Maður mátti hafa sig allan við að fá ekki alvarlegt kast af þjóðernishroka undir frumsýningunni á Don Carlo í Eldborgarsal Hörpu í gærkvöldi. Á snilldarlega hönnuðu sviði Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur, frumlega lýstu af Páli Ragnarssyni, steig fram hver glæsilegi söngvarinn af öðrum og lék og söng hlutverk sitt í einni mestu óperu Verdis undir styrkri stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Með þeim söng Kór Íslensku óperunnar og Hljómsveit Íslensku óperunnar lék með Guðmund Óla Gunnarsson hljómsveitarstjóra og Unu Sveinbjarnardóttur konsertmeistara við stjórnvölinn. – Og hvergi veikur hlekkur. Einhvern tíma hefði þetta þótt saga til næsta bæjar á Íslandi.

Don CarloDon Carlo er hápólitískt verk, byggt á leikriti Friedrichs Schillers um valdatíma Filippusar annars Spánarkonungs og máttvana uppreisn sonar hans gegn honum. Filippus (Kristinn Sigmundsson) á í vandræðum með þegna sína í Niðurlöndum vegna þess að þeir vilja siðbót og hafna kaþólsku. Þetta líkar ekki yfirdómara Rannsóknarréttarins (Guðjón G. Óskarsson). Að undirlagi hans sýnir Filippus Flæmingjum svo mikla hörku að hún ofbýður syni hans, Don Carlo prins (Jóhann Friðgeir Valdimarsson). Carlo er fyrirfram sár og reiður föður sínum fyrir að hafa sjálfur gifst Elisabettu Frakkaprinsessu (Helga Rós Indriðadóttir) sem Carlo hafði áður verið heitin í friðarviðræðum konunganna af Spáni og Frakklandi. Nú vill Don Carlo fá í hendur yfirstjórn Niðurlanda, komast þannig að heiman og verða bjargvættur þeirra, og vinur hans Rodrigo, markgreifi af Posa (Oddur Arnþór Jónsson), hvetur hann til þess. Filippus fyrirlítur son sinn en hrífst af hugsjónamanninum Rodrigo þótt hann viti að yfirdómaranum muni ekki líka það. Þegar Carlo grípur til vopna gegn föður sínum við opinbera aftöku trúvillinga er prinsinn tekinn fastur og varpað í fangelsi. Sagnfræðirit segja að Carlo hafi verið ruglaður eftir slys og látist af náttúrlegum orsökum í fangelsi, en í óperunni hefur verkið gengið í gegnum hreinsunareld 19. aldar frelsishugmynda og rómantíkur.

Ekki er síður snúin sú hliðin sem snýr að einkalífi konungsins. Hann hefur gengið að eiga unnustu sonar síns en er kvalinn af tortryggni út í hana. Hápunktur sýningarinnar er áhrifamikil aría Filippusar í 3. þætti þar sem hann harmar að eiga ekki ást konu sinnar. Kristinn söng hana svo vel að jöklar bráðnuðu. Þegar hirðmærin Eboli prinsessa (Hanna Dóra Sturludóttir) rænir skartgripaskríni drottningar og færir honum finnur hann þar nisti með mynd af syni sínum og ásakar drottningu þegar um hórdóm. Elisabetta verst af öllu afli og þegar Rodrigo kemur henni til hjálpar trúir konungur að orðrómurinn sé ósannur. Annar hátindur kvöldsins var hinn makalausi kvartett þegar konungurinn iðrast þess að hafa haft konu sína fyrir rangri sök, drottningin þráir að komast heim til Frakklands eða deyja ella, Eboli prinsessa sér eftir svikum við drottningu og Rodrigo ákveður að bjarga lífi prinsins vinar síns með því að fórna eigin lífi. Ógleymanlegt. Þriðji hápunkturinn í mínum eyrum var röddin af himnum (Hallveig Rúnarsdóttir) sem býður fórnarlömb ofsókna konungsins velkomin í himnasali eftir aftökuna. Ég gæti nefnt mun fleiri flott atriði en læt þetta duga.

Rodrigo tekst að bjarga Carlo úr fangelsi en fellur sjálfur fyrir leyniskyttu Rannsóknarréttarins. Björgun prinsins er heldur ekki langæ; hann á víða óvini og engan vin lengur – nema munkinn dularfulla (Viðar Gunnarsson) sem kannski er afi hans, Karl fimmti, afturgenginn.

Þetta er flókin saga og nauðsynlegt að skilja libretto Josephs Méry og Camille du Locle til að ná henni. Þýðingin á hliðarskjám salarins var mjög góð og skýr og sást vel þaðan sem ég sat. Auðvitað er vesen að þurfa að lesa texta, maður horfir ekki á sviðið um leið. En hjá þessu verður ekki komist nema læra ítölsku.

Leikmynd Þórunnar Sigríðar gerði hvað eftir annað kraftaverk á grunnu sviði Eldborgar. Lengst af var hún þægilega einföld en átti svo til að koma á óvart. Ég tók hreinlega andköf þegar dyr opnuðust að miklum stiga upp í höll Filippusar. Snilldarbragð var líka að hafa gjá á milli konungsins og yfirdómarans þegar þeir togast á um valdið – hvort á að gilda, hið veraldlega eða hið andlega? Þetta er sannarlega gilt spursmál enn þann dag í dag en svar þess tíma var skýrt eins og táknað var með þungum krossi sem vofði yfir sviðinu og þokaðist neðar eftir því sem sögunni vatt fram. Búningar Þórunnar Sigríðar voru yfirleitt skínandi góðir. Hún klæddi Elisabettu í hvítt í samræmi við sakleysi hennar en Eboli er litríkari eins og hæfði karakter hennar. Konungurinn er virðulegur, Rodrigo flottur og töff í tauinu en Carlo prins þótti mér illa til hafður og ekki prinslegur; frakkinn hans var of stífur og fór honum illa. Prinsinn var líka hafður helst til klaufalegur að mínu mati. Hann á að vera taugaóstyrkur og brotinn maður en við verðum að geta trúað því að bæði Elisabetta og Eboli elski hann.

„Margt var æðislegt en sumt var ekki eins æðislegt,“ var mat sérfræðings að lokinni sýningu. En henni var geysilega vel tekið af áhorfendum eins og vel mátti heyra bæði á viðtökum við stökum aríum og söngvurunum í lokin. Þar var konungi íslenskra söngvara, Kristni Sigmundssyni, auðvitað fagnað af mestri ást og hlýju, en stjarna kvöldsins var þó kannski hinn ungi og óvænti Oddur Arnþór sem kom sá og sigraði í hlutverki Rodrigo. Við erum sannarlega auðug þjóð.

Silja Aðalsteinsdóttir

Don Carlo