eftir Auði Styrkársdóttur

úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020

 

Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir

Ég stíg inn í Húsið við sjávarkambinn og horfist í augu við lúinn taktmæli ofan á gamalli slaghörpu. Ég rétti fram höndina en hann kinkar til mín kolli, hneigir sig og segir: Hér er allt búið. Hér er ekki lengur sleginn taktur til eins eða neins, hvorki fyrir hörpu né fyrir þitt hjarta. Þú ert of sein, of sein.

Skepnan á veggnum rekur upp bofs og augu hennar elta fingur mína yfir spegilfægð borð og grænt og mjúkt pluss á sófa og Familie Journalen á skrifborði og fagurlega lagaðar skálar úr gleri og gylltar krúsir og handmálaða postulínsbolla. Skepnan veit ekki hvort hún á heldur að vera hundur eða lamb, en augnaráðið geymir gamla ásökun og ég sný mér undan.

Pelargóníur fylla alla glugga, bleikar og grænar og rauðar. Já, pelargóníur. Þær sá ég síðast uppi á lofti hjá ömmu minni á Ingjaldshóli. Hún var ekki sú Margrét sem hér sló ösku á drifhvíta dúka og sagði bæði God’dag og Dejligt vejr. Nei, amma mín hristi ösku úr skítugum dúkum og hún nuggaði þá berhent með grænsápu og klór og hún þurrkaði þá í sólarbrækju og hún straujaði þá með stífelsi. Þær nöfnurnar giftust þó báðar dökkeygum mönnum og lifðu báðar lengi í ekkjudómi.

Ég legg hlust að vegg og nem fjarlægan nið af þrammandi fótum og tiplandi fótum, og ungum fótum og lúnum fótum. Hér er blístur og hér er uml og hér er raul og hér eru fyrirmæli og skipanir og það eru bænir og fyrirbænir og bölbænir og sei-sei og jú-jú. Hér er hvítur samfarataktur faktorsins og hér er blóðrauður hríðarsláttur maddömmunnar og hér eru síðustu taktvísu andvörpin. Fótur knýr rokk og það smellur í prjónum að prjóna rósaleppa í roðskó vinnumanns. Tóbaksrámur kararsjúklingur kallar ofan af lofti: Góður er grauturinn, gæska. Gegnum þilið leggur mannaþef og tröllaþef og loftið nötrar undan fjarveru andardráttar unglingsins Páls þegar ungfrú Nielsen lék á slaghörpuna fyrir hann og hann einan.

Þei, þei! Það marrar í stiga. Loku er skotið frá smáu gati í gólfi og augu vinnustúlkunnar renna saman við vökul augu Guðs og Jesú og englanna á veggjunum svo börnin sofni rótt, og sofi rótt.

Hér flögra korriró og dillidó.

Tikk-takk, tikk-takk. Það hvín í taktmælinum. Ég hrekk við og dreg til mín hlustina.

Og þá, og þá heyri ég það.

Ég heyri ísbjörninn öskra í flæðarmálinu – og úthafsölduna slá hamfaratakt.

 

Gert á Eyrarbakka í maí 2019