Bjartmar Þórðarson leikari og leikstjóri frumsýndi nýtt leikrit í Tjarnarbíó í gær ásamt leikhópnum Þurfandi: svörtu kómedíuna Gripahúsið sem hann leikstýrir sjálfur. Þetta er fyrsta verk hans í atvinnuleikhúsi og lofar nokkuð góðu. Stíllinn rambar á barmi fáránleikans en þegar undir er meinleg árás á lífshætti Íslendinga á það vel við. Samtölin eru ágætlega skrifuð en mættu vera fyndnari.

GripahúsiðEkkjan Védís (Bryndís Petra Bragadóttir) býr með þrem börnum sínum á niðurníddum sveitabæ. Þau hafa litla sinnu á að láta býlið bera sig en safna að sér endalausu drasli af gjafamarkaði eins og sviðsmyndin sýndi vel. Helsta afþreying húsfreyju er að lesa ferðabæklinga og láta sig dreyma um sólarlönd meðan Bjarni, eldri sonurinn (Sveinn Óskar Ásbjörnsson), horfir á sjónvarpssápur og lifir jafnvel hálfur í þeim. Þau mæðginin kalla Skírni, yngri soninn (Albert Halldórsson), „mongólítann“ en hann er bara svolítið einfaldur. Það er systirin Urður (Sigríður Björk Baldursdóttir) ekki. Raunar er hún eina manneskjan með almennilegu viti í fjölskyldunni og verður þess vegna fyrir stöðugri andlegri og líkamlegri kúgun af hendi Védísar og Bjarna. Það eru örlög hennar sem helst sjá um framvinduna í verkinu sem annars er lítil. Þetta er fyrst og fremst mynd af ástandi.

Aðstandendur sýningarinnar hafa ekki legið á því að þetta heiðarbýli og ábúendur þess eigi að sýna okkur Ísland samtímans og íbúa þess. Védís og synir hennar láta sig helst dreyma um að ferðamannabransinn muni bjarga þeim úr klóm eymdar og fátæktar. Til þess að hæna að sér ferðamenn ætla þau að gera upp gripahúsið, eftir að gripirnir eru hvort sem er dauðir, og breyta því í hótel. Ímynda sér jafnvel að þetta hafi þau þegar gert. Samt nenna þau alls ekki að gera við þakið á gripahúsinu áður en þau byrja að auglýsa gistinguna og taka við bókunum. Og umhverfi sitt láta þau drabbast niður. Skilaboðin mega ekki skýrari vera og taki þau nú til sín allir sem eiga!

Það er orðið langt síðan ég sá Bryndísi Petru á sviði og vil bjóða hana velkomna þangað aftur. Hún var svolítið óörugg framan af í hlutverki hinnar ráðvilltu ekkju en óx að styrk þegar á leið. Albert hafði ég séð áður á útskriftarsýningu í Nemendaleikhúsinu og var verulega hrifin af því hvernig hann tók á hinum þroskaskerta Skírni. Síendurtekin klagandi köll hans á mömmu sína urðu smám saman algerlega óbærileg. Hin tvö þekkti ég ekki en fannst þau líka gera verulega vel. Bjarni var lúðinn í lazybojnum lifandi kominn, nöldrarinn á netinu, vandlætarinn sem aldrei kemur neinu í verk sjálfur. Urður, vonlausa vonin okkar allra, var átakanlega vel túlkuð af Sigríði Björk.

Sýningin er sviðsett á fremur raunsæilegri leikmynd (sem enginn er skrifaður fyrir á kynningarblaði en mun vera eftir höfundinn), og fer vel á því. Annars er styrkur verksins einkum vandaður leikur. Tjarnarbíó hefur rutt sér vel til rúms í leikhúslífi Reykvíkinga í vetur, og þar er Gripahúsið prýðileg viðbót.

Silja Aðalsteinsdóttir