Mæðgurnar Hallveig Thorlacius og Helga Arnalds frumsýndu í gærdag leikgerð Hallveigar á Laxdælu, Kjartan eða Bolli?, í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar. Í sýningunni leika þær mæðgur sem eru að taka til í dánarbúi móður og ömmu en stýra síðan brúðum sem leika fyrir okkur söguna af Laxdælu eins og Guðrún Ósvífursdóttir gæti sagt okkur hana. Tengingin milli ömmunnar sem er dáin og Guðrúnar er sú að amman hét líka Guðrún, hélt mikið upp á Laxdælu og átti fjóra eiginmenn eins og hetja þeirrar sögu.

Kjartan eða Bolli?

Mynd: mbl.is / ​Sig­ur­geir S.

Sýningin er sérstaklega samin með unglinga í huga og dregur fram atriði sem líklegt er að höfði til þeirra. Hallveig og Helga leggja áherslu á að Guðrún Ósvífursdóttir var aðeins fimmtán ára þegar hún var gefin manni í fyrsta sinn, ófús. Hún er óhamingjusöm í hjónabandinu og verður ástfangin af bónda í nágrenninu sem líka er kvæntur maður. Þau skilja bæði við maka sína og taka saman. En hamingjan varir ekki lengi. Nýi eiginmaðurinn deyr þegar Guðrún er ólétt að fyrsta barni sínu. Hún flytur aftur heim í foreldrahús, og tæplega tvítug tvígift ekkja og einstæð móðir endurnýjar hún kynnin af frændunum og fóstbræðrunum Kjartani og Bolla. Hún verður yfir sig hrifin af Kjartani og lofast honum en þegar hann skilar sér ekki heim frá útlöndum á tilsettum tíma lætur hún leiðast til að giftast Bolla – með kunnum afleiðingum. Lokaspurningin, hvern meinti Guðrún þegar hún sagðist hafa verið þeim verst sem hún unni mest, er enn jafnögrandi og forðum. Ef slík örlög kveikja ekki í ungmennum, ég tala nú ekki um ungum stúlkum, þá er ég illa svikin.

Mér fannst söguþráðurinn komast prýðilega til skila í sýningunni þótt stutt sé, aðeins 50 mínútur, og brúðurnar hennar Helgu voru smekklega gerðar, einkum þeir fóstbræður sem Hallveig og Helga klæddu sig í á sniðugan hátt. Guðrún var líka sérlega glæsileg brúða. Sviðið var kjallari ömmunnar dánu með skemmtilegri pípulögn sem sýningartjaldið var fest á. En ég skildi ekki alveg hvers vegna þær héldu áfram að fikta í tjaldinu og hvers vegna það þurfti að vera svona hátt. Það gerði Hallveigu svolítið erfitt fyrir að stýra brúðunni Guðrúnu fyrir ofan það. Mér fannst raddirnar úr pípulögninni í upphafi sýningar líka óþarfar enda var ekkert gert meira við þær.

Texti Hallveigar var skemmtilega laus við allan hátíðleika og í heild er þetta prýðileg sýning sem getur sannfært ungu kynslóðina um að þessar sögur koma henni líka við.

Silja Aðalsteinsdóttir