Heimkoman eftir Harold Pinter, sem nú er sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins undir stjórn Atla Rafns Sigurðarsonar, er virkilega grimmt verk. Andstyggilegt. Og uppsetningin dregur ekki úr grimmdinni; ýkir hana fremur.

Þegar ég las Lé konung í enskunámi í Háskólanum fyrir löngu hafði kennarinn minn, sem var Breti, gaman af því að ímynda sér hvernig áhorfendur á frumsýningu hefðu tekið endinum. Í eldra verki, sem Shakespeare byggði á, lifir Kordelía nefnilega af. Það hefur verið rosalegt sjokk fyrir þá þegar Kordelía deyr, sagði kennarinn glaður. Ég get ímyndað mér að mörgum áhorfendum líði eins á Heimkomunni. Þar er allt öfugsnúið miðað við það sem maður á von á. Nánast hver einasta setning sem sögð er brýtur venju, gengur gegn því sem við eigum von á og finnst viðeigandi að segja við þær aðstæður sem persónurnar eru í. Það er því alveg í samræmi við verkið að setja það upp í beinu ósamræmi við allt sem gefið er í skyn um persónur og umhverfi í textanum.

Heimilisfaðirinn Max klifar á því að hann sé orðinn gamall en hann er leikinn af stæltum og flottum Ingvari E. Sigurðssyni. Persónurnar tala um stofuna sem þær eru staddar í en á sviðinu er gríðarmikið óskilgreint rými sem einna helst minnir á verksmiðju (konan á bak við okkur stundi þegar hún sá sviðið: Erum við á réttu stykki?). Ekkert er eins og það þykist vera og þess vegna eigum við aldrei að trúa neinu sem sagt er á sviðinu, það getur allt eins verið lygi og/eða ímyndun.

Heimkoman

Teddy (Ólafur Egill Egilsson, óþekkjanlegur einu sinni enn) kemur heim til London frá Ameríku með konu sína Ruth (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og ætlar að dvelja hjá pabba gamla í fáeina daga til að Ruth fái að kynnast fjölskyldunni. Teddy er heimspekiprófessor við bandarískan háskóla (?) og þau Ruth eiga þrjá drengi (?). Max „gamli“ tekur gestunum fáránlega illa, ryður út úr sér svívirðingunum yfir þá, einkum Ruth sem hann kallar öllum illum nöfnum, viss um að hún sé hóra sem Teddy hafi haft sér til næturgamans. Litlu betur taka bræðurnir á móti henni, hórumangarinn (?) Lenny (Björn Hlynur Haraldsson) og efnilegi boxarinn (?) Joey (Snorri Engilbertsson). Hjá þeim býr líka sjálfhælni einkabílstjórinn Sam (Eggert Þorleifsson), bróðir Max.

Ruth truflar þennan ruddalega karlaheim með óhagganlegri framkomu sinni og innri ró. Ekki er að sjá annað en henni líði vel hjá þeim feðgum þrátt fyrir móttökurnar, hún tekur öllu eins og sjálfsögðum hlut og þegar Teddy hverfur á braut í leikslok verður hún eftir. Heimkoman reynist vera hennar heimkoma, enda er hverfið hennar æskustöðvar. Hún á heima meðal þessara óhefluðu karlmanna og er tilbúin að þjóna þeim. Þrátt fyrir íroníu og lygar reynist verkið segja á sinn hátt eins satt og má segja.

Eins og við var að búast sauð á gömlum rauðsokkum í salnum eftir sýninguna en tilgangur Pinters, fyrir hálfri öld, var sjálfsagt að fá konur til að horfast í augu við raunverulega stöðu sína. Vel má ræða hvort verkið sé orðið úrelt á okkar tímum. En heimurinn er stærri en Ísland, svo að það sem virðist úrelt hér kann að eiga við annars staðar. Svo eru tilfinningakuldi og kvenfyrirlitning ekki bundin við neinn sérstakan tíma, því miður.

Þetta er þrususýning þar sem allir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þýðing Braga Ólafssonar er skínandi vel gerð, þjál og nákvæm. Leikararnir eru hver öðrum betri, Ingvar E. gegnrotinn ruddi í hlutverki Max, Ólafur Egill búralegur sem hinn misheppnaði eiginmaður, Björn Hlynur gljáandi og sleipur Lenny, Snorri á óljósum mörkum fávitaskapar sem Joey, Eggert sjentilmaður fram í fingurgóma í hlutverki Sams – enda er öllum sama þótt hann sé kannski dauður í lokin. Vigdís Hrefna er hin glitrandi miðja sýningarinnar sem eina konan, fögur, tilfinningaköld og þrungin sannfæringarkrafti.

Svið Barkar Jónssonar var í algeru ósamræmi við fyrirmæli Pinters, eins og áður var ýjað að, en í fullkomnu samræmi við kulda og tilfinningaleysi verksins. Og það hafði óhugnanleg áhrif að sjá bakvegginn færa sig sífellt nær án þess þó að maður sæi hann hreyfast. Helga I. Stefánsdóttir klæddi hverja persónu í samræmi við eðli hennar og hlutverk. Sérstaklega vel heppnuð voru silfurglansandi jakkafötin á Birni Hlyni og elegant dragtarpils, blússa og golftreyja Vigdísar Hrefnu. Á sviðinu sat fram að hléi Einar Scheving og barði trommur. Það er að verða svolítið kunnuglegt bragð hjá hljóðmeisturum Þjóðleikhússins að láta gestum sínum bregða illilega en Einar var flottur og lagið sem Lenny og Ruth fengu til að dansa eftir var gott og ekki er textinn síðri þótt ekki heyrðist mikið af honum.

Silja Aðalsteinsdóttir