Allra veðra vonSirkuslistahópurinn Hringleikur frumsýndi í gær í Tjarnarbíó sirkuslistaverkið Allra veðra von í Tjarnarbíó í samstarfi við leikhópinn Miðnætti. Úr síðarnefnda hópnum koma m.a. leikstjórinn Agnes Wild, búninga- og sviðsmyndahöfundurinn Eva Björg Harðardóttir og tónlistarstjórinn Sigrún Harðardóttir, en höfundar verksins eru liðsmenn Hringleiks, Bryndís Torfadóttir, Eyrún Ævarsdóttir, Jóakim Meyvant Kvaran, Nick Candy og Thomas Burke.

Eins og nafnið bendir til stúdera þau veðrið í sýningunni, ekki með orðum heldur sýna okkur áhrif þess á mannslíkamann á endalaust fjölbreyttan hátt: setja sig í kút á móti rigningarhryðjum, feykjast til og frá undan vindi, roki og ofsaroki og reyna að standa af sér stórviðri. Í einu glæsilegu atriði berjast þau við ofvirði um borð í skipi. Svo njóta þau bongó-blíðunnar þegar hún brestur á. Þau eru gífurlega fim og undur hvernig þau fara með kroppinn á sér, fleygja sér langar leiðir, stökkva og lenda af ótrúlegri nákvæmni, synda á gólfinu eins og höfrungar og klifra upp eftir bakinu hvert á öðru.  Og jafnvægið er virkilega öfundsvert þegar þau standa keik á öxlum hvert annars, jafnvel þótt sá á gólfinu sé á hreyfingu.

Þau nota líka áhöld, bæði kaðal og rólu sem hanga niður úr loftinu og stöng sem þau reisa og nýttist meðal annars sem skipsmastur. Það var einkum Eyrún sem lék sér með kaðalinn en Jóakim sem kleif súluna eins og hver annar apaköttur og var bæði ógnvænlegt og gaman að fylgjast með ærslunum í þeim. Atriði þeirra í kindalíki var verulega fyndið. Aftur á móti voru það einkum Bryndís og Thomas sem léku sér í rólunni og voru svo djörf að stundum tók maður andköf.

Nick var sjálfur veðurfræðingurinn sem hóf sýninguna með veðurathugunartæki sínu og sá áfram um húmorinn í sýningunni með ágætum árangri, þó að hann tæki ekki þátt í áhættuatriðum. Þegar á leið var eins og veðurþemað kláraðist en þá kom erótíkin í staðinn og það voru alveg ásættanleg skipti. Dansfimleikur þeirra Eyrúnar og Jóakims var til dæmis alveg yndislegur. Þá áttu líka skemmtileg tónlist Sigrúnar og ljósahönnun Friðþjófs Þorsteinssonar drjúgan hlut að máli.

Á sýningunni í gærkvöldi voru margir krakkar og þetta er sýning fyrir alla fjölskylduna. Þó er rétt að vara fólk við þegar þau fara að ferðast um landið með sýninguna, hún gæti kveikt löngun ungmenna til að stinga af með sirkus eins og frægt er í bókum!

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir