Það er dáldið æðislegt sem leikhópurinn Fullt hús hefur gert við Þjóðleikhúskjallarann fyrir sýningu sína Hundalógík. Þau leika á miðju dansgólfinu og raða stólum allan hringinn í kringum sig. Þau hafa ekki pláss fyrir voðalega marga áhorfendur með þessari uppsetningu enda spila þau algerlega upp á nándina og hún verður þeirra styrkur þó að þau kunni kannski misvel við hana framan af.

Hundalógík

Í Hundalógík eftir Christopher Johnson fáum við að kynnast einum átta hundum persónulega og hundaflokki af Afgankyni í þvögu. Þetta eru býsna ólíkir seppar og allir ágætlega skapaðir af höfundi sínum og leikendum. Leikendur höfðu þegar komið sér fyrir, hver í sínu horni, þegar inn var komið og meðan áhorfendur voru að setjast varð maður smám saman var við að einn hundurinn gat varla beðið eftir að komast að. Það var mjög sannfærandi hvernig Jón Svavar Jósefsson var farinn að titra á beinunum, nasa og hnusa, enda stökk hann af stað um leið og hann mátti og fór að áreita gesti, hoppa og stökkva á milli þeirra, betla mat og kvarta undan eiganda sínum. Þetta reyndist vera Jack Russel terrierinn Jack og hann var líbblegasti rakkinn á svæðinu, mjög skemmtilega útfærður af Jóni Svavari sem raunar er menntaður óperusöngvari. Við kynnumst líka subbulega blendingnum Blackie (Ingi Hrafn Hilmarsson) sem verður svona heiftarlega skotinn í vel snyrtri glæsitík – sem heillast af honum líka. Við heyrum harmsögu volduga rottweilerhundsins Borys (Jón Stefán Sigurðsson) sem missir stjórn á skapi sínu með blóðugum afleiðingum – en hann útskýrir afar vel fyrir okkur hvers vegna það gerðist og tekur örlögum sínum með tiginni stillingu. Jón Stefán leikur líka lögregluhundinn Ando, Jón Svavar fjárhundinn Sparky og Ingi Hrafn óheppna veðhlaupahundinn Savoir Faire. Einna best kynnumst við golden retriever tíkinni Maddie sem Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir leikur af innlifun og næmi. Hún fór með okkur gegnum ævi þessa dýrmæta dýrs sem ekki skilur til fulls það sem kemur fyrir hana en tekur þó til sinna ráða að lokum þegar sannleikurinn rennur upp fyrir henni. Ólöf Hugrún lék líka beaglehundinn Sherlock sem er eins kænn og nafnið bendir til.

Þetta er afskaplega skemmtileg sýning, óvenjuleg og áhugavekjandi, líka fyrir fólk sem ekki hefur mikil kynni af eða áhuga á hundum. Jafnvel fyrir kattafólk! Lipra og áheyrilega þýðinguna gerðu Jón Stefán og hópurinn en Bjartmar Þórðarson stýrir.

Silja Aðalsteinsdóttir