Pollock?Ég hef einu sinni staðið frammi fyrir málverki eftir Jackson Pollock. Það var ekki neitt „venjulegt“ Pollock-málverk (ef þau eru til) heldur „Blue Poles“, málverkið sem setti Ástralíu á annan endann fyrir fjörutíu árum af því forstjóri Þjóðarlistasafnsins í Canberra keypti það fyrir fáheyrða upphæð. Tæpir fimm metrar á breidd og rúmir tveir á hæð er það og það hafði undraverð áhrif að horfa á það. Mér fannst eftir smástund að ég gæti haldið áfram að horfa til eilífðar.

Það var líka afskaplega skemmtilegt og gefandi að horfa á tvo frábæra listamenn takast á í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi um það hvort stórt og litríkt málverk væri eftir Jackson Pollock eða ekki. Þetta er nýtt, heimspekilegt og listfræðilegt, skínandi vel skrifað, sorglegt og fyndið verk eftir Bandaríkjamanninn Stephen Sachs og heitir heima hjá honum „Bakersfield Mist“. Þar segir frá Maude (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) sem keypti ljótustu myndina á flóamarkaðnum til að stríða vinkonu sinni en komst svo að því að hún gæti verið eftir Jackson nokkurn Pollock sem Maude hafði aldrei heyrt um en var víst rosa frægur.

Málverkið er ómerkt svo að Maude kallar til sín Lionel (Pálmi Gestsson), sérfræðing hjá MOMA í New York, sjálfu Vatíkani listheimsins að mati Lionels, til að láta hann skera úr um hvort málverkið sé ekta eða falsað. Maude býr í hjólhýsi í hjólhýsahverfi, hún safnar drasli, hún er drykkfelld og hefur verið býsna lausgirt um dagana. Í stuttu máli sagt er hún fulltrúi alls þess sem Lionel finnst ógeðslegast í heiminum. Getur slík kona átt ómetanlegt málverk eftir frægasta 20. aldar listamann Bandaríkjanna?

Maude og Lionel takast á í alvöru, bæði með orðum og æði. Í samtali sínu og handalögmálum fara þau allan tilfinningaskalann og tjá oft flóknar kenndir einungis með svipbrigðum. Auðvitað eru þau hörkuleikarar bæði tvö en leikstjórinn, Hilmir Snær Guðnason, hefur unnið fínvinnuna með þeim af aðdáunarverðu næmi. Þýðing Mikaels Torfasonar var líka fín og náði vel sveiflunum frá harmi til fyndni. Helga I. Stefánsdóttir gerir sannfærandi leikmynd og klæðir leikarana í stíl við persónurnar. Málverkið sem allt snýst um málaði Victor Cilia og er yndi að horfa á það með þeim Maude og Lionel.

Í fyrra fengum við að sjá Rautt í Borgarleikhúsinu, annað heimspekilegt verk um list. Pollock er ekki síðra verk þótt ólíkt sé og sýningin líka alveg dásamleg. Ekki missa af henni.

Silja Aðalsteinsdóttir