Hákon Örn Helgason er meðal þeirra sem ljúka námi frá sviðshöfundabraut Listaháskólans núna í vor og hefur undanfarið sýnt útskriftarverkefni sitt, Jesú er til, hann spilar á banjó, á sviði skólans í Laugarnesi. Með honum er myndarlegur hópur, Magnús Thorlacius er dramatúrg, Rakel Andrésdóttir hannar leikmynd og með henni eru Helena Margrét Jónsdóttir og Egill Ingibergsson, ljósin eru í umsjá Stefáns Ingvars Vigfússonar og Inspector Spacetime sér um tónlistina sem er leikin lifandi á sviðinu.

Verkið er endurlifuð minning Hákonar vinar (Almar Blær Sigurjónsson) frá árinu 2019 þegar hann var ansi langt niðri og fann ekki tilganginn með lífinu. Örvæntingin nær vissu hámarki einn góðan veðurdag í Vesturbæjarlaug það haust og hann ræðir hana opinskátt við Tryggva vin (Stefán Þór Þorgeirsson) sem tekur létt á öllu. En í þessum sálarháska heyrir ungi maðurinn allt í einu ljúflega leikið á banjó og sér að maðurinn sem leikur er sláandi líkur Jesú Kristi eins og hann er gjarnan sýndur á evrópskum málverkum: hávaxinn, ljós yfirlitum, síðhærður og skeggjaður. Hákon fær í framhaldinu trú á að þessi maður lumi á svörunum sem hann vantar og leggur upp í skipulega leit að honum. Inn í þá leit kemur leynigestur sem beinir Hákoni á rétta leið.

Eins og þetta blasir við svona í stuttri endursögn minnir verkið á vinsæl sviðsverk Friðgeirs Einarssonar á undanförum misserum, Club Romantica og Útlendingurinn – morðgáta. Hákon kemur líka fram sjálfur í verkinu og reynist alveg prýðilegur leikari enda er bakgrunnur hans í spuna og uppistandi. Sýningin var dillandi skemmtileg, textinn fyndinn þrátt fyrir örvæntinguna og uppsetningin fjörug og djörf. Til dæmis þorir Hákon Örn að nota þagnir og láta þær fá bæði rými og merkingu. (Ein þögnin var svo löng að hún fór að kalla á lófatak. Ég biðst innilega fyrirgefningar á því.) Það var afar gaman að horfa á þessi gjörvilegu ungmenni á sviðinu og ég vona að verkið eigi sér framhaldslíf á sviðum atvinnuleikhúsanna. Þar á það heima.

 

Silja Aðalsteinsdóttir