RústaðÞað greip mig óvænt tilfinning að lokinni sýningu á Rústað eftir Söruh Kane á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi: ég fann að ég var þakklát. Fyrir hvað? hugsaði ég hissa. Fyrir að horfa á manneskjur gera öðrum manneskjum mein? Nei, öllu heldur fyrir að sýna mér bakhliðina á fréttunum sem við lesum og heyrum á hverjum degi, sýna mér hvað þær þýða í raun og veru. Það er ekkert þægilegt. Mér varð ansi óglatt á köflum, og ég skildi vel hjónin fyrir aftan mig sem gengu út. Kannski er merkilegt að ekki skyldu fleiri ganga út, en aðstandendur sýningarinnar höfðu undirbúið hana mjög vel. Jafnvel of vel. Sumt hefði ég ekki viljað vita fyrirfram. Ég sá svolítið eftir að hafa hlustað á vandaðan útvarpsþátt Hrafnhildar Hagalín um síðustu helgi þar sem allir meginviðburðir verksins voru nefndir – um leið og ég var því fegin.

Við erum sennilega stödd í Bretlandi því eini staðurinn sem nefndur er í texta svo ég tæki eftir er borgin Leeds. Þarna ríkir óöld sem hugsanlega á kynþáttabundnar rætur. Erum við í óljósri framtíð? Eða er Sarah að hugsa um óöldina sem hvað eftir annað hefur riðið yfir Brixton-hverfið í London þar sem hún bjó um tíma? Í rauninni skiptir það ekki máli. Það er uppreisn í hverfinu / borginni / landinu þar sem hótelið á sviðinu er, og hermaðurinn (Björn Thors) sem ræðst inn á parið í hótelherberginu er svangur – hungraður. Og graður. Hér eru frumþarfirnar í brennidepli – hvað erum við annað en gredda í mat og kynlíf þegar komið er niður á botn? Hann kemur djöfullega fram við blaðamanninn Ian (Ingvar E. Sigurðsson) og unga vinkonu hans Cate (Kristín Þóra Haraldsdóttir), en í rauninni ekki öðruvísi en Ian hefur þegar komið fram við Cate. Stríðsofbeldi er ekkert annað en “eðlilegt” framhald af heimilisofbeldi, sýnir Sarah Kane.

Þessi þrjú sýndu sjaldgæfa innlifun í hlutverk sín, og eiginlega er ástæða til að sjá sýninguna þó ekki væri nema til að upplifa það, einkum þó frábæra túlkun Ingvars á Ian. Jafnvel aftur á sjöunda bekk sást hvert svipbrigði og hvert viðbragð – og þau eru mörg og sum áður óséð á íslensku sviði. Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri hefur áður sýnt örugg tök sín á persónuleikstjórn – ég minni bara á Penetreitor – og henni skjöplast ekki hér. Börkur Jónsson sýnir enn fádæma snilli sína í sviðsmyndinni og þróun hennar og aðrir sviðslistamenn eiga líka skilið stórt prik fyrir sína vinnu.

Rústað er djarft verk eins og klifað hefur verið á, en hvað er það miðað við það sem gerist í fréttum blaða, sjónvarps og útvarps á hverjum einasta degi. Við lifum ekki í fögrum heimi, og það er brýnt að minnast þess, ekki síst núna þegar okkur finnst við eiga svo bágt.

Silja Aðalsteinsdóttir