Það er ekki beinlínis þægilegt áhorfs og áheyrnar, leikritið sem var frumsýnt í Tjarnarbíó í gærkvöldi undir stjórn Adolfs Smára Unnarssonar. Satt að segja hefði mér þótt erfitt að ímynda mér að ég þyrfti nokkurn tíma að taka afstöðu til jafn ólíklegs viðburðar og mannáts í leikdómi. En danska verðlaunaverkið Kannibalen eftir Johannes Lilleøre frá 2022 fjallar samt einmitt um það efni. Og það er meira að segja „byggt á sannsögulegum atburðum“ eftir því sem segir í kynningu leikhússins. Adolf Smári og Júlía Gunnarsdóttir þýða leikritið.

Hér segir frá tveimur óstjórnlega óhamingjusömum manneskjum með sérstæðar en alvarlegar geðraskanir. Tölvunarfræðingurinn Armin Meiwes (Fjölnir Gíslason) átti ömurlega bernsku í risastóru húsi með móður sem hafði verið yfirgefin af eiginmanni og eldri syni. Armin yfirgefur hana líka til að fara í herinn en kemur heim til að sinna henni eftir bílslys. Hún kúgar hann andlega og líkamlega og hann verður feginn þegar hún deyr en lifir í stöðugri þrá eftir að sameinast einhverjum sem yfirgefur hann ekki. Hann þróar með sér þá áráttu að ef hann geti étið aðra manneskju eignist hann þar með vin sem aldrei svíki hann.

Eftir langa leit á netinu finnur hann verkfræðinginn Bernd-Jürgen (Jökull Smári Jakobsson)sem þráir fyrir sitt leyti að vera étinn og þeir mæla sér mót heima hjá Armin. Bernd er að vísu tíu árum eldri en hann þóttist vera á netinu og eiginlega of gamall fyrir Armin en hann lætur sig hafa það. Bernd á einnig ömurlega fortíð sem ekki lætur hann í friði og hann þráir að deyja. Hvers vegna hann þráir að vera étinn kemur ekki fram svo að ég tæki eftir.

Eftir skrykkjótta byrjun skipta þeir fyrsta bitanum af Bernd á milli sín og eftir það á Bernd að vera snöggur að deyja – en það dregst úr hömlu. Dauðinn er ekki líknsamur að þessu sinni. Hann kemur þó að lokum. Og eftirleikurinn verður langur og sögulegur þó að ekki verði farið út í hann hér. Sjón er sögu ríkari.

Þetta er virkilega ógeðslegt efni sem textinn gerir sitt besta til að lýsa nákvæmlega. En af tillitssemi við áhorfendur dregur leikstjóri markvisst úr dramanu með ýmsum ráðum. Þeir Fjölnir og Jökull segja frekar frá en leika út þannig að við lifum okkur ekki inn í atburðina – nema þegar andlit Jökuls er sýnt í yfirstærð á bakvegg. Þá var erfitt að kúpla sig frá því sem sagt var frá. Sömuleiðis beitti Magnús Thorlacius lýsingunni markvisst í þá átt að sýna ekki það versta heldur leyfa ímyndunarafli áhorfenda að taka við. Það var býsna áhrifaríkt. Og tónlist Ronju Jóhannsdóttur ýtti rækilega undir myrkustu hugmyndir okkar sem sátum í salnum, dökk og óhugnanleg.

Það var einkennilega viðeigandi að velja Jökul Smára í hlutverk Bernds-Jürgens. Í íslenskum þjóðsögum segir frá því að rauðhærðir strákar séu sérlega góðir í beitu og Jökull hefur fallegan rauðan makka. Hann fer líka vel með hlutverkið eftir því sem hann fær leyfi til og uppblásna andlitið hans á bakveggnum, sljó augun og munnurinn túlkuðu átakanlega vel tilfinninguna af að fjara út úr þessu lífi. Fjölnir var enn dempaðri í sínu hlutverki en týpan var hárrétt. Jökull lék hlutverk annarra persóna – nágrannans (sem þykir afar vænt um Armin), lögfræðingsins, saksóknarans og sálfræðingsins – og gerði það ágætlega.

Það er svolítið erfitt að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu vegna þess hve efnið er mikill vibbi, en ég bendi á að ekki er líklegt að slíkt verk muni reka á fjörur ykkar á næstunni, kæru leikhúsáhugamenn. Svo að það er nú eða aldrei!

Silja Aðalsteinsdóttir