Lér konungurEiginlega er Lér konungur ómögulegt leikrit, rosalega langt og flókið og snýst mest um óyndisleg efni eins og valdabaráttu, heimsku, svik, geðveiki og ofbeldi. Það byrjar á því að gamall kóngur útfærir einstaklega vonda hugmynd sína: að gefa dætrum sínum þremur landsvæði í hlutfalli við ástina sem þær segjast bera til hans. Svo er honum hafnað af einmitt þeim dætrum sem sóru heitast, hann er rekinn út í óveður þar sem hann verður galinn og allt miðbik verksins er hróp og köll í persónum sem ýmist eru sturlaðar eða þykjast vera það, og svo endar verkið á því að næstum því allir deyja, líka aðalpersónurnar.

En veldur hver á heldur. Shakespeare hafði ýmsar fyrirmyndir að þessu verki sínu, eldri sagnir og leikrit um Lé kóng og gömul ævintýri um yngstu dótturina sem er hrakin að heiman af því hún getur ekki fengið sig til þess að játa meiri ást á föður sínum en eðlilegt má teljast. Úr þessu erfiða efni býr hann til leikrit sem talið er til hans máttugustu verka, vefur saman í voldugt listaverk fallegar tilfinningar: ást, meðlíðan og sorg, og miður fagrar: undirróður, svik, vélar og pretti með smáskömmtum af gríni og stríðni. Í sýningu Þjóðleikhússins sem frumsýnd var á annan í jólum er leikin ný þýðing Þórarins Eldjárn á verkinu, lipur, auðskiljanleg og skemmtileg. Leikstjórinn Benedict Andrews er frá Ástralíu, hugmyndaríkur og snjall náungi, en nokkuð var um að textaleikstjórn hans brygðist, ef til vill vegna þess að hann kann ekki málið sem leikið er á. Þetta gerðist einkum þegar fólk hrópaði mjög og kallaði, argaði jafnvel setningarnar sínar sem skildust þá illa og gerði stóran hluta verksins of eintóna.

Áhrifamest var leikritið fyrst og síðast, og raunar var fyrsta senan, þegar Lér (Arnar Jónsson) skiptir ríki sínu milli dætranna, alveg æðisleg. Þar naut sín til fulls snilld Barkar Jónssonar sem hannaði leikmyndina. Mikill fjöldi af blöðrum gaf til kynna mannmergð í salnum þar sem konungur situr; inni á milli þeirra stóðu persónurnar og mismunuðu sér síðan gegnum “manngrúann” til konungs þegar hann kallaði á þær. Ekki skýrir Lér hvers vegna hann vill heyra ástarjátningar dætra sinna; hann er bara sjálfhverfur og sjálfselskur gamall maður sem ekki hefur enn fengið nóg af smjaðri þrátt fyrir áratugi á valdastóli. Ekki fær hann það heldur í þetta sinn því þó að eldri dæturnar tvær, Góneríl (Margrét Vilhjálmsdóttir) og Regan (Vigdís Hrefna Pálsdóttir), hafi sannarlega mörg og fögur orð um heitar tilfinningar sínar til föður síns getur sú yngsta, Kordelía (Álfrún Helga Örnólfsdóttir), ekki fengið sig til að segja neitt sem honum líkar. Hún elskar hann eins heitt og henni er skylt, hvorki meira né minna, segir hún, og það gremst honum svo mjög að hann gerir hana arflausa og útlæga úr ríki sínu. Valdið, frekjuna og sjálfselskuna túlkaði Arnar af fullkomnu öryggi, Margrét og Vigdís Hrefna voru glæsilegir og innlifaðir smjaðrarar og Álfrún Helga sannfærandi andstæða þeirra.

Reyndar er stutt sena á undan þessari hjá Shakespeare þar sem hliðarsagan er kynnt, sagt frá því að jarlinn af Glostri (Eggert Þorleifsson) eigi tvo syni, hjónabandsbarnið Játgeir (Atli Rafn Sigurðarson) og bastarðinn Játmund (Stefán Hallur Stefánsson). Flest í þessari senu kemur fram síðar en ekki er sniðugt að sleppa henni því hér fáum við innsýn í þá endalausu kerskni sem Játmundur hefur orðið að þola allt sitt líf og sem skýrir hatursfull svikráð hans við bróður sinn og föður. En Andrews leikstjóri á kannski bágt með að ímynda sér leikhúsgest sem ekki þekkir þennan texta eins og faðirvorið sitt. Þeir Glosturfeðgar voru vel gerðir, einkum var Stefán Hallur óhugnanlega ísmeygilegur í sínum margföldu svikum.

Mikið hefur verið gert úr því í fréttum úr leikhúsinu hve gríðarlegt vatnsveður verður á sviðinu þegar hinar svikulu dætur hafa hrakið pabba gamla út í eyðimörkina með fífli sínu sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir túlkaði af list. Þar er engu logið en ekki er beinlínis auðvelt að fara með langar ræður í veðurofsanum og nokkrar gullvægar setningar fóru þar fyrir lítið. En þetta er mikið sjónarspil með Arnar og Atla Rafn rennandi vota á nærunum tímunum saman.

Það sem hefst upp úr fljótfærnislegri skiptingu ríkisins, útlegð Kordelíu og hjónabandi hennar og Frakkakonungs er stríð, og síðasti hluti verksins gerist í tjaldbúðum liðsveitanna. Ég er hrædd um að of miklu sé sleppt úr þessum síðasta parti til að gangur stríðsins sé algerlega ljós þeim sem ekki þekkja verkið. Þó er nægilega ljóst hvernig fer fyrir illu systrunum tveim og þeirra sameiginlega ástmanni, og örlög gamla konungsins og dótturinnar sem raunverulega elskar hann snerta áhorfendur enn djúpt eftir rúm fjögur hundruð ár. Lokaatriðin voru frumlega útfærð og áhrifamikil.

“Hörmungartímum við hljótum að gera skil,” segir Játgeir í lok verksins og má halda því fram að það eigi sérstaklega vel við að leika Lé konung á Íslandi núna. Auk þess er það fagnaðarefni þegar leikhúsin okkar glíma við verkefni sem taka virkilega á, og ég vona að leikhúsáhugamenn verðlauni Þjóðleikhúsið með góðri aðsókn.

 

Silja Aðalsteinsdóttir