Þegar komið er að Brimhúsinu við Geirsgötu þessa dagana blasir mikill hvalskjaftur við og ef maður leggur í að ganga inn um hann er komið inn í mikið rautt gin með geysistórri tungu á gólfi (sem ágætt er að tylla sér á ef maður þarf að bíða lengi). Þetta er upphafið að mynd-, tón- og leikverkinu Fantastar á Listahátíð sem mikill fjöldi listamanna frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi hefur skapað og Margrét Vilhjálmsdóttir leikstýrir.

Þeim sem sáu fyrri fjöllistaverk Margrétar, til dæmis Gyðjuna í vélinni í varðskipinu Óðni og Orbis terrae í Safnahúsinu við Hverfisgötu, kemur þetta upphaf ekki á óvart og framhaldið er líka í sama anda þótt efnið sé nú sótt í sögur og annað í menningu norðurslóða sem tengist hafinu og þá sérstaklega hvölum. Gestir eru leiddir í afmörkuðum hópum um geysistórt rými Brimhússins sem mótað er eftir innviðum stórhvela og fá alls konar upplifanir sem maður á ekki von á í innyflum hvala – hitta seiðkonur, galdrakarla, miðil, spákonur, fiðraðan mann sem er einn á báti uppi undir lofti og heldur kannski að hann sé guð. Maður fær að hlusta á sögur, horfa á myndbönd og fleira og fleira. Að endingu erum við rækilega minnt á þann hæfileika okkar að muna – safna minningum – og gefið nett í skyn að við eigum að setja þessa upplifun í minningasjóðinn og eiga hana þar til að rifja upp við ólík tækifæri.Fantastar

Upplifun mín af þessum viðburði varð einkar persónuleg. Þannig stóð á að ég raðaðist í hóp með nokkrum börnum. Foreldrar þeirra höfðu lent í öðrum hópi (það var lygavél í kjafti hvalsins sem ákvað niðurröðun í hópa, ég hef líklega verið svona barnaleg). Þegar skammt var liðið á ferðalagið um iður rýmisins varð ég vör við að dreng í hópnum var ekki sama um það sem fram fór. Við höfðum í upphafi ferðar verið hvött til að taka ábyrgð hvert á öðru – við værum saman í þessari háskaför – svo að ég spurði hann hvort hann væri smeykur. Hann svaraði mér hreinskilnislega og sagðist vera alveg að fríka út. Eftir það leiddumst við eins og náin skyldmenni og öll upplifun mín fékk lit af því að halda í höndina á þessum ókunnuga dreng, svo einstaklega yndislegum og skemmtilegum. Kannski hefði mér leiðst svolítið án hans, eins og manninum mínum sem var í öðrum hópi. Ferðalagið var helst til langt og kannski ekki nógu margt sem greip hugann fanginn. En fyrir augað var sýningin víða spennandi – búningar og gervi einstaklega hugvitsamleg mörg hver. Þetta var ekki eins eftirminnilega falleg sýning og Gyðjan í vélinni og ekki eins ógnvekjandi og Orbis terrae; kannski vantaði fleiri samhangandi sögur og söngva, af því það er ekki síst sagnaefnið tengt hafinu og hvölunum sem heillar.

Silja Aðalsteinsdóttir