Ég var búin að lesa mikið hrós um Sóley Rós ræstitækni sem Kvenfélagið Garpur sýnir nú í Tjarnarbíó þegar ég loksins sá hana í gærkvöldi. Þrátt fyrir ítarlegar lýsingar á efni og útliti sýningarinnar í umsögnum um hana tókst henni að koma mér rækilega á óvart.

Það er fyrst og fremst leikurunum að þakka og þá einkum Sólveigu Guðmundsdóttur sem er mögnuð í titilhlutverkinu. Hún býr til heila manneskju á sviðinu, með karakter og sögu, sérstakan talsmáta, stóra og smáa takta og kæki, vitsmuni, veikleika og styrkleika, djúpstæða réttlætiskennd en líka djúpstæða minnimáttarkennd. Mér fannst ég þekkja Sóleyju Rós eins vel og sjálfa mig meðan ég horfði á hana. Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur Halla, manninn hennar, og hann verður líka heil manneskja, furðulega nákomin áhorfandanum þó að hann fái ekki nærri því eins mikið rúm í verkinu og Sóley. Þau vinna hlutverkin aðdáunarlega vel undir stjórn Maríu Reyndal sem líka samdi verkið ásamt Sólveigu upp úr viðtölum við raunverulega fyrirmynd Sóleyjar Rósar.

Sóley Rós ræstitæknir

Eins og allir leikhúsáhugamenn vita nú þegar fjallar þetta verk um sára reynslu hjóna á Akureyri þegar barn þeirra fæðist andvana á Landspítalanum í Reykjavík, að einhverju leyti fyrir andvaraleysi starfsfólks sem hlustaði ekki þegar Sóley lýsti líðan sinni og alvarlegum einkennum legvatnssýkingar. En það sem kom á óvart var hvað verkið er dillandi fyndið og skemmtilegt í bland við harminn. Hann tekur yfir um tíma í seinni hlutanum en fyrri hlutinn, sem segir okkur frá lífi Sóleyjar fram að því þegar hún hittir Halla, kynnum þeirra og lífi fram að óléttu, var léttur en þó efnismikill og upplýsandi. Það var fróðlegt að heyra um líf þessarar norðlensku alþýðustúlku sem eignaðist sitt fyrsta barn fimmtán ára og hafði ekki hugmynd um að hún væri ólétt fyrr en hún var komin rúma sjö mánuði á leið. Hún eignast annað barn og það þriðja með einhverjum aulum sem koma engan veginn eða illa fram við hana en sjálf er hún orkubolti sem aldrei fellur verk úr hendi og sér um sig og sín börn af óþrjótandi dugnaði. Við fáum þá hugmynd að hún hafi aldrei bugast fyrr en eftir viðskipti sín við starfsfólk Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Það er átakanleg niðurstaða og ætti að vera lærdómsrík.

Egill Ingibergsson gerir leikmyndina sem er snilldarlega einföld en þénug – maður glennir upp glyrnur þegar viðtalspallur breytist í sjúkrastofu, nánast með einu handtaki Sveins Ólafs sem er á sviðinu hvort sem er. Halli er allan tímann á sviðinu með konu sinni. Egill stýrir líka lýsingu sem virkjar tilfinningar bæði leikara og leikhúsgesta. Búningar Margrétar Einarsdóttur eru svo ekta að það kom mér á óvart að einhver hefði séð um þá sérstaklega. Og Úlfur Eldjárn semur tónlist og sér um hljóðmyndina af innsæi og smekkvísi.

Tjarnarbíó var fullt í gærkvöldi og ég er ekki hissa á því. Þessi sýning hlýtur að spyrjast vel út – hún er sönn og áhrifamikil og afar skemmtilegt leikhús. Ekki missa af henni.

Silja Aðalsteinsdóttir