Guð blessi ÍslandÞað var mikið fjör í stóra sal Borgarleikhússins í gær þegar Guð blessi Ísland eftir þá Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson leikstjóra var frumsýnt, hopp og hí, loftfimleikar, myndbönd, gömul og ný, gamlar fréttaútsendingar, starwars-hljómsveit, lottóvél og bíll á sviðinu, ofboðslegur hávaði, sannkallaður Hrunadans með öllu í næstum þrjá og hálfan tíma.

Þó hófst sýningin á þögn. Þegar tjaldið er dregið upp horfum við á hvítmálað svið með ótal hvítum plaststólum. Á víð og dreif situr fólk grafkyrrt en það er í skugga af því að glannalega sterkt ljósið á bakveggnum skín á okkur úti í sal. Og þögnin varði. Af tilviljun tók félagi minn tímann en ég ætla ekki að segja ykkur hvað hún var löng. Svo breyttist lýsingin og við sáum framan í fólkið á sviðinu, það hefur þá líklega hætt að sjá framan í okkur. Þetta fólk var í hvítum alklæðnaði en með bláa húfu á höfðinu og bláa hanska. Bláa höndin? Þessi fyrsti hluti sýningarinnar með samtölum fólksins á sviðinu og fróðlegum játningum þeirra var afar skemmtilegur. Ályktun eitt: Almenningur og sögur hans úr Hruninu eru skemmtilegri en útrásarvíkingar og sögur þeirra.

Þó að verkið sé að sögn höfunda byggt á Rannsóknarskýrslu Alþingis er úttekt þeirra á Hruninu ekki í tímaröð heldur var farið fram og aftur. Veislan fyrir Hrun rann saman við eftiráskýringar. Ástarjátningar Björgólfs Thors (Hjörtur Jóhann Jónsson) til þjóðar sinnar og heimspekilegt kjaftæði hans rann saman við afsökunarbeiðnir og grát og gnístran tanna í ílöngu og smám saman óskaplega þreytandi atriði undir lok fyrri hluta. Löng, löng ræða Ólafs Ragnars Grímssonar (frábær Maríanna Clara Lúthersdóttir) fór yfir allan viðbragðaskala hans fyrir og eftir. Ólafur Ólafsson (Hilmar Guðjónsson) var afskaplega leiðinlegur og ekki var kona hans (Aðalheiður Halldórsdóttir) miklu betri í sinni löngu fjallræðu. Halldór Gylfason var fjandi góður Geir H. Haarde, Arnmundur Ernst Backman eftirminnilegur Jón Ásgeir. Halldóra Geirharðsdóttir og Örn Árnason brugðu sér í ýmissa kvikinda líki af mikilli fimi.

Og þá er eftir maðurinn sem allt snerist endanlega um, maðurinn sem sagði að úr því að menn vildu endilega gera leikrit um sig þá mættu þeir það alveg, honum væri alveg sama, hann hefði ekki beðið um neitt leikrit en auðvitað væri alveg sjálfsagt að þeir gerðu það – maðurinn sem gat svo seinna spurt heldur súr hvað ákveðinn annar aðili væri að gera í „sínu“ leikriti. Þetta var að sjálfsögðu Davíð Oddsson sem Brynhildur Guðjónsdóttir lék af algerri snilld. Það vottaði auðvitað fyrir Njáli í túlkun hennar, eins og átti vel við því auðvitað var Davíð sá eini sem skildi Hrunið og hefði getað komið í veg fyrir það ef honum hefði verið leyft það! Persónusköpun þessa volduga manns í íslensku samfélagi undanfarna tæpa hálfu öld, í texta og túlkun, var framúrskarandi og er ein og sér ástæða til að sjá þessa sýningu. Kristín Þóra Haraldsdóttir var skósveinninn Hannes Hólmsteinn og vann sitt verk af alkunnri alúð.

Að venju fær Þorleifur Örn allt sem hann vill í leikhúsinu, ekki bara þá leikara sem hann velur heldur allt sviðsfólk. Ilmur Stefánsdóttir gerir haglega fjölnota leikmynd, Sunneva Ása Weisshappel býr til ótölulegan fjölda búninga sem sumir voru óþarflega trúðslegir þótt þetta verk eigi vitanlega að sýna okkur eins konar sirkus. Sunneva sá líka um leikgervi ásamt Elínu S. Gísladóttur og þau voru mörg meistaraleg. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssoner hæfilega óþægileg eins og viðfangsefnið. Elmar Þórarinsson gerir myndbönd, Katrin Hahner sá um tónlistina og hefur væntanlega valið lögin sem flutt voru; þau voru vel valin, sum meira en svo, til dæmis Händel undir lokin.

Þrátt fyrir langa sýningu og mikinn texta er ég nú, morguninn eftir, engu nær um Hrunið og ástæður þess. Það leiðir til ályktunar númer tvö: Hrunið er flóknara efni en sjálf Njála. En þetta er mun betur heppnuð sýning en Álfahöllin sem Þorleifur Örn reisti í Þjóðleikhúsinu í vor og þótt kaflar í henni séu illbærilegir vegna hávaða og leiðinda er heildin áhrifamikil. Kannski væri það ekki ekta sýning um Hrunið ef ekki væru óbærilega leiðinlegir kaflar inn á milli? Og endirinn? Það toppar hann auðvitað Ekki Neitt.

Silja Aðalsteinsdóttir