NatanÍ gær frumsýndi leikhópurinn Aldrei óstelandi leikverkið Natan eftir Sölku Guðmundsdóttur og leikhópinn á Litla sviði Borgarleikhússins; stjórnandi var sem fyrr Marta Nordal og meðal leikenda voru bæði klassískar stjörnur hópsins og spennandi nýliðar.

Efnið er líka klassískt í íslenskri sögu: morðið á Natani Ketilssyni á Illugastöðum í Húnavatnssýslu árið 1828 sem tvær manneskjur voru hálshöggnar fyrir í ársbyrjun 1830 og sú þriðja lést í fangelsi í Kaupmannahöfn. Um þetta hafa verið skrifaðar fréttir, frásagnir, fræðigreinar og skáldverk auk viðamikilla yfirheyrslugagna, og fara höfundar óvænta leið að öllu þessu efni sem úr er að moða. Þau spyrja hvers vegna og skoða fjögur ólík svör við því með því að sviðsetja atvik og aðstæður, oft á frumlegan hátt: ofbeldi, ástríðu, ágirnd og misnotkun. Sú niðurstaða sem virðist blasa við eftir sýninguna er að ástæðan kunni að hafa verið hver sem er eða blanda af öllu þessu. Það er helst ágirndin sem verður útundan og ósannfærandi í sýningunni.

Á Illugastöðum bjó á þessum tíma læknirinn og bóndinn Natan (Stefán Hallur Stefánsson) með tveim konum, bústýru sinni Sigríði (Birna Rún Eiríksdóttir) sem var sextán ára og vinnukonunni Agnesi (Edda Björg Eyjólfsdóttir) á fertugsaldri. Á nágrannabænum Katadal bjó Friðrik (Kjartan Darri Kristjánsson), vonbiðill Sigríðar og heimagangur á Illugastöðum. Samkvæmt framburði sakamannanna átti Friðrik hugmyndina að drápinu, fékk hjálp við það frá Agnesi en Sigríður var mun tregari, varaði Natan þó ekki við þannig að hún var ljóslega samsek. Morðvopnin voru frumstæð, hamar og vasahnífur og síðan kveiktu þau í bænum til að reyna að leyna glæpnum.

Á sviðinu sem Axel Hallkell Jóhannesson á heiðurinn af er ferhyrndur kassi táknaður með hornsúlum. Að stíl er það næstum eins ólíkt íslenskum sveitabæ á 19. og verið getur, en það gefur góða hugmynd um þröng húsakynni. Inni er einfalt fjalaborð og fjórir stólar sem nýttust á fjölmarga og oft óvænta vegu, allt úr ómáluðum viði. Utan kassans eru fjórir hljóðnemar á háum standi. Inni í búrinu leika fjórmenningarnir atvik sem sýna samskipti persónanna, þar er notaður skáldaður texti. En við og við stíga persónurnar út úr búrinu og flytja texta úr dómskjölum í hljóðnemana. Skýr og vel mótaður munur er á texta eftir uppruna, texti úr heimildum bóklegur, stirður og framandi, skáldaði textinn einfaldur nema í einræðum sem voru stundum á nokkuð upphöfnu, ljóðrænu máli. Endurtekningar eru mikið notaðar eins og persónurnar trúi ekki á mátt sinna eigin orða en haldi samt áfram og áfram að reyna að ná til annarra. Þetta er vel hugsað og heppnast prýðilega. Lýsing Jóns Þorgeirs Kristjánssonar var flókinn og áhrifamikill þáttur í sviðsmyndinni.

Leikurinn er fantagóður, svo það sé sagt strax. Stefán Hallur bjó til marglaga manneskju úr Natani – mann með stóra drauma en lítið sjálfstraust, ofbeldishneigðan og kvensaman hæfileikamann sem lífsaðstæður hafa smækkað og hann hefnir sín á þeim sem síst skyldi. Agnes Eddu Bjargar vildi ekki láta hann kúga sig. Við finnum að hún lítur á sig sem jafnoka hans og vill fá að standa við hlið hans en þá hugmynd hennar þolir hann ekki. Átök þeirra voru grimm og ljót ekki síst af því að í og með glitti í ástríður og leifar af fallegum tilfinningum. Í sýningunni er mikið af danskenndum hreyfingum, og kannski var allra sterkasta atriði hennar dans Agnesar úti fyrir lokuðum dyrum heimilis síns á Illugastöðum. Satt að segja er ævintýralegt sjá Eddu Björgu í þessu hlutverki og vita að á sama sviði á öðrum kvöldum leikur hún gagnólíka manneskju í Kartöfluætunum!

Það er dýrmætt fyrir Birnu Rún og Kjartan Darra að fá að vinna með þessu vana fólki og þau reyndust engir viðvaningar. Birna Rún er minnisstæð úr síðustu þáttaröð af Rétti á Stöð 2 og hún bjó til sannfærandi Sigríði, hrætt og bælt barn sem áttar sig varla á hvað er að gerast í kringum hana en er fáránlega þakklát hverjum votti af hlýju sem henni er sýndur. Friðrik Kjartans Darra rambaði á mörkum ofstopa og þroskaskorts og var líka giska sannfærandi.

Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru litlitlir eins og sviðsbúnaðurinn, föt karlanna minna mest á ullarnærföt en kvenfötin sniðmeiri og í sömu litum. Hljóðmyndin hans Guðmundar Vignis Karlssonar tók fullan þátt í dramatík verksins eins og lýsingin. Þetta er flott sýning um efni sem seint verður tæmt.

Silja Aðalsteinsdóttir