Jóhanni í hlutverki Valters af ýmsum ástæðum sem ég tími ekki að segja frá hér. Mér fannst hann á köflum alveg dásamlegur, og gervið á honum eftir að systirin málar hann vel heppnuð og fyndin viðbót við persónuna.

Tyrfingur er (frá mínum sjónarhóli) nánast barnungur en miðað við það sem ég hef séð til hans lofar hann fjarskalega góðu. Hann er núna hússkáld Borgarleikhússins og verður spennandi að sjá það sem kemur út úr þeirri vist.

Silja Aðalsteinsdóttir