Ég hef ekki fram að þessu talið mig hafa mikinn smekk fyrir uppistand, en sannarlega skemmti ég mér í gærkvöldi i Tjarnarbíó þar sem fjögur frábær ungmenni koma nú fram, hvert með sína sýningu en undir yfirheitinu VHS krefst virðingar. Skammstöfunin stendur fyrir nöfnin þeirra: Vilhelm Neto, Vigdís Hafliðadóttir, Hákon Örn Helgason og Stefán Ingvar Vigfússon. Auk þeirra koma fram tveir gestir, Ragnhildur Veigarsdóttir sem syngur (eigið lag) með Vigdísi og viss aðili sem sér um kynningu í upphafi af skjá og gæti vel orðið fimmti uppistandarinn ef hann þarf að leita sér að nýrri vinnu einhvern daginn.
Þau hafa hvert sinn stíl. Villi Neto er glaðhlakkalegur og mjög hreyfanlegur á sviðinu, hleypur um og leikur með öllum kroppnum; Stefán Ingvar er stilltur, jafnvel hálf-kuldalegur, gengur hægt um gólf og talar eins og strangur kennari („Eruð þið bólusett? … Hlátur er ekkert svar, já eða nei?“), en hann mýkist þegar á líður; Vigdís er alvörugefin, tínir fram orðin eins og þau komi henni sjálfri jafnmikið á óvart og okkur, feimnisleg og hikandi að sjá en eitursvöl undir niðri. Hákon Örn er brosleitur og kemur fyrir sem afar sjálfsöruggur ungur maður en grefur svo smám saman undan sjálfum sér.
Það má ekki segja mikið um efni hvers og eins en vonandi óhætt að gefa smá sýnishorn. Villi Neto sagðist vera alinn upp í Portúgal, annars ræddi hann ekki mikið um sjálfan sig; en vegna þessa uppruna er það ekki lítið afrek hvað hann hermir snilldarlega eftir dönskum, sænskum og norskum hreim þegar hann tekur fyrir norrænt sjónvarpsefni. Hin þrjú eru býsna sjálfmiðuð í sínum texta en ævinlega í því skyni að gera lítið úr sjálfum sér, draga eigin persónu sundur og saman í háði. Frásögn Stefáns af hroka Reykvíkingsins í vetrarfærð úti á landi og hallærisganginum sem af honum leiðir var fyndin en hlýjaði manni líka um hjartaræturnar vegna hinnar einstöku aukapersónu sem bjargaði málum. Vigdís lagði sig einkum fram um að skapa sína eigin persónu þannig að okkur yrðu ljós öll megineinkenni hennar, kostir og gallar. Þar komu einkum við sögu annars vegar ofhugsun og hins vegar hvatvísi, andstæðir eiginleikar sem hafa báðir komið henni í koll, hvor á sinn hátt. Hákon var til dæmis að kenna okkur ólíkar aðferðir til að díla við kvíða, eflaust mjög gagnlegar; létti svo á í lokin með því að túlka grunnskólaball. Þar þekktu margir í salnum sjálfa sig, heyrðist mér.
Öll voru þau verulega fyndin og fyrir utan einstaka skot á stjórnmálamenn og sjónvarpsseríur sem áttu það skilið var gaman þeirra græskulaust – nema gagnvart þeim sjálfum. Mér fannst hrikalega gaman – þó að ég hafi kannski ekki hlegið alveg eins mikið og konan við hliðina á mér sem beinlínis hló sig jafnt og þétt gegnum alla sýninguna og missti aldrei úr brandara. Það var svo stór bónus að fá að heyra þær Vigdísi og Ragnhildi taka nýjasta lag hljómsveitarinnar Flott en Vigdís semur einmitt bráðsmellna texta fyrir þá grúppu.
Silja Aðalsteinsdóttir