Ógleymanlegur söngleikur um ást, dauða og vonbrigðiFélagar í Leikfélagi Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð hafa rifjað upp minningar sínar frá yngri árum í vetur og láta þær nú lifna við í skuggalegu rýminu í kjallara skólans. Verkið heitir Ógleymanlegur söngleikur um ást, dauða og vonbrigði og leikstjóri er Stefán Ingvar Vigfússon, margreyndur í starfi með leikfélögum áhugamanna og fagmanna þótt ungur sé. Leikhópurinn samdi sjálfur bæði tónlist og texta en Friðrik Margrétar-Guðmundsson var tónlistarleiðbeinandi. Tónlistin var fjörug og áheyrileg og Iðunn Gígja Kristjánsdóttir átti sviðið á löngum köflum sem hljómborðsleikari, leikkona og söngkona.

Dauðinn úr titli verksins sveif yfir vötnunum í upphafi: „Allir deyja“ var fyrsta lagið, kanínan þín sæta, Siggi, mamma, pabbi, konan í ísbúðinni og allir félagarnir, samviskusamlega taldir upp. Hólmfríður Hafliðadóttir var bæði krúttlegur og meinlegur dauði með snyrtilegan ljá í fanginu. Dauðinn var líka upphaf og hvati leikatriða Fannars Gunnsteinssonar því líf hans allt var merkt því að lítill drengur hafði hann óvart stigið á frosk og drepið hann. Fannar rambaði skemmtilega á tragíkómískum mörkum í frásögn sinni.

Vonbrigði titilsins komu verst niður á Lenu (Lena Hulda Örvarsdóttir) sem eina stundina var hyllt sem snillingur og verðandi rithöfundur af kennaranum og félögum sínum en síðan kom í ljós að kennaranum hafði orðið á. Hörður (Helga Guðný Hallsdóttir) átti verðlaunasöguna og Lena var hunsuð og niðurlægð.

Lena lenti líka illa í ástinni, bæði með því að vera skilnaðarbarn (og slysabarn í ofanálag!) og svo þegar kærastinn (Tryggvi Kolviður Sigtryggsson) sveik hana fyrir Gerði (Lóa Björg Finnsdóttir). Lena tók öllum þessum vonbrigðum og svikum með viðeigandi dramatík og er verulega efnileg söngkona. Tryggva Kolviði nægðu hins vegar ekki þær Lena og Gerður, hann var líka bitbein Arndísar (Arndís María Ólafsdóttir) og Arngunnar (Arngunnur Hinriksdóttir) sem elskuðu hann báðar svo mikið að hann varð þeim að vinslitum sem virtust vera afar dramatískt. En þegar Hólmfríður ætlar seinna að sætta þær vinkonurnar þá kemur í ljós að þetta gerðist í fjórða bekk í grunnskóla og þær eru löngu komnar yfir allt saman, ást og vinslit.

Dramað náði Iðunni Gígju strax í fimm ára bekk þegar hún varð fyrir því að setjast hjá ljóshærðum dreng (Óðinn Jökull Björnsson) sem trúði henni fyrir því að hann væri galdrakarl. Og þetta eru ekki orðin tóm því hann lætur umsvifalaust hár vaxa á fótleggjum stúlkubarnsins! Gegn því að losa hana við hárin vill hinn sataníski drengur sál hennar og Iðunni finnst hún ekki eiga annarra kosta völ en láta undan (hún hefur líklega aldrei heyrt um Veet-háreyðingarkrem) og hafnar í Víti eftir andlátið.

Þessi Faust-kafli söngleiksins var sá skemmtilegasti, einkum vegna innilegrar, írónískrar innlifunar Iðunnar í hlutverkið. En þó að helvíti sé barnvænn staður, að sögn drengsins, líkar Iðunni ekki þar, hún skorar sataníska drenginn á hólm og verkinu lýkur á splunkunýjum „Ég er komin heim“-texta og lagi sem hún flytur með öllum hópnum í himnaríki, sátt við sín fótleggjahár!

Það ríkti sönn lífs- og leikgleði í skuggalega kjallaranum í MH í gærkvöldi og eitt er víst: þarna leynast mikil hæfileikabúnt.

Silja Aðalsteinsdóttir