Nýjárs- og afmælissýning Leikfélags Reykjavíkur, Vanja frændi eftir Anton Tsjekhov, var frumsýnd í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins undir stjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Gunnar Þorri Pétursson þýddi verkið á tilgerðarlausa, auðskiljanlega og fallega íslensku og öll textavinna í sýningunni var aðdáunarverð. Sú einkunn átti sannarlega við fleira.

Vanja frændiVið erum stödd á sveitasetri Aleksanders Serebrjakovs prófessors í bókmenntum (Jóhann Sigurðarson). Hann býr sjálfur í borginni þar sem hann hefur lifað þokkalega vel á launum sínum og afrakstri óðalsins. En nú þrengir að og hann hyggst grípa til ákveðinna (örþrifa)ráða til að breyta því. Búið er rekið af dóttur Aleksanders af fyrra hjónabandi, Sofíu (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), og bróður látinnar eiginkonu Aleksanders, Vanja (Valur Freyr Einarsson). Titilpersónan er sem sagt frændi Sofíu, þannig að það er frá hennar sjónarhóli sem hann er „Vanja frændi“. Þau eru nánir samstarfsmenn og vinir, þau tvö, duglega og vinnufúsa fólkið sem allt hvílir á.

Í upphafi leiks kemur prófessorinn til dvalar á óðalið ásamt seinni konu sinni, Jelenu (Unnur Ösp Stefánsdóttir). Sá gamli er kvalinn af ellitengdum (og drykkjutengdum) kvillum, hrokafullur og fyrtinn; Jelena er óhamingjusöm og svipast strax um eftir einhverju til að skemmta sér við. Hún er gullfalleg og Vanja fellur fyrir henni á augabragði. Það gerir líka héraðslæknirinn Astrov (Hilmir Snær Guðnason) sem hættir nokkurn veginn að sinna starfi sínu til að geta snúist í kringum Jelenu. Þetta horfir Sofía á með djúpri sorg af því að hún hefur lengi elskað lækninn. Þriðji maðurinn sem heillast af Jelenu er uppgjafa óðalseigandinn Vaffla (Halldór Gylfason) sem er hálfgerður niðursetningur á setrinu. Auk þessara eru á heimilinu móðir Vanja og amma Sofíu, María (Sigrún Edda Björnsdóttir – alveg óþekkjanleg í sínu gervi!), gamla fóstran Marína (Margrét Helga Jóhannsdóttir) og vinnumaðurinn Jefím (Arnar Dan Kristjánsson). Þegar allir eru mættir á staðinn getur samspilið hafist og undist áfram að sínum hápunkti. Þar skorti ekkert á ástríður, drama og lífshættuleg leiðindi.

Sveitasetrið er stórt og þar eru margar vistarverur. Svið Barkar Jónssonar gaf góða hugmynd um þetta án þess að tími væri tekinn í að skipta um svið á venjulegan máta. Timburveggir (reistir úr skóginum sem eytt var) komu að ofan og hurfu á ný, og stóra ljósakrónan (gerð úr hornum fallinna dádýra, ótrúlega flott) seig upp og niður eftir því hvar við vorum stödd hverju sinni. Filippía I. Elísdóttir fyllir þetta timburverk af pastellitum klæðnaði þannig að heildarmyndin verður stílhrein, gamaldags, munaðarleg og töfrandi fögur. Um sviðið léku ljós Björns Bergsteins Guðmundssonar og lýstu upp margslungin mynstrin í timburverkinu eða földu eftir þörfum. Tónlist Bjarna Frímanns Bjarnasonar var fyrst og fremst notuð til að mynda skil milli atriða, hún er fersk og skemmtilega afgerandi; ég vona að hún verði gefin út.

Vanja frændi

En þegar leikrit Tsjekhovs eru sett á svið skiptir leikaravalið mestu máli og það veit Brynhildur leikstjóri. Við verðum að anda með þessu fólki á sviðinu, trúa á hamingju þess og óhamingju, finna til með því en líka hlæja að því, alveg eins og okkur sjálfum. Valur Freyr var ekki eins aumkunarverður Vanja og oft er raunin; hann er reiður frekar en sár þegar líf hans er lagt í rúst þannig að við sjáum að hann hefur raunverulega ætlað að eiga öðruvísi líf. Það var vel gert. Jóhann átti ekki erfitt með hlutverk prófessorsins, það var bersýnilegt að þessi maður hafði aldrei átt mikið til að gefa af sér en haft nægt sjálfsöryggi til að allt snerist í kringum hann. Halldór var dásamlegur gagnslítill draugur á heimili og Arnar Dan var myndarlegur vinnumaður sem líklega dreymir um mun stærra hlutverk á óðalinu.

Karlstjarna sýningarinnar er þó ótvírætt Hilmir Snær í hlutverki hins ástsjúka læknis. Hlutverk kvensama karlsins kemur algerlega náttúrlega í tilviki Hilmis, hann er afskaplega aðlaðandi maður og á auðvelt með að heilla bæði konur og karla. Læknirinn hans Tsjekhovs er hreint ekki bara kvennabósi; þetta er samviskusamur læknir sem ber hag og heilsu héraðsbúa fyrir brjósti og hann er sárhneykslaður á sjálfum sér fyrir að heillast svo af Jelenu að hann hefur gleymt skjólstæðingum sínum. Allar þessar hugsanir og tilfinningar sýndi Hilmir Snær af áreynslulausri sannfæringu, innileika og húmor.

Gervin á gömlu konunum, Marínu fóstru og Maríu móður Vanja, voru sérstaklega góð en hlutverkin lítil. Einkum hefði ég viljað sjá og heyra meira til Sigrúnar Eddu. Persóna Maríu varð þó alveg skýr; hún dáist takmarkalaust að tengdasyni sínum prófessornum, fyrirgefur honum allt og tekur hann hikstalaust fram yfir sitt eigið hold og blóð.

Ungu konurnar tvær mynda sannfærandi andstæður í upplagi og örlögum. Þær eru tortryggnar hvor í garð hinnar í fyrstu, og auðvitað er Sofíu alltaf illa við Jelenu innst inni vegna þess að Astrov læknir hættir að sjá hana þegar Jelena birtist á staðnum. En Jelena þráir vinkonu og þær sættast eina nóttina með miklum tilþrifum. Ég mun aldrei gleyma senunni þar sem þær standa uppi á borði í faðmlögum, önnur grátandi af óhamingju og hin skellihlæjandi að óhamingju vinkonu sinnar og eigin hamingju þar af leiðandi! Unnur Ösp var eins og álfamær í vel sniðnu pilsunum og kjólunum hennar Filippíu og túlkaði frábærlega vel tvískinnung Jelenu. Katrín Halldóra gaf gráthlægilega mynd af stúlku sem er dæmd af öllum aðstæðum til að verða piparmey og getur ekki enn sætt sig við það. Ekki segja að ég sé með fallegt hár! andvarpar hún hálfskælandi: Það er alltaf sagt við ófríðar stúlkur til að hugga þær að þær hafi falleg augu eða fallegt hár! Nú er Katrín Halldóra íðilfögur í verunni en svei mér ef maður trúði henni ekki á þessari stundu og skældi svolítið með henni um leið og maður hló að henni.

Í meðförum Brynhildar verður Tsjekhov afar líkamlegur. Fólk hreyfir sig á óvæntan hátt, stígur dansspor, bregður á leik. Og það snertist, gefur olnbogaskot, nuddar axlir, rekst á, tekur utan um, strýkur, káfar … Annað sem hún gerir er að taka salinn með í leikinn eins og hún gerði í Ríkharði þriðja. Eintölum persónanna er beint sérstaklega til okkar og persónur fara jafnvel út í sal til að leggja áherslu á að þær séu að tala við okkur. Þetta er fáránlega skemmtilegt og heldur manni fast við efnið.

Brynhildur Guðjónsdóttir gaf okkur fyrir ári glæsilega Shakespeare-sýningu. Hún gefur okkur núna besta Tsjekhov sem við höfum fengið síðan Kjartan Ragnarsson setti upp rómaðar sýningar á Vanja frænda og Platanov fyrir nærri þrjátíu árum. Innilegar hamingjuóskir.

Silja Aðalsteindóttir