Fuglabjargið

Þó að litla svið Borgarleikhússins væri ekki setið nema til hálfs eða svo vegna Covidsins minnti kliðurinn samt meira en lítið á fuglabjarg áður en ljósin slokknuðu. Það átti vel við því í vændum var frumsýning á nýrri óperu eða tónleikhúsi fyrir börn, Fuglabjarginu eftir Birni Jón Sigurðsson (handrit), Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur (tónlist). Leikstjóri er Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Ragnheiður Erla er tónlistarstjóri og sýningin er samstarfsverkefni LR og leikhópsins Hinnar frægu andar.

Við erum stödd úti í eynni Skrúð. Langvían (Viktoría Sigurðardóttir) er komin í bjargið og þarna kemur lundinn (Björk Níelsdóttir) á ofsaferð og stingur sér á hausinn rétt hjá langvíunni. Henni bregður við en lundinn biðst afsökunar á sinn hátt, hann meinti ekkert illt! Skarfurinn (Ragnar Pétur Jóhannsson) gerir sig breiðan; hann er ekkert sérstaklega ánægður þarna í Skrúðnum og hótar að flytja austur (til Færeyja??) eða kannski vestur í Breiðafjörð – en auðvitað fer hann hvergi, jafnvel þó að rituskammirnar (Halldór Eldjárn og Bryndís Þórsdóttir) driti í sífellu á hann. Súlan (Viktoría) sýnir listir sínar, öðrum fuglum til yndis. Æðarkollurnar koma sér fyrir í dúnmjúkum hreiðrum (Ragnar Pétur og Viktoría) og önnur þeirra verpir myndarlegu eggi. En meðan kollurnar skiptast á safaríkum kjaftasögum um léttúðarfulla blika kemur krummi (Björk) og rænir egginu. Ungarnir hans eru soltnir og fegnir matarmiklu egginu. Allt vill lifa.

Sumarið líður. Ungi súlunnar (Viktoría) tínir af sér ungfituhnoðrana, ergilegur út í foreldrana sem hafa yfirgefið hann. En það reynist vera honum fyrir bestu því þegar hann hefur horast nóg getur hann steypt sér ofan úr hreiðrinu og hafið sjálfstætt líf. Það er ekki seinna vænna því nú þarf að æfa oddaflug og halda út í heim. Eftir eru staðfuglarnir, skarfurinn, krummi og hafassan (Björg Brjánsdóttir) sem sveif þöndum vængjum inn eftir salnum þegar farfuglarnir voru farnir og ekki laust við að færi um unga salargesti við þá tignarlegu sjón. Og meðan assan svífur yfir eynni ærslast haftyrðlarnir í snjónum.

En eftir vetur kemur aftur vor því það er eðli náttúrunnar: hún fer hring eftir hring! Skarfurinn sópar snjónum burt (þetta með lóuna er alger misskilningur!) og farfuglarnir koma aftur því Skrúður er þeirra dýrmæta „heima“.

Þetta er einstaklega falleg sýning. Sviðið (Hallveig Kristín og Birnir Jón) er þakið mjúkum sessum í jarðlitum sem nýtast á ýmsan hátt. Búningarnir (Sólveig Spilliaert) taka hver um sig mið af sinni fuglategund og eru veisla fyrir augað. Engin leið er að gera upp á milli fuglanna en litríkastur er lundinn, að sjálfsögðu, og súlan fínlegust. Afbragðs hugmynd er að klæða æðarfuglinn í dúnsængur. Textinn er skemmtileg blanda af prósa og rími í klassískum stíl og nútímalegum. Tónlistin er líka í senn kunnugleg og ný og lituð margvíslegum fuglahljóðum, prýðilega leikin af fuglahljómsveit á efri hæð sviðsins sem stundum hjálpaði til á neðri hæðinni. Hrifnust var ég af söngnum enda hafa þau Björk, Ragnar Pétur og Viktoría geysilega fallegar raddir sem njóta sín afar vel í verkinu. Loks er ástæða til að hrósa aðstandendum fyrir leikskrána sem geymir fróðlegar upplýsingar um fuglana.

Þó að Ragnari Þorláki þriggja ára hefði brugðið nokkuð við aðflug hafössunnar svaraði hann hiklaust og af djúpri ánægju þegar hann var spurður eftir á hvernig honum hefði þótt: „Þetta var dásamleg sýning,“ sagði hann.